15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5905 í B-deild Alþingistíðinda. (5257)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í dag er eldhúsdagur á Alþingi. Eldhúsdagur er orð sem kemur fram seint á síðustu öld og þýðir tiltektardagur, þegar framkvæmd eru ýmis innanhússtörf sem dregist hafa. Jón Trausti talar um „að taka sér eldhúsdag og róta til í þessari stofnun.“ Þau orð duga vel í dag.

Sá tónn og sá taktur, sem þessi ríkisstj. sló strax í upphafi lífdaga sinna, hefur reynst sjálfum sér samkvæmur. Sú leið, sem var valin í byrjun til að leiðrétta hagsýsludæmið, er dyggilega fetuð enn af karlmannlegri festu, enda undir hljómfalli hinna hörðu gilda. Í stefnuræðu hæstv. forsrh. sagði, með leyfi forseta:

Ríkisstj. var ekki síst mynduð til þess að koma þjóðinni út úr þeim gífurlega efnahagsvanda sem við blasti og hún taldi brýnt að róttækar aðgerðir yrðu ákveðnar til þess að koma í veg fyrir enn vaxandi verðbólgu, stöðvun atvinnuvega, atvinnuleysi og enn frekari skuldasöfnun erlendis.“ En ríkisstj. hafði líka að markmiði „verndun kaupmáttar lægstu launa og lífskjara þeirra sem þyngst framfæri hafa.“

Síðan rak lestina lítil félagsmálamús, sem áður var lýst af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur. Leið launaskerðinga og félagslegra skerðinga var samt valin til að ná tökum á verðbólgudraugnum eins og hann væri orsök vandans en ekki einkenni og verðbólgan hjaðnaði eins og ætla mátti. Félagslegar bætur voru notaðar til að hækka laun hinna verst settu, en þær urðu ekki marktækur stuðningur, enda meira í ætt við sýndarlátbragð, svo að ekki sé minnst á hve fráleitt það er að fólk þurfi að sækja sér lífsviðurværi í félagslegum bótum í stað þess að geta unnið fyrir sér með launum sínum.

Síðan fengum við óraunsæ fjárlög og nokkru síðar enn óraunsærri fjárlög. Þar voru ekki á ferðinni nýsköpunarflíkur nema ef vera skyldi að þær líktust nýju fötunum keisarans.

Það er reyndar undarlegt dýraríkið í efnahagslífi stjórnarinnar. Sem örþrifaráð var ógnað með gríðarmiktum bola, en hann reyndist þá bara vera lítil mús. Nú síðast er bjargvættur boðin í bandormslíki. Ég veit ekki betur en barist hafi verið gegn bandormum í þessu landi og reynt að útrýma þeim eftir að menn skyldu ferli þeirra og skaðsemi. Nægir þar að minna á sullaveikibandorminn. Nú bregður öðruvísi við og á nú bandormur að verða kerfinu til bjargar.

Það fé, sem afla átti á innlendum lánsfjármarkaði, brást og þrautatending ríkisstj. er hin sama og þeirra sem á undan fóru þrátt fyrir gagnrýni hennar á fjárfestingarstefnu fyrri ára. Hún tekur stórfelld erlend lán, að því er virðist eins og mönnum sé þetta ósjálfrátt. Er nokkur von þótt sú spurning vakni hvort okkur Íslendingum sé í raun um megn að standa sjálfir að rekstri þessa þjóðfélags. Þurfum við að búa í þessu landi á þann hátt að við veðsetjum okkur í útlöndum? Getum við ekki valið okkur þá forgangsröð og þá hófsemd í fjárfestingum sem leyfir okkur meira efnahagslegt sjálfstæði? Nei, hugmyndaflug ríkisstj. og dirfska hefur því miður reynst lítilla sanda og sæva og hún gengur troðnar slóðir. Áfram þenur vindur seglin í óarðbærum framkvæmdum, eins og margumræddri flugstöð og seðlabankabyggingu til að taka táknræn dæmi, og enn sér engan samdrátt í risnu og annarri eyðslu yfirstjórnar ríkisins. Enn er dekrað við stóriðjudrauminn og mokað fé í hið sísoltna gin stórvirkjunarframkvæmda.

Á sama tíma er reynt að spara. En hvar? Má ég nefna dæmi? Nú opnast dyr til nýrra áður óþekktra atvinnutækifæra, sem byggjast fyrst og fremst á hugviti og þekkingu, og við viljum vera með inn í framtíðina, tölum t. d. mikið um líftækni þessa dagana. En hvað er verið að hugsa þegar samtímis er skorið miskunnarlaust niður í menntakerfinu og vaxtarbroddur þessara framtíðarkosta okkar stýfður með því að skerða lán námsmanna? Okkur er lífsnauðsyn að eiga menntað fólk, sem nær tökum á tækninni, en verða ekki leiksoppar tækninnar. Áfram er kennarastéttin láglaunastétt enda að mestu skipuð konum. „Er rétt að stoppa síðasta karlkennarann upp?“ var fyrirsögn í dagblaði í s. l. viku þar sem greint var frá flótta ungra karla úr kennaraliði grunnskóla þar sem konur eru 85%–90%.

Árið 1980 höfðu 64% kvenna skólagöngu að baki sem var minna en tíu ár, en aðeins 28% karlar. Breytingar eru þar á til batnaðar, en þó erum við talsvert að baki öðrum Norðurlandaþjóðum í þessum efnum enn. Áfram er óviðunandi misrétti til menntunar milli dreifbýlis og þéttbýlis og höfum við kvennalistaþingkonur flutt mál á þessu þingi með þm. allra flokka til úrbóta í þessum efnum.

Annar knérunnur sem líka á að höggva í er heilbrigðisþjónustan. Við státum okkur af því að hafa lagt rækt við hana, enda höfum við trúlega notið góðs af, með lengsta meðalaldur og einn lægsta ungbarnadauða í heimi. Sömuleiðis höfum við mátt vera stolt af því að þeir sem á þessari þjónustu þurfa að halda áttu að henni aðgang án mikils tilkostnaðar. Þessu á nú að breyta. Auk niðurskurðar á framlögum til tannviðgerða barna og unglinga er líka áætlaður niðurskurður á sjúkradagpeningum sem mun bitna sérstaklega á húsmæðrum, námsmönnum og þeim sem eru nýbyrjaðir í starfi. Einnig eru fyrirhugaðar stórfelldar hækkanir lyfja og sérfræðiþjónustugjalda, göngudeildar- og rannsóknagjalda. Þessar hækkanir eru fyrirhugaðar án vitneskju um það hverjir neytendur eru. Heilbrigðisþjónustan er að vísu stór útgjaldaliður hjá ríkissjóði og þar má eflaust spara, ekki síst með því að efla fyrirbyggjandi heilsugæslu. Ef til vill munar ekki þann sem einstaka sinnum notar lyf eða læknisþjónustu um að greiða það gjald sem upp á að setja. En ég spyr: Hve margir eru þeir sem nota lyf að staðaldri vegna langvinnra sjúkdóma, en eru ekki gjaldgengir til þeirrar undanþágu frá greiðslu sem lyfjakort gefa? Og hve margir eru þeir sem þurfa að staðaldri að sækja göngudeildir og rannsóknarþjónustu? Um þetta er ekki vitneskja, en þó er þessum ráðum beitt, að því er virðist í blindni, án tillits til þeirra sem fyrir verða.

Eitt af undirstöðuatriðum í framkvæmd friðarfræðslu er að þroska hæfileika barna til að setja sig í spor annarra. Það er eins og þessi ríkisstj. hafi ekki getað sett sig í spor þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Og það hlýtur að skýra þann skort á pólitískum vilja sem ríkir til að tryggja og rétta hlut þeirra og halda frið við þegna þessa lands. Þetta eru óráð sem benda til brenglunar á verðmætamati og forgangsröð.

Lánsfé er sólundað í prjálhýsi og munað, en börnin og unglingarnir eiga að borga þessa stundarvímu og stolnar stundir nýríkrar þjóðar. Menntunarlitlum á láglaunasvæði ætlum við þeim að axla skuldir foreldranna og mæta framtíð þar sem hugvitið verður veðhæft. Í Völuspá segir frá því að dag hvern riðu æsir um brúna Bifröst til himna að Urðarbrunni undir lífsins tré Aski Yggdrasils, en þar áttu goðin dómstað sinn. Við brunninn voru þrjár meyjar og skópu þær mönnum aldur, örlaganornirnar Urður, Verðandi og Skuld. Völva framtíðarinnar hét Skuld — og hver er hún þessi skuld við framtíðina? Fráleitt er það sú skuld sem við skiljum eftir handa börnum okkar. Miklu fremur mundi það vera sú skuld og skylda sem okkur ber við framtíðina og þá sem á eftir okkur koma, þ. e. að skila lífsskilyrðum og jörðinni, ekki bara heilum og óskemmdum áfram, heldur betri en þau voru þegar við tókum við þeim. Efnahags- og þróunarstofnun Evrópu hefur nýlega reiknað út að Ísland er sjötta ríkasta land í heimi, miðað við verðmæti þjóðarframleiðslu á hvern einstakling. Það færir okkur ábyrgð og skyldur bæði gagnvart okkur sjálfum og öðrum sem bera minna úr býtum en við. Okkur hefur gengið illa við það að skipta því sem til skiptanna er og gildir það jafnt innanlands sem utan. Þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur um þróunaraðstoð hafa ævinlega verið langt undir áætluðu marki sem er um 1% af þjóðartekjum. Þarna þurfum við að taka okkur verulega á.

Þegar hæstv. fjmrh. fannst að freklega ætti að ganga á rétt hans talaði hann um að flýja land. Ríkisstj. hefur gengið freklega á rétt launþega og þeirra sem minna mega sín. Þeir munu þó varla geta eða vilja flýja land. En það má ekki ætla þeim að lifa á Íslandssögunni einni saman. Til þess að fólk uni í landi sínu verður það að geta lifað þar mannsæmandi lífi.

Í von um að öll él birti upp um síðir, af þjóðhollustu og þrautseigju hefur fólk stutt þessa ríkisstj. En í skammsýni sinni kippir hún undan sér lífsgrundvellinum með því að ofbjóða fólkinu og bítur þannig sundur þráðinn sem heldur uppi vef hennar, eins og kóngulóin í ævintýrinu forðum. Það þarf nefnilega ekki bara áræði og festu, heldur líka mannúð og réttlætiskennd til að velja og standa við framtíðarstefnu sem dugir þessari þjóð til að komast á réttan kjöl og til lands úr þessu skuldafeni án þess að missa sjónar á velferð fólksins.

Þessi ríkisstj. hefur ekki reynst þeim vanda vaxin. Og hljómfall hinna hörðu gilda má ekki lengur vera einrátt, þá verða of margir út undan. Velferð þjóðarinnar byggist ekki síst á því að hin mjúku gildi eigi aðgang að því að ákveða forgangsröðina. Þess vegna þurfa þau að komast að í ríkari mæli. — Ég þakka áheyrnina, góða nótt.