15.05.1984
Sameinað þing: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5934 í B-deild Alþingistíðinda. (5268)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Til hvers er umræðum frá Alþingi útvarpað? Væntanlega til þess að landsmenn fái greinargott yfirlit yfir störf þingsins í vetur, skýrslu um hvers konar samfélagi ríkisstj. stefni að og hvers vegna stjórnarandstaðan sé henni andvíg. Ákvarðanir þingsins varða líf fólksins í landinu beint eða óbeint í stóru og smáu og það á rétt á að fá upplýsingar um þær frá þeim sjálfum.

Upplýsingar ríkisstj. hér í kvöld hafa áreiðanlega verið lítt til þess fallnar að glöggva menn á stöðu mála, enda er henni vafalaust fyrir bestu að fólk skilji sem allra minnst í því sem er að gerast í þjóðfélaginu undir forustu hennar. Nú búast menn eflaust við gömlu plötunni um ágæti fyrrv. ríkisstj. og vanhæfni þeirrar sem nú situr. En á slíkum málflutningi hef ég engan áhuga. Ríkjum verður ekki stjórnað með einföldum lausnum í flókinni veröld, og enginn hefur undir höndum neinn galdralykil að farsætu stjórnarfari og stöðugu efnahagsástandi.

Hins vegar stendur þannig á nú, að mjög skýr og afgerandi stefnubreyting hefur orðið í samfélaginu í tíð núv. ríkisstj. og hana má skýra í tiltölulega einföldu máli. Fyrrv. ríkisstj. lagði á það áherslu að kjaraskerðingin yrði ekki meiri en sem næmi falli þjóðartekna, sem ljóst var þá þegar að drægjust saman. Núv. ríkisstj. hefur hins vegar tekið af launafólki margfalt meira en sem nemur lækkun þjóðartekna. Til sönnunar á því: Í tíð fyrrv. ríkisstj. féllu þjóðartekjur á hvern vinnandi mann á árunum 1979–1982 um 7.6%. Kaupmáttur var skertur um 6.8% á sama tíma eða einu prósenti minna en lækkun þjóðartekna var. Í tíð núv. ríkisstj. hafa þjóðartekjur rýrnað um 7.4% á árunum 1982–1984, en kaupmátturinn hefur verið skertur um 26.3% eða tæpum 20% meira en lækkun þjóðartekna nam. Hvert hefur þetta fé farið sem tekið hefur verið af launþegum? Ekki til sameiginlegrar þjónustu og hagsbóta fyrir þá sem féð létu af hendi. Stórlega hefur verið dregið úr uppbyggingu þjónustustofnana fyrir fatlaða, ellilífeyrisþega og sjúklinga, dagvistarheimila fyrir börn, draga skal úr kennslu barnanna á landsbyggðinni, sem slakasta kennslu fengu fyrir, og nú síðast felldi Alþingi að leysa vistunarvanda innan við 20 sjúklinga sem svo illa eru staddir að engin stofnun finnst fyrir þá.

Hefur þetta fé þá farið til uppbyggingar atvinnuveganna til að taka við nýrri kynslóð? Ónei. Þeir hafa farið beint í vasa atvinnurekenda til þeirra eigin ráðstöfunar. Hér hefur átt sér stað á örstuttum tíma gífurleg tilfærsla fjár frá hinum almenna launamanni til fjármagnseigenda og eignamanna sem minnst greiða hlutfallslega til þjóðfélagsins. Fjármagnseigendur eru skjólstæðingar þessarar ríkisstj., en hrædd er ég um að litli maðurinn í þjóðfélaginu fálmi ráðalaus eftir hlýrri hendi ríkisstj. um þessar mundir. Honum var ekki nóg að vita að verðbólguna er hann búinn að greiða niður. Hann vantar að vita hvernig hann á að greiða sína eigin reikninga með afganginum af laununum sínum.

Nú er svo komið að fullfrískt og fullvinnandi fólk verður að leita til félagsmálastofnana eftir fjárhagsaðstoð. Dæmi um það: Til mín leitaði 55 ára gömul kona, ógift og barnlaus, sem unnið hefur á Sóknarlaunum hjá Reykjavíkurborg í 30 ár. Hún hafði búið við lága húsaleigu um árabil en þurfti nú að finna aðra íbúð. Henni varð þá ljóst að laun hennar duga ekki við venjulega markaðshúsaleigu, svo að hún vildi leita aðstoðar Félagsmálastofnunar Reykjavíkur. Eftir 30 ára trútt starf fyrir samfélagið er hún ekki fær um að vinna fyrir sjálfri sér. Mánaðarlaun hennar eru nú 12 888 kr., húsaleiga 6–7 þús., og svo geta hv. þm. tekið tölvurnar og reiknað út hvernig lifa á af afganginum.

Þessari konu hefur verið sagt hér í kvöld að nú megi hún kætast yfir lækkun verðbólgunnar samkvæmt kenningunni um að sælla sé að gefa en þiggja. En þeir sem sitja með 40%-in af laununum hennar eru trúlega hressari. Þó virðist einn og einn fulltrúi atvinnurekendavaldsins hafa fengið óbragð í munninn eins og ræða Jóns Sigurðssonar, forstjóra verksmiðjunnar á Grundartanga, sem lýst var í útvarpi í kvöld, sýndi. Þetta er nefnilega fullkomlega siðlaust, hv. alþm.

En skilji konan umrædda ekki ágæti þess að greiða niður verðbólguna getur hún kannske glaðst yfir öðru sem hún hefur gefið. Stjórn Landsvirkjunar hefur tekið úr sjóði hennar og annarra launþega 280 þús. kr. og keypt málverk handa formanni sínum og þjóðkunnum bankastjóra. Og 280 þús. kr. eru 2.2 árslaun hennar. En hann er líka orðinn fimm árum eldri en hún og launin hans varla komin í nema kannske 120 þús. kr. á mánuði, þó að hann þurfi hvorki að ferðast, veiða né aka bifreiðum á eigin kostnað. Konan vonar að 17 manna nefndin, sem hefur um árabil setið að endurskoðun á lífeyrisréttindum hennar, gleymi honum ekki, hann situr þar líka.

Í einlægni, hv. þm., verður engum bumbult?

Þessi tvö dæmi úr þjóðlífinu eru dæmigerð fyrir það sem hér er að gerast. Þetta eru stéttaandstæðurnar í þjóðfélaginu, litli maðurinn, sem vinnur ekki lengur fyrir sjálfum sér hvað þá öðrum þó að hann vinni allan daginn, og vinur hans sem forvaltar launin hans. Ríkisstj. hefur komið verðbólgunni niður með því að telja fólki trú um að þjóðartekjur lækkuðu á tímabilinu 1982–1984 um 6.2%. Við það voru efnahagsaðgerðirnar miðaðar, menn yrðu að færa tímabundna fórn. Þetta reyndist ekki rétt. Fall þjóðartekna á þessu tímabili verður 5.6% en ekki 6.2%. Kjaraskerðingin er því í engu hlutfalli við áætlað fall þjóðartekna. Og fórnin verður ekki tímabundin heldur varanleg, vegna þess að ekkert annað hefur verið gert. Þetta mikla fé hefur ekki verið nýtt til uppbyggingar atvinnuveganna og til aukinnar framleiðslu, heldur halda fjármagnseigendur áfram að fela gróða sinn í stjórnlausri og hömlulausri fjárfestingu sem engum arði skilar.

Ríkisstj. hrósar sér af því að hafa haldið genginu stöðugu. Það var enginn vandi því að gengislækkun var orðin svo mikil s. l. vor að hún var miklu meiri en erlent verðlag krafðist. Þess vegna væri nú leikur einn að hækka laun án þess að fella gengið. En ríkisstj. veit að hún hefur komist upp með meira en hana óraði sjálfa fyrir og hún hefur engan áhuga á að færa fjármagn aftur í vasa launamanna frá eignamönnum. Ríkisstj. veit að láglaunasvæði eru áhugaverð erlendum stóriðjuhöldum og auðhringum, einkum þar sem verkafólk er þar að auki vel menntað.

Við Alþb.-menn vildum leita annarra lausna. Við vildum leita til beggja aðila og fara hægar í sakirnar við að koma verðbólgunni niður með víðtækum aðgerðum, svo að um varanlegri lausnir yrði að ræða. Það hefði kannske tekið lengri tíma, jafnvel langan tíma, og margt væri eflaust enn þá ógert. En það þjóðfélag sem við Alþb.-menn viljum byggja, það samfélag sem við teljum sæmandi, væri þó e. t. v. í sjónmáli nú. Núv. ríkisstj. vinnur hins vegar samviskulaust áfram að því að rífa niður lífskjör launþega, námsmanna, lífeyrisþega, barna og færa fé þeirra yfir til hinna sem mest áttu fyrir.

Herra forseti. Tími minn er þrotinn. Aðeins að lokum: Hættum að tala hér, hv. alþm., um heildartölur og meðaltöl. Farið út og talið við fólkið sem þið hafið gert að lifa heilt ár af hálfu málverki bankastjórans. — Ég þakka áheyrnina.