15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5928 í B-deild Alþingistíðinda. (5265)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það var athyglisverð ræða sem formaður Alþb. flutti hér í kvöld, að vísu sama ræðan og oft áður, en maðurinn kastar grjóti úr glerhúsi. En hvað er hann að hylja með slagorðum sínum?

Skömmu fyrir alþingiskosningarnar á síðasta ári lagði formaður Alþb. fram till. um sérstaka neyðaráætlun til 4 ára um stjórn landsins, þjóðstjórn. Þannig var staðan þegar Alþb. hafði setið í ríkisstj. í nokkur ár, algjör upplausn og hróp á neyðaráætlun til að komast úr þeirri sjálfheldu. Nú, nokkrum mánuðum seinna, vekur það furðu manna að Alþb.-menn á Alþingi tala eins og vandinn komi þeim ekkert við og að nú hafi þeir ráð undir hverju rifi. Furðuleg bíræfni og skortur á hreinskilni.

Fyrri ríkisstj. bjó um margt við betri ytri skilyrði en áður hafa þekkst. Það voru metaflaár í röð. Samt var safnað erlendum skuldum. Þjóðarframleiðsla jókst ár frá ári framan af. Samt varð verulegur viðskiptahalli og eytt umfram efni. Viðskiptakjörin við útlönd voru tiltölulega hagstæð. Samt var gífurleg verðbólga í landinu. Þegar tók að halla undan fæti missti stjórnin öll tök á málunum. Viðskiptahallinn jókst, skuldasöfnun jókst, verðbólgan varð gjörsamlega stjórnlaus og Alþb. gafst upp og boðaði neyðaráætlun. Þeir sáu sína pólitísku sæng útbreidda en báðu samt um að fá að vera með í nýrri stjórn áfram.

Við þessar aðstæður tók núv. ríkisstj. við. Meginhlutverk hinnar nýju ríkisstj. verður að kynna sér hin mörgu flóknu vandamál sem Alþb. skildi eftir og þjóðin öll sýpur nú seyðið af, því fyrst er að þekkja vandann, síðan að finna ráð til að sigrast á honum.

Þegar ég tók við embætti fjmrh. blasti við gífurlegur halli á ríkissjóði. Með efnahagsráðstöfunum ríkisstj. tókst að minnka þennan halla, en hann varð þó rúmlega 1200 millj. kr. um s. 1. áramót, sem má telja góðan árangur því verulegu fé var varið til að lækka beina og óbeina skatta.

Síðustu fjárlög fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ragnars Arnalds, fóru um það bil fjórðung fram úr samþykktum fjárlögum fyrir árið 1983. Í stuttu máli námu aukafjárveitingar 25% af fjárlögum. Í ár eru horfur á að halli ríkissjóðs geti numið u. þ. b. einum milljarði kr., eða vel innan við 10% af fjárlögum, með miklum niðurskurði á ríkisútgjöldum og stórauknum sparnaði í ríkiskerfinu. Það hljóta allir að skilja að við leysum ekki öll okkar erfiðu vandamál á einni svipstundu.

Við umr. um fjárlagafrv. á síðasta hausti greindi ég m. a. frá því að ég mundi gera upp ríkissjóð á þriggja mánaða fresti og gera Alþingi grein fyrir niðurstöðu. Þetta hef ég gert. Aldrei fyrr hefur íslenska þjóðin fengið að fylgjast eins náið með gerð fjárlaga. Í fyrstu fagnaði stjórnarandstaðan að svo hreinskilnislega skyldi gengið til verks en hefur nú undanfarið reynt að gera mig og mín vinnubrögð tortryggileg. En ég spyr ykkur, hlustendur góðir, finnst ykkur ekki sjálfsagt að stjórnmálamenn komi hreint fram, leggi spilin á borðið, greini almenningi frá aðsteðjandi vanda frekar en að ríkisvaldið feli sannleikann og ýti vandanum á undan sér?

Styrkur ríkisstj. liggur í samvinnunni við fólkið. Ríkisstj. er sterk vegna þess að hún vinnur fyrir fólkið og með fólkinu til lausnar á vandamálum þjóðarinnar og ekkert klofningstal máttlausrar stjórnarandstöðu kemst upp á milli ríkisstj. og fólksins. Aðsteðjandi vandi er mikill en tækifærin sem okkar blessaða land býður okkur eru mörg og með samstöðu og samtakamætti vinnum við okkur inn í bjarta framtíð.

Stjórnarandstaðan hefur mjög gagnrýnt á hvern hátt ríkisstj. hefur brugðist við aðsteðjandi halla á ríkissjóði. Ríkisstj. hefur náð að brúa um helming hallans án nýrra skatta og ákveðið að dreifa hinum helmingnum á lengri tíma með erlendum lánum. Stjórnarandstaðan gagnrýnir mig fyrir að leggja ekki á nýja skatta. Er eðlilegt að krefjast þess að nýir skattar séu lagðir á almenning sem þegar hefur þurft að taka á sig umtalsverða kjaraskerðingu? Ég segi: Nei. Stefna Sjálfstfl. og ríkisstj. er að fella niður skatta, að einstaklingar og fyrirtæki haldi meiru eftir af tekjum sínum til eigin ráðstöfunar, að vinna að því með sparnaði að ríkið þurfi ekki að auka tekjur sínar. Ríkið má ekki vera óseðjandi og við gerð næstu fjárlaga þarf að sýna enn frekara aðhald.

Ég er á móti nýjum sköttum til lausnar aðsteðjandi vanda og ég tel að við sem þjóð eigum að leggja metnað okkar í að vinna okkur út úr þeim vanda sem nú blasir við. Eins og það er rangt að taka erlend eyðslulán í góðæri getur verið rétt að taka erlend lán til að komast fram úr tímabundnum erfiðleikum.

Góðir landsmenn, úti á sjó eða heima í landi. Talsvert hefur áunnist í baráttunni við verðbólguna. Efnahagshvatinn er áþreifanlegur, það er ómótmælanleg staðreynd. Nú verðum við að vera á verði, láta ekki niðurrifsöfl grafa undan árangrinum. Okkur tókst að koma í veg fyrir hrun efnahagslífsins og forðast atvinnuleysi. Þessi góði árangur hefur vakið athygli erlendra þjóða. Nú verður íslensk þjóð að standa saman til að tryggja framhaldið, vera á verði gegn niðurrifsöflum. Við eigum fallegt, vel menntað, ungt fólk, guð gaf okkur gott land, land hinna mörgu tækifæra. Sýnum nú í verki að við kunnum að meta það að fá að vera Íslendingar. — Hlustandi góður. Ég þakka áheyrnina og ég býð þér góða nótt.