14.05.1984
Neðri deild: 89. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5896 í B-deild Alþingistíðinda. (5252)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt að hv. 3. þm. Reykv. áttar sig ekki á því hvenær hann segir satt og hvenær hann segir ósatt eða a. m. k. gerir hann sínar hugmyndir að sannindum þegar honum hentar það.

Ég vil fyrst svara fyrstu fullyrðingu hans í frumræðu hans því ég geri ráð fyrir að hann eigi eftir að tala hérna tvisvar enn, á meðan hann má tala, í langan tíma í kvöld eða nótt. Hann sagði að ég hefði verið kosinn í bankaráð Útvegsbankans af fyrrv. ríkisstj. Ég vil leiðrétta það. Ég var kosinn í bankaráð Útvegsbankans af lista sjálfstæðismanna og Sjálfstfl. Það eru fyrstu ósannindin.

Þá talaði hann um áhuga minn fyrir tollkrítarmálum og að ríkisstj. undir forustu Alþb.-manna, sem fóru með fjármál í síðustu ríkisstj., hefði hjálpað mér. Það er líka rangt. Þetta hefur verið baráttumál síðan 1960, og það mál náði hámarki árið 1962 við stofnun tollvörugeymslunnar, ásamt öðru máli, sem enn er ekki komið í gegn, og það er fríhafnarmálið. Fríhafnarmálið, tollkrítarmálið og tollvörugeymslan voru baráttumál sem ég vann að að beiðni samtaka atvinnurekenda á þeim tíma.

Aldrei þessu vant fór hv. 3. þm. Reykv. rétt með er hann gat þess að þegar ég lagði fram frv. um að leggja niður skattheimtu af gjaldeyrissölu ríkisbankanna hafði því ekki verið vel tekið af ríkisstj. Þá gerði ég tilraun til þess, ef hv. þm. hefur einhvern áhuga á að heyra hvernig gangur málanna var, að fá samþykkt að þessi ósanngjarni skattur á gjaldeyrissölu ríkisbankanna yrði ekki tekinn af brúttósölu bankanna, heldur af nettósölu eins og ráð er gert fyrir af tekjum annarra fyrirtækja. Það var ekki heldur samþykkt svo ég lagði fram frv. um að fella niður skattskyldu á bönkunum. Þá var það sem fyrrv. fjmrh. kemur fram með sitt frv. um almenna innheimtu skatta af öllum innlánsstofnunum og gegn því að gjaldeyrisskatturinn yrði felldur niður í áföngum og dró ég því frv. mitt til baka eða lagði ekki áherslu á það. Það kemur fram í ræðu sem ég er búinn að vitna í tvisvar í dag, ræðu fyrrv. fjmrh., að hann leggur til að gjaldið lækki úr 60% niður í 50% á því ári og í 40% næsta ár. Síðan átti lækkunin að halda áfram þangað til gjaldið yrði fellt niður, átti hinn almenni skattur á innlánsstofnanir að koma í staðinn. Það var ekki heldur rétt með þetta farið.

Í fjórða lagi hélt þessi fyrirmynd Alþb.-manna og leiðtogi kommúnista á Íslandi hjá Alþb. því fram að til mín hefði verið leitað þegar fyrrv. ríkisstj. þurfti á að halda, gaf í skyn að þar hefði átt sér stað kaup kaups á einhvern hátt. Ég vil biðja virðulegan þm. um að færa orðum sínum stað og ég vil biðja hann um að benda á það, ef hann getur bent á það hvar mitt atkvæði hefur í eitt einasta skipti ráðið úrslitum fyrir fyrrv. ríkisstj. eftir að hún var mynduð. Það væri þakkarvert frá minni hálfu. Bara eitt skipti, ég bið ekki um meira. Það var í eitt skipti sem ég hefði notað atkvæði mitt þannig og það var til að verja ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens falli í upphafi. Það var í eina skiptið sem ég hefði notað það þannig.

Það er alveg augljóst að það er án ótta við þessa stjórnarandstöðu sem ríkisstj. framkvæmir það sem hún telur rétt og gott fyrir fólkið í landinu. Það er þess vegna sem þjóðin treystir þessari ríkisstj. betur en nokkurri annarri ríkisstj. sem ég man eftir að undanskilinni viðreisnarstjórninni. Og það þýðir ekki þegar rök þrjóta að grípa til ósanninda. Það þýðir ekki, virðulegur 3. þm. Reykv., forustumaður Alþb. og kommúnistadeildar þess. Það er búið að gera það svo oft í gegnum tíðina, og ég, sem er nú sextugur, hef ekki heyrt neitt nýtt úr þeim herbúðum síðan ég var þingsveinn á þessum stað 1935–1938 eða 9. Þetta eru nákvæmlega sömu orðin, má segja, sem töluð eru nú og þá.

Ég hef vitnað hér í Ragnar Arnalds fyrrv. fjmrh. og ég hef kallað það svik að í staðinn fyrir að lækka gjaldeyrisskatta bankanna úr 60% niður í 40% eru þeir hækkaðir aftur í 60%, þrátt fyrir loforð, sem ég vitnaði í, í þingræðu frá þeim tíma. Það kalla ég svik og það gerði ég líka í Ed. Og virðulegur þm. Ragnar Arnalds svaraði fyrir sig. Við áttum þar í deilum. Það þarf því ekkert að slá undir belti og segja að virðulegur þm. Ragnar Arnalds sé ekki í þessari deild til að svara fyrir sig. Hann er búinn að því í Ed. og minn málflutningur er ekkert öðruvísi hér en hann var þar. Málflutningurinn er nákvæmlega sá sami hér, allt að því sömu orðin frá hv. þm. Svavari Gestssyni í þessari deild og Ragnari Arnalds, virðulegum þm., í Ed. Það skyldi þó aldrei vera að Alþb.-menn finni að þjóðin vill að stjórnin vinni að því að losa hana undan þeim áhrifum sem Alþb. hefur náð, sem sagt að afsósíalísera þjóðfélagið. Það er þess vegna sem fólkið stendur með þessari ríkisstj.

Það er talað um það hafi verið krani á ríkissjóði. Það er alveg rétt, það er krani. Þegar ég opnaði hann var ekkert annað en loft sem kom úr honum. (Gripið fram í.) Já, það er rétt, virðulegi þm., fúlt loft.

Það er talað um að vera sanngjarn í skattheimtu. Virðulegur 3. þm. Reykv. talaði um hve sanngjarn hann væri. Er sanngjarnt að taka fyrirframskatta af bönkum frekar en öðrum fyrirtækjum eða stofnunum? Af hverju á að taka skatta fyrir fram af þessum stofnunum og hafa ekki hugmynd um hvernig útkoma ársins verður? Af hverju að taka skatt af brúttótekjum af gjaldeyrissölu og skapa þar með taprekstur á þeim hluta bankanna? Það kalla ég ekki sanngjarnt. Það er langt frá því að vera sanngjarnt.

Það er ágætt að fá góð ráð og sjálfsagt að fara eftir þeim. En þeir fóru sjálfir eftir sínum góðu ráðum og það hefur skapað allan þann vanda sem þjóðfélagið er í. Við erum að reyna að gera eitthvað annað og öðruvísi en Alþb. vegna þess að hin góðu ráð þess leiddu þjóðina á öllum sviðum út í ógöngur sem við erum nú að reyna að komast út úr. (SvG: Ekki stendur vel ríkissjóður hjá þér.) Hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til þess að hann standi vel þegar það vantar 25% til þess að endar nái saman eftir ykkar fjárlögum? (SvG: Þetta er rangt.) Þetta er rétt. Þetta er nákvæmilega rétt. Það var 1/4 af fjárlögum sem vantaði upp á að endar næðu saman á síðasta ári. (SvG: Vill ekki hæstv. ráðh. rökstyðja þetta?) Ég er búinn að gera það oft og ég ætla ekki að fara að standa í fjárlagaumræðu núna klukkan að ganga tvö þó að hér hafi meira verið talað um fjárlögin en tunglferðir, svo langt höfum við ekki farið frá því sem er á dagskrá. — Ég mundi glaður kaupa lóð á tunglinu handa hv. þm. Guðmundi Einarssyni, 4 landsk. þm. (Gripið fram í.) Ekki í Suður-Frakklandi. Svo illt vil ég ekki Frökkum. Ég er vinur þeirra.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Það er búið að ræða þetta frv. með því frv. sem var á dagskrá á undan þessu svo ég læt máli mínu lokið að sinni.