15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5915 í B-deild Alþingistíðinda. (5260)

Almennar stjórnmálaumræður

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á fyrsta starfsári núverandi ríkisstj. hefur íslenskur landbúnaður þurft að glíma við afleiðingar þungra áfalla. Góðviðrisdagar hins fyrsta sumarmánaðar fylla okkur þó bjartsýni á að á enda sé kuldaskeið síðustu ára sem valdið hefur bændum svo þungum búsifjum. En enda þótt tekist hafi að ná verðbólgunni niður eru ýmsar afleiðingar hennar enn þá þungar í skauti fyrir bændur og vinnslustöðvar þeirra eins og fram kom við uppgjör á afurðaverði fyrir s. l. ár. Og þrátt fyrir samdrátt í hefðbundinni búvöruframleiðslu á síðustu árum erum við enn í vandræðum með að finna viðunandi markað fyrir alla framleiðsluna. Að vísu stafar það að nokkru leyti af birgðasöfnun frá síðustu árum þar sem markaðir drógust þá saman í viðskiptalöndum okkar erlendis.

Ríkisstj. leggur mikla áherslu á að þessar birgðir verði seldar sem allra fyrst til þess að losna við frekari kostnað og aðra erfiðleika sem dráttur á því hefði í för með sér. Þess vegna hefur ríkisstj. samþykkt að greiða jafnóðum og útflutningur fer fram verðtryggingu að því marki sem heimildir leyfa. Nægi það ekki verði heimilt að greiða það sem á vantar af fjárlögum næsta árs. Augljóst er þó að slíkt væri skammgóður vermir ef ekki væri reynt að gera sér grein fyrir því hvað framtíðin ber í skauti sínu á þessu sviði. Þess vegna hef ég skipað nefnd, sem þegar hefur tekið til starfa, til þess að gera till. um framleiðslustefnu í landbúnaði sem tryggi bændum viðunandi afkomu og atvinnuöryggi. Nauðsynlegt virðist vera að halda mjólkurframleiðslunni í svipuðu magni og hún var árið 1981. Miðað við meðalafurðir af þeim fjárstofni, sem á fóðrum var s. l. vetur, má ætla að kindakjötsframleiðslan verði nokkuð á annað þúsund tonn umfram það sem selst hefur á innlendum markaði. Mér virðist eðlilegt að við reynum að halda útflutningi á dilkakjöti til Færeyja en við stefnum einmitt að vaxandi viðskiptum við þá. Það hefur verið okkar besti útflutningsmarkaður og Færeyingar kjósa íslenska dilkakjötið fremur öðru. Annar útflutningur mun í framtíðinni miðast við að viðunandi markaðir fáist.

Enda þótt bilið milli framleiðslunnar og innlenda markaðarins að viðbættri Fræeyjasölu sé ekki ýkja mikið er óviðunandi fyrir landbúnaðinn að brúa það bil með frekari samdrætti í framleiðslu án þess að annað sé byggt upp í staðinn. Að vísu er að einhverju leyti hægt að létta undir með að leggja áherslu á að sem stærstur hluti andvirðis búvöruframleiðslunnar gangi til greiðslu vinnulauna. Í því skyni ákvað ríkisstj. að draga úr rekstrarkostnaði landbúnaðarins með því að fella niður söluskatt af helstu landbúnaðarvélum og tækjum á s. l. ári.

Vaxandi möguleikar eru líka á nýtingu innlends fóðurs með framförum við þurrheys- og votheysverkun og öðrum framleiðsluaðferðum, t. d. kögglun á heyi með eða án íblöndunar annarra fóðurefna. Á liðnum sumrum hefur líka komið í ljós að ræktun á byggi er álitleg til fóðuröflunar. En enda þótt þannig væri nokkurn veginn hægt að halda í horfinu og jafnframt að benda á ýmsar leiðir til hagræðingar þá er það ekki nóg. Kyrrstaða í landbúnaði eins og á öðrum sviðum er sama og afturför. Það er eðli bóndans að sækja fram, byggja upp og búa í haginn fyrir framtíðina og þar þarf því að leita að fleiri tækifærum.

Hér hefur verið bent á að af nýjum atvinnugreinum er loðdýraræktin nærtækust en hún hefur verið að breiðast út síðustu árin. Skipuleg uppbygging fóðurstöðva, sem nú er unnið að, er grundvallaratriði og hefur verið ákveðið að verja framlögum úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins í þessu skyni ásamt nauðsynlegu lánsfé. Áætlað hefur verið að loðdýrabú fyrir fjölskyldubú sem er 11/2 ársverk muni kosta 3–4 milljónir króna. Það er athyglisvert að atvinnurekstur, sem veitir t. d. 150 manns atvinnu, kostar 300–400 milljónir í stofnkostnað og líka hversu lítill hluti það er af stofnkostnaði í ýmsum öðrum atvinnugreinum, sem rætt hefur verið um að koma af stað til að auka atvinnu og framleiðslu þjóðarbúsins. Þetta er atvinnurekstur, sem notar lítið af innfluttum aðföngum, en afurðir eru seldar fyrir erlendan gjaldeyri, og er að því leyti sá hagkvæmasti sem völ er á.

Sama er að segja um fiskeldi og fiskirækt, sem Framleiðnisjóður mun einnig veita stuðning til eftir því sem geta leyfir. Með hverju ári sem líður gefa rannsóknir og reynsla okkur fyrirheit um nýja möguleika á þessu sviði.

Þjónusta við ferðamenn er einnig vaxandi þar sem stöðugt fjölgar erlendum ferðamönnum sem vilja njóta þess sem náttúra landsins hefur að bjóða. Miklar framkvæmdir í vegagerð síðustu ára eru mikilvægar fyrir þá atvinnugrein og annan atvinnurekstur úti á landi enda þótt tímabundin ófærð á allt of mörgum vegum á hverju vori minni okkur á það að mikið sé þar enn óunnið, eins og vissulega á fleiri sviðum. Sérstaklega vil ég benda á endurbyggingu dreifikerfis rafmagns þar sem sums staðar er að skapast hreint neyðarástand í þeim málum.

Fyrir þinglok verður væntanlega samþykkt frv. til l. um breytingu á lögum um skógrækt, þar sem tekin eru inn ákvæði um ræktun nytjaskóga, og í fjárlögum þessa árs er í fyrsta sinn veitt sérstök fjárveiting í því skyni.

Ég hef bent hér á nokkrar leiðir til eflingar íslensks landbúnaðar en vil jafnframt minna á hvaða grundvallarþýðingu hin hefðbundna búvöruframleiðsla hefur fyrir þjóðfélagið. Það má ekki henda að við látum hana falla í skuggann þó breyttar aðstæður valdi þar erfiðleikum í bili. Þar eru líka í húfi hagsmunir miklu fleiri en bænda og raunar þjóðarinnar allrar.

Við megum heldur ekki gleyma því að sama þróun hefur átt sér stað í öllum löndum í kringum okkur og víðar. Við minnumst frétta af tíðum fundum leiðtoga Efnahagsbandalags Evrópu á s. l. vetri þar sem landbúnaðarmálin voru viðfangsefnið. Þessar þjóðir leggja kapp á að styrkja stöðu innlends landbúnaðar og víða kemur 20–40% af búvöruverðinu til bænda frá opinberum aðilum, jafnframt því sem lagðir eru háir tollar og innflutningshömlur á innflutning eins og við höfum orðið fyrir barðinu á í tilraunum okkar til útflutnings þangað. En þátttaka þjóðarleiðtoga í þessum umræðum sýnir okkur að þeir telja það skyldu þjóðfélagsins í heild að leysa þann vanda sem breyttar aðstæður hafa skap að.

Ég vil því leggja áherslu á að það má ekki verða á kostnað þeirra, sem við landbúnað vinna, að halda uppi byggð í öllum héruðum landsins: En ég hef þá trú að ef landbúnaðurinn fær nægilegan stuðning til að nýta þau tækifæri sem honum bjóðast þá verði hann nægilega öflugur til að gegna því hlutverki og þjóðfélagið hefur ekki efni á því að láta þau tækifæri ónotuð. Hann er því hönnulegur sá áróður sem nú er af sumum rekinn gegn landbúnaðinum og þeim sem að honum vinna. Þar er mál að linni og þeim, sem halda honum uppi, skiljist að með því eru þeir að vinna gegn hagsmunum heildarinnar og þar með sínum eigin eins og annarra.

Við byggjum ekki upp réttlátt þjóðfélag og gott með úlfúð og illindum milli stétta og starfshópa. Það torveldar okkur ekki aðeins að ná þeim markmiðum, sem við höfum sett okkur í efnahagsmálum, heldur kemur einnig í veg fyrir að okkur takist að skapa hér betra mannlíf. Framsfl. leggur áherslu á samstarf og samvinnu og leysa á þann hátt viðfangsefni líðandi stundar og framtíðar. Mikill samdráttur þjóðarframleiðslu á síðustu árum hefur orðið okkur þungur í skauti og of margir einstaklingar sitja því við skarðan hlut. En Framsfl. væntir þess að á fyrsta starfsári ríkisstj. hafi með aðgerðum hennar tekist að leggja grundvöll að því að snúa vörn í sókn. — Þökk fyrir áheyrnina.