15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5923 í B-deild Alþingistíðinda. (5263)

Almennar stjórnmálaumræður

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Svo að það sé skilið í upphafi, þá mun ég ekki gera hér að umræðuefni núv. efnahagsvanda eða aðgerðir ríkisstj. á s. l. ári. Hversu alvarleg sem þessi mál kunna að vera eru þau samt sem áður minni en stærstu vandamálin sem við okkur blasa.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. í kafla um utanríkismál kemur mjög glögglega fram hver forgangsröðun verkefna þessarar ríkisstj. er í utanríkismálum. Fyrst að treysta sjálfstæði landsins, síðan að gæta hagsmuna þjóðarinnar, svo kemur þátttaka í norrænu samstarfi, varnarsamstarfi vestrænna þjóða, alþjóðasamvinna um efnahagsmál og starf hjá Sameinuðu þjóðunum. Það er ekki fyrr en að þessu loknu að talað er um að Ísland beiti sér fyrir auknum mannréttindum og friði. Þessu verður að breyta því að sjálfstæði lands eða hagsmunir þjóða, þátttaka í samstarfi er til lítils ef fyrir okkur liggur að tortímast í gereyðingarstríði.

Stærsti vandinn, sem við okkur blasir í dag, er ófriðarhættan. Það ástand, sem við búum við á norðurhveli í dag, kallast ógnarjafnvægi. Forsendur þessa ástands þekkja allir. Stórveldin, Rússar og Bandaríkjamenn, eiga hvort um sig kjarnorkuvopn sem nægja til að tortíma andstæðingnum mörgum sinnum.

Morgunblaðið, mesta afturhaldsblað á Vesturtöndum, hefur bölsótast út í þá friðarumræðu sem átt hefur sér stað undanfarið bæði hér á landi og erlendis. Það er eins og það geri sér ekki grein fyrir því að hættan sem yfir okkur vofir er ekki bara hættan á mögulegu stríði milli Rússa og Bandaríkjamanna. Hættan er fyrst og fremst fólgin í fordæminu sem falið er í vígbúnaðarkapphlaupinu milli stórveldanna. Þetta fordæmi leiðir af sér að nú er ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær. Einhver af hinum brjáluðu einræðisherrum utan Vesturlanda, einhver Ghaddafi eða Khomeini, kemst yfir kjarnorkuvopn og þá er ekki að spyrja að leikslokum því að menn af því sauðahúsi þekkja engan frið annan en útrýmingu óvina sinna. Allar hugsanir um takmarkað kjarnorkustríð eru blekkingar einar.

Af þessari ástæðu er það skylda íslenskra stjórnvalda að hafa það aðatmarkmið í utanríkismálum að tala fyrir friði og útrýmingu kjarnorkuvopna hvar sem er og hvenær sem er. Á vettvangi NATO, í norrænu samstarfi, í Evrópusamstarfi og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Við erum aðilar að vestrænu varnarsamstarfi og höfum þess vegna aðstöðu til þess að koma skoðunum okkar á framfæri þar sem máli skiptir. Þótt kjarnorkuvopnamagn stórveldanna sé risavaxið og meira en nokkur fær skilið er hættan í dag fyrst og fremst fólgin í því að gereyðingarvopn komist í hendurnar á einhverjum þeim vitfirringi, sem ekki hefur áhuga á ógnarjafnvægi, heldur á útrýmingu óvina sinna. Allt okkar starf hér er fánýtt ef gereyðingarvopnum er ekki útrýmt.

Það eru nú 16 ár til aldamóta. Á þessum 16 árum verður að skapa 20 þúsund ný störf á Íslandi. Nú er að verða liðið eitt ár af þessum 16 sem eftir eru og þessi ríkisstj. hefur ekkert spor stigið í þá átt að bregðast við þessum aðsteðjandi vanda. Þótt byggð verði stálver og steinullarverksmiðja, álver og kísilmálmverksmiðja, þá veitir það ekki nema um tvö þúsund manns atvinnu. Það er u. þ. b. sá hópur sem kemur til með að missa vinnuna í fiskiðnaði og landbúnaði á næstu 10 árum. Hér má engan tíma missa, hér verður að hefjast handa strax. Öllu framtaki fylgir áhætta, en í þessu framtaki verður að takmarka áhættuna með því að miða að mörgum og smáum starfseiningum í stað fárra og stórra. Lítil fyrirtæki eru bæði mannlegri og áhættan minni.

Hér tala menn um að takast þurfi á við vandann, en það er auðsætt af störfum þessa þings í vetur að það er ófært með öllu að takast á við vandann ef það ekki breytir vinnubrögðum sínum til muna. Það er tvennt sem kemur í veg fyrir að Alþingi Íslendinga skili árangri sem skyldi. Það fyrsta er yfirgengilegt skipulagsleysi í störfum Alþingis. Sá vandi er stór en það má kippa honum í lag ef vilji er fyrir hendi.

Hinn vandinn er öllu stærri og óviðráðanlegri, en það eru flokkahagsmunir sem koma í veg fyrir að einstaklingar, þm., geti beitt heilbrigðri skynsemi við ákvarðanatöku. Fjórflokkarnir eru fyrir löngu búnir að fyrirgera öllum sínum hugsjónum og sögulegum bakgrunni. Þeir hafa stjórnað íslensku samfélagi í áratugi og þeir eru með fingur sína alls staðar í embættismannakerfinu, í verkalýðshreyfingunni, í hagsmunasamtökum vinnuveitenda, í fyrirtækjum og í fjölmiðlum.

Menn kvarta yfir þverrandi virðingu Alþingis og áberandi áhrifaleysi. Þetta áhrifaleysi er augljóst og verður engum dulið lengur. Ég tel að þetta áhrifaleysi sé til orðið vegna þess að vinnubrögð Alþingis og þm. eru ekki lengur í anda þeirra vinnubragða sem tíðkast í þjóðfélagi nútímans. Aukinn upplýsinga- og fréttaflutningur gerir það að verkum að stjórnvöld eiga sífellt erfiðara með að viðhalda gamalli trú manna á föðurlega umsjón ríkisvaldsins og hlutverk einstakra manna við stjórnvölinn.

Flokkarnir hafa fyrir löngu fyrirgert rétti sínum með því að svíkja allt, sem þeir einu sinni stóðu fyrir, fyrir hagsmuni sína. Það eru ekki mennirnir heldur flokkarnir sem eru meinið. Munið þið eftir flokknum sem ætlaði að taka báknið burt? Hver trúir því í dag að Sjálfstfl. eigi eftir að láta frá sér valdastöður sínar í kerfinu, valdastöður sínar í bankaráðum, bankastjórnum, sjóðastjórnum, Framkvæmdastofnun og útvarpsráði? Hver trúir tali um frjálsa samninga þegar sjálfstæðismenn eru að laumast við það að koma öllum æðstu embættismönnum ríkisins undir verndarvæng kjaradóms til að firra þá þeim hræðilegu vandræðum að þurfa að semja fyrir sig sjálfir? Hver trúir tali um frjálst útvarp þegar menntmrh. Sjálfstfl. leggur fram frv. um pólitíska yfirstjórn og ritskoðun frjálsra útvarpsstöðva? Hver trúir frelsishjali flokks sem ætlar að auka einokun Pósts og síma í fjarskiptamálum, vill ekki leyfa frjálsa verslun með landbúnaðarvörur, vill ekki leyfa að fólk fái samningsrétt á vinnustöðum, vill ekki leyfa afnám ríkisafskipta af fiskverðsákvörðun, ætlar að hækka útflutningsuppbætur og hækka læknakostnað, lækka menntunarframlög og lækka bankaskatta, byggja gróðurhús í Keflavík og auka skattheimtu Framleiðsluráðs landbúnaðarins til að greiða tapið af Áburðarverksmiðju ríkisins? Þeir kalla þetta baráttu fyrir frelsi og framtaki. Á mannamáli heiti þetta að vera kerfisflokkur nr. 1. Ef báknið væri tekið burt, þá væri Sjálfstfl. horfinn.

Að framsókn sé kerfisflokkur dylst engum, að framsóknarmenn treysta engum sem ekki er í þingflokki Framsfl. vita allir. Öllu óhugnanlegra er að erindrekstur þeirra fyrir eina auðhring landsins, Sambandið, er að setja íslenskt þjóðfélag á hausinn. Framsfl. verður aldrei frjálslyndur félagshyggjuflokkur. Flokkurinn hefur aldrei treyst fólki og því hagað kjördæmaskipan þannig að þeir þyrftu sem fæsta kjósendur.

Hver trúir að Alþb. og Alþfl. séu verkalýðsflokkar? Verkalýðsforustan á jú þriðja sætið í Reykjavík hjá Alþb. og annað sætið á Reykjanesi hjá Alþfl., en samband verkalýðsforustunnar og verkalýðsflokkanna er litað tortryggni því að hinn sögulegi þráður milli þeirra er löngu brostinn. Samt nuddast þeir áfram í hóp bítandi hver annan. Alþb. sker sig reyndar úr að því leyti að þeir eru sífellt að skipta um tungumál. Alþjóðahyggjan breyttist í varðveislu þjóðarverðmæta, sérstaklega á Miðnesheiði. En nú í seinni tíð hefur sést mjög illa til Miðnesheiðar og menn grilla hana rétt í hillingum en gerast annars mjög kratalegir í framan. Kratarnir hafa ekki enn þá máð af sér það orð sem af þeim fór þegar þeir í græðgi sinni og í trausti þess að þeir væru að styrkja stöðu flokksins áttu orðið mann í hverri stofnun. Andartak trúðu menn að breyta ætti til fyrir u. þ. b. sex árum, en þegar sýnt var að flokkurinn leyfði ekki breytingar slokknaði aftur á þeim eldi.

Hvað eru margir þm. hér sem ekki hafa oft óskað þess að vera ekki flokksbundnir? Hvaða ánægja er fólkinu í því að láta flokkssjónarmið stýra samvisku sinni hér á þingi. Hvernig væri nú að við reyndum sumarlangt að láta sömu sjónarmið ráða gerðum okkar í stjórnmálum og í daglega lífinu, hvers vegna segi ég sumarlangt? Jú, það er vegna þess að nú á að fara að rjúfa þing þegar menn eru rétt komnir ofan í miðjan bunkann af þeim þingmálum sem lögð hafa verið fram á þingi í vetur. Auk þess er ekkert farið að horfa til þess átaks í atvinnumálum sem hefði þurft að hefjast fyrir mörgum árum síðan. Eru menn hér að vinna fyrir fólkið eða flokkana? Haldið þið virkilega að það sé skynsamlegt að stuðla að þeim tvíverknaði sem felst í endurflutningi allra þeirra mála sem skilin eru eftir nú? Hvað halda menn að þetta verklag kosti þjóðina? Menn flytja hér mál sín ár eftir ár og það er nánast einsdæmi ef þau fást afgreidd í fyrstu atrennu, jafnvel einföldustu mál. Hvað á það að þýða að slíta þingi nú þegar vandamál framtíðarinnar liggja við fætur okkar og þola enga bið? Er það virkilega merkilegra í augum þm. að flýta sér heim í hérað frá fjallháum verkefnum til að telja kjósendum sínum trú um að þeir hafi raunverulega gert eitthvað af viti hér í vetur? Er ekki nær að gera eitthvað af viti hér í sumar?

Það þarf að skapa 20 þúsund ný störf á næstu 16 árum, sagði ég. Það er okkar að stuðla að því átaki sem þarf, það er okkar að finna byrinn sem þarf. Það er okkar að leggja grunninn að sameiginlegu átaki þjóðarinnar allrar án gagnkvæmrar tortryggni, en ekki án deilna, því að málefnalegar deilur eru hollar og gagnlegar ef menn eru sammála um að komast að lausn, þar sem öllum einstaklingum gefst kostur á að velja og hafna í þeim atriðum sem snerta þá sjálfa.

Í upphafi var orðið og upphafskrafa lýðræðisbaráttunnar fyrir 200 árum var frelsi, jöfnuður og bræðralag. Götuvígi byltingarinnar eru flokksvígi dagsins í dag. Komið út úr flokksvígjunum. Uppbyggingin fyrir framtíðina verður að hefjast og hún verður að hefjast strax. Komið út úr vígjunum, tökumst á við vandann. Hann er mikilvægari en vandi flokkanna. Látum flokkshagsmunina sigla lönd og leið og ég lofa ykkur að nýsköpun íslensks þjóðlífs verður margfalt ánægjulegra starf en nokkurt flokksstarf. Burt með flokkshagsmunina, brettum upp ermarnar og berjumst við vandann sem frjálsir menn. Því er till. mín sú að slíta ekki þingi nú heldur að halda starfi okkar áfram og standa ekki upp fyrr en við höfum lagt grunn að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Þá fyrst getum við gert kröfu til virðingar íslenskrar þjóðar. — Góða nótt.