16.05.1984
Efri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5961 í B-deild Alþingistíðinda. (5296)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki setja á langar tölur nú um þetta mál. Mér hefði verið meira í mun að fá að skoða málið í nefnd ef það væri unnt, en það er ekki meiningin af hálfu stjórnarliðsins að gera það þó að jafnvel hæstv. félmrh. hafi lagt svo fyrir við 1. umr. málsins í Nd. Það er greinilegt að formaður Sjálfstfl. er ekki í því sem öðru að fara að tilmælum ráðh. í þessari ríkisstj. Verður gaman að fylgjast með því hvort hann heldur áfram að taka jafnlítið tillit til ríkisstj. og raun ber vitni þangað til hann verður kominn þangað sjálfur. Þá reikna ég með því að hann vilji líka deila þar og drottna þegar það verður orðið, svo sem hann hefur gert í þessu máli.

Eins og hæstv. félmrh. kom réttilega inn á er hér um ótæk vinnubrögð að ræða í slíkum stórmálum. Á fundi Nd.-nefndarinnar hefur verið kallaður fjöldi umsagnaraðila, fjöldi viðmælenda. Þar hafa útreikningar af ýmsu tagi verið lagðir fram, staða sjóðanna tíunduð, möguleikar þeirra til að standa við skuldbindingar á þessu ári, í framtíðinni o. s. frv. Þetta er mér allt kunnugt um að hefur verið gert og allt hefur þetta verið gert án minnsta samráðs við nefndina í Ed. Ég gæti þess vegna vel sagt sem svo, ef ég vildi bregða hér fyrir fæti og hefði fyllsta rétt til þess að ég mundi áskilja mér verulegan tíma í hv. félmn. til þess að fá þó ekki væri nema eins og þriðjunginn af þeim aðilum sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson og aðrir slíkir ráðamenn í þjóðfélaginu hafa fengið til viðræðna við sig í Nd. Ég er ekki að segja að sameiginleg nefndarstörf eigi alltaf að gilda. En það er lágmark þegar um slík stórmál er að ræða að því sé fylgt að hluta til og a. m. k. sjálfsagt að þingnefnd í hinni deildinni sé leyft að fylgjast með. En ekkert slíkt hefur verið gert og það eru greinilega lýsandi dæmi um þau vinnubrögð sem eru best að skapi hv. formanns Sjálfstfl. Þorsteins Pálssonar. En um það ræði ég ekki frekar, því að hann er ekki hér til andsvara, þó að ég viti að undirdánugir liðsmenn hans, hvort sem þeir eru ráðherrar eða óbreyttir þm., muni sjálfsagt verða tilbúnir að taka upp vörn fyrir hann í þessu sem öðru. (EgJ: Annað hvort væri nú.) Annað hvort væri nú, segir hv. 11. landsk. þm., og er það þó ólíkt honum að ætla að taka upp málsvörn fyrir þau vinnubrögð að hindra það með ötulu að þingnefnd hinnar deildarinnar fái að fylgjast með. Það er ólíkt honum. Ég efast um að hann taki upp þá málsvörn fyrir hv. formann Sjálfstfl.

Nei, ég mun ekki tefja þetta óeðlilega, en auðvitað er ekki unnt annað en að fara í einhverjum greinum í loforðaflauminn fyrir síðustu kosningar. Ég man eftir því að þá svifu glæstustu glansmyndir fyrir hugskotssjónum húsbyggjenda í þessum efnum og mig undraði það hvað menn voru loforðaglaðir. 80% skyldu allir fá af meðalverði staðalíbúðar. Það var hvergi inni sú mynd sem þá blasti við um erfiða fjármögnun þeirra félagslegu bygginga sem voru þá fjármagnaðar á ríflegan máta og voru þó aðeins hluti af byggingarþörf. Ég segi að stjórnaraðilum átti a. m. k. að vera það ljóst, aðilum sem höfðu tregast við tekjuöflun m. a. með skyldusparnaði á hæstu tekjur. Það er ekki að marka þó að hv. sjálfstæðismönnum hafi kannske ekki verið þetta alveg eins ljóst, enda voru þeir ábyrgðarlausir að mestu leyti á s. l. kjörtímabili þó að einstaka þeirra væru nú innanborðs á stjórnarskútunni sem þá var. Ég held að það hafi margur fleytt sér inn á þing einmitt að hluta til með þessa glansmynd í farangrinum, 80% lánin. En svo fór um þessi 80% loforð, sem mér þóttu vægast sagt glannaleg og sagði oft að erfitt yrði að standa við í ljósi þess sem á undan hafði gengið, að þau bráðnuðu nú í sumarhitunum niður í 50% hjá hæstv. forsrh. og mig minnir hæstv. félmrh. líka. Og svo frusu þau nú bara, botnfrusu bara niður í 30% um haustnætur og í því frostmarki eru þau enn. Og dráttur á greiðslum er meiri en oftast nær áður vegna eðlilegs fjárskorts, en fjárskortur hafði aldrei háð þessum loforðasmiðum í kosningahríðinni. Þá var hann ekki til staðar heldur spurning um vilja og þor. Og ekki var nú verið að ýja að erlendu lánsfé þá og enn síður að kanna skil lífeyrissjóðanna. Ég kem að því síðar. Nei, vafalaust hafa menn orðið reynslunni ríkari í mörgu og hin bitra staðreynd stendur nú ein eftir. Frv. nú er án sýnilegs grundvallar og án nauðsynlegrar fjármögnunar, því að sömu dagana er verið að tala um að bjarga byggingarsjóðum með lántökum, og þá getur það varla verið að hér sé um raunhæf loforð að ræða þó að vissulega séu mörg góð fyrirheit í frv. og margt þar, sem stendur til bóta, ef unnt reynist að framkvæma það. Ég tek undir það með hæstv. ráðh. að vissulega er nauðsyn að lögfesta þau atriði, ef þau kynnu að geta orðið að veruleika.

Ég vildi nú segja það að þessi ríkisstj., sem stærir sig af því að geta boðið útlendingum ódýrt vinnuafl og tetur það helsta hrósefni sitt í útlöndum, hefði nú t. d. getað bætt úr að hluta a. m. k. með öflugri aðstoð við tekjulægstu húsbyggjendur í félagslegum íbúðabyggingum, auknu vægi á þær. Hún hefði getað aðstoðað húsnæðissamvinnufélögin, eins og Búseta, með öflugu aukaátaki og bætt þar úr brýnni þörf. Það hefði verið að verðleikum metið án efa af því fólki sem þarna á hlut að máli, við þau kjör sem það býr núna.

En niðurstaðan er vitanlega minna vægi félagslegra íbúðabygginga, fjármögnunin öll í molum, lántökur erlendis frá. sömu dagana og við erum að afgreiða þetta frv. segir hv. varaformaður Sjálfstfl., Friðrik Sophusson, að hundruð milljóna skorti enn til viðbótar, svo komið verði til móts við loforðagleði ráðh., eins og hann mun hafa orðað það í Seltjarnarnesræðunni frægu. Ekki ætla ég að fara að taka upp málsvörn fyrir hæstv. félmrh., því að hann mun hafa tekið þátt í loforðadansinum af mikilli ákefð, en auðvitað er hv. þm. Friðrik Sophusson ekki síður að skjóta á sína menn í þessu efni. Það verða menn að hafa í huga, því að ekki voru þeir síður loforðaglaðir. Ég man nú ekki hvor var á undan með 80%, en hörð barátta var um það hvor kæmi 80% fyrr á blað hjá sér, Sjálfstfl. eða Framsfl., fyrir síðustu kosningar og mátti ekki á milli sjá í því kapphlaupi. Nú er þetta kapphlaup greinilega komið út fyrir landsteinana. Þangað á að leita að fjármagninu til að fjármagna loforðin, þó ekki nema að hluta til. Jú, hér er frv. á ferð með sínum fyrirheitum og stefnumiðum sem eru flest ágæt. Önnur eru reyndar miður góð, sem snerta Byggingarsjóð verkamanna alveg sérstaklega, og enn önnur í algerri óvissu, svo sem Búsetamálið eða húsnæðissamvinnufélögin eru gleggst dæmi um.

Áherslan á hinar félagslegu íbúðabyggingar er önnur og sýnt að þar skal ekki unnið að svo sem vera hefði þurft. Ég segi það enn að ríkisstj., sem keyrir laun og kaupmátt óumdeilanlega niður og færir fólk í ríkara mæli en nokkru sinni á láglaunaplanið eitt, sú ríkisstj. hefði vissulega getað bætt úr að hluta með öflugu átaki í húsnæðismálum.

Um Búsetamálið skal ég ræða síðar, en það eru ýmsar upplýsingar sem væri fróðlegt að fá og við getum auðvitað fengið í nefndinni, en svo beint sé spurt án þess að ég ætli að fara að tefja málið mikið: Er það ekki rétt, hæstv. ráðh., að öllum nýjum umsóknum um nýjar framkvæmdir í félagslega kerfinu, 150–200, hafi verið synjað eða hafi ekki fengið jákvæða afgreiðslu? Þessu var m. a. haldið fram í útvarpsumræðum í gær og þessar upplýsingar hef ég beint frá þeim aðilum sem gleggst eiga að vita. Og er það svo einnig, að áður umsamdar byggingar í þessu kerfi hafi verið skornar niður um 25% og ekkert bendi til annars en að sú verði endanlega niðurstaða þessa árs? Og er það svo, enn til viðbótar, í alvöru að í dag sé enginn aðili að byggja leiguíbúðir eftir því kerfi sem upp var komið, það sé ekkert nýtt á döfinni varðandi leiguíbúðir, sem voru þó reistar nokkuð duglega á vegum sveitarfélaga? Ef allt þetta er rétt, sem haldið hefur verið fram hér, þá er þetta ár mikilla skelfinga í húsnæðismálunum og meiri en menn hafa þekkt áður varðandi þessa þætti.

Er ástæðan kannske sú, að meira að segja 30% loforðið, sem var nú endanlega orðið til úr 80%, hafi orðið svo dýrt og fyrirhyggjan ekki verið meiri en svo, að efndir á því loforði hafi orðið til þess að byggingarsjóðirnir standi í meiri fjárþröng en nokkru sinni? Að þessar efndir á loforðinu, góðra gjalda verðar, ég tek það skýrt fram, góðra gjalda verðar svo langt sem þær náðu, hafi valdið þessu, þ. e. 20% af loforðum ríkisstjórnarflokkanna. Ég verð að segja að það er nú bara býsna gott miðað við loforðin í kyndingarmálunum, því að þau ná ekki 20%, svo að hæstv. félmrh. getur borið höfuðið hátt miðað við hæstv. iðnrh., það er alveg glöggt í þessu efni, og ætla ég þó ekki að fara að hæla honum of mikið í þessari öldu yfirboðanna sem reis hæst fyrir síðustu kosningar, að þessar efndir, ekki meiri þó en raun ber vitni, hafi í raun og veru kollkeyrt þetta kerfi og aldan hafi í raun og veru kaffært loforðasmiðina og húsbyggjendur þá um leið, því að það hefði nú ekkert gert til þó þeir hefðu fengið á sig ölduna ef húsbyggjendur hefðu ekki fengið hana yfir sig líka.Því spyr ég: Hver er staðan hjá byggingarsjóðunum í dag og hver er líkleg staða ársins í ár? Og er það þá virkilega rétt, sem hæstv. fjmrh. hefur haldið hér fram, að það séu bara ekki meiri peningar til og menn verði þá bara að fresta og bíða með framkvæmdir á þessu ári, húsnæðiskerfið sé þannig upp byggt nú og sé þannig sett? Er þetta þá raunsannasta myndin þegar allt kemur til alls?

Hæstv. fjmrh. hefur mjög hrósað sér af hreinskilni. Kannske er þetta rétt. Kannske verða menn bara hreinlega að hætta við að byggja á þessu ári eins og hann segir að séu mestar líkur til. Og þá mundi ég nú kannske segja, til þess að hafa „system i galskaben“, eins og sagt er að þá væri nú kannske rétt að fresta afgreiðslu þessa frv. þangað til eitthvert upprof væri komið og hæstv. ráðh. væri a. m. k. búnir að ná í einhverja peninga frá útlöndum, það væri eitthvert upprof komið á þessum fagurbláa loforðahimni þeirra, sem blasti við kjósendum fyrir síðustu kosningar. (KSG: Blágræna.) Blágræna, segir hv. 6. landsk. þm., og er vissulega rétt að hafa líka „system í galskaben“ varðandi litavalið á þeim bæ. (Gripið fram í.) Já. En þrátt fyrir þessa gagnrýni má enginn taka orð mín svo að ég sé að segja að við höfum staðið nægilega vel að húsnæðismálunum á undanförnum árum. Ég skorast ekki undan þeirri ábyrgð sem á öllum þeim hvílir sem hafa fjallað um þessi mál á undangengnum árum og ekki staðið þar nógu vel að. Það væri fjarstæða, hrein fjarstæða, að ætla að skorast undan slíku einmitt þegar Alþb. hefur verið með þessi mál og það hefur hreinlega ekki gengið svo sem skyldi. Það geri ég bæði hér og annars staðar að ætlast ekki til þess að menn fari að trúa að eitthvað annað hafi verið gert þar en raun bar vitni og betur að málum staðið. En ég segi einnig — og það vona ég að aðrir segi einnig hér — að menn verða þá líka að viðurkenna að ýmislegt af því sem ætlað var til tekjuöflunar í þessu kerfi fékkst ekki fram, þó að við vildum þar að standa, fyrir öðrum samstarfsaðilum okkar.

En hvað sem því liður þá er eitt alvarlegasta vandamál íslensks þjóðfélags hér á ferðinni og aðstoð við fólk til að komast í húsnæði brýnni nú en oftast áður. Og margt er til bóta í þessu frv. Kjaralega og aðstöðulega séð er margt í því sem horfir til bóta, vissulega. Sem betur fer er oftrúin á eigið húsnæði skilyrðislaust nokkuð á undanhaldi. En þá þarf að vera unnt að mæta nýjum óskum og nýjar leiðir þurfa að eiga rétt á ákveðnu fjármagni yfir erfiðustu farartálmana.

Ég man eftir því að í húsnæðismálatillögu, sem ég flutti hér fyrir 8 árum síðan, kom ég í verulegum mæli inn á svipaðar hugmyndir um lausnir og nú eru uppi hjá Búseta. Ég hafði þær reyndar erlendis frá, þetta var ekki frumlegt hjá mér að neinu marki þá. Þær hugmyndir fengu sannast sagna lítinn hljómgrunn eða engan. Helst var það gagnrýnt að með þessu væri verið að drepa framtak manna í dróma. En hvað um það, nú er lag. Nú eru menn komnir í stellingar til þess að reyna að leita þeirra leiða og það er full ástæða til að freista þess.

Að öðru leyti vil ég ekki fara á þessu stigi umr. nánar út í þetta mangómál ríkisstj. Þar hefur vægast sagt verið haldið svo á málum, að fá dæmi munu slíks í þingsögunni. Ég samhryggist hæstv. félmrh., en ég hlýt að benda honum og öðrum hv. framsóknarmönnum á það, að vitanlega hlýtur húsbóndavaldið að vera í höndum þeirra sjálfstæðismanna í þessu sem öðru. Hafi þeir ekki gert sér grein fyrir því, þá sjá þeir það nú og hafa séð það undanfarna daga. Undir það jarðarmen gengu þeir glaðir fyrir ári síðan eða svo og eins og segir í ljóðinu eru þeir enn við það heygarðshornið að syngja: „Þar er vistin mér góð, aldrei heyrist þar hljóð,“ ekki a. m. k. frá þeim og fer vel á þeim söng enn þá. En þeir sem fyrir barðinu á þessari vistráðningu verða eru margir, m. a. þeir sem nú vilja ryðja nýjar brautir í húsnæðismálum, og neita að beygja sig undir eignarréttarokið, sem firrt hefur allt of marga heilsu og kröftum, líkamlega sem andlega. Þeir verða vitanlega fyrir barðinu á þessu. Sá kapítuli verður síðar skráður og mun sem betur fer þingsins vegna almennt til endema talinn, en fólksins vegna því miður dapurlegri en svo að því hæfi hér háð og spé.

Áherslur varðandi frv. þetta eru því augljósar af hálfu okkar Alþb.-manna.

Í fyrsta Lagi: Áhersla á ríkan þátt félagslegra íbúðabygginga með svipuðu formi og verið hefur fyrir þá tekjulægri.

Í öðru lagi: Mætt verði nýjum viðhorfum af fullum skilningi og auðvelduð leið þeim sem nýjar brautir vilja ryðja til þess að komast á leiðarenda sem allra fyrst.

Í þriðja lagi: Viðbótaraðstoð við hinn almenna húsbyggjenda verði tryggð sem allra best. Þar taki bankarnir á sig ríkari og eðlilegri skyldur en í dag eru þeim á herðar lagðar.

Í fjórða lagi: Fjármagnsútvegun verði tryggð og allra leiða leitað. Lífeyrissjóðirnir komi inn í ríkari mæli, bankarnir einnig. Skyldusparnaðarhugmyndin á hæstu tekjurnar verði skoðuð áfram.

Ég minnist á lífeyrissjóðina og ætla að koma að þeim núna í lokin. Ef menn hafa litið á svar hæstv. fjmrh. við fsp. minni um skyldukaup lífeyrissjóðanna hafa menn rekið sig á óþægilegar tölur. Vilja menn sjá þann mismun sem þar blasir við? Hversu margir öflugir sjóðir kaupa aðeins hluta af heildinni svo að jafnvel skakkar nærri 100 millj. á s. l. ári, eða hversu sumir kaupa allt önnur skuldabréf en af byggingarsjóðunum. Í heild skakkar þetta 280 millj. kr., sem annars hefðu getað, ef betur hefði verið að málum staðið, runnið til byggingarsjóðanna. Ég segi: Látum svo vera þó að ríkissjóður og Framkvæmdasjóður fái sitt því að skylt er skeggið hökunni. En við eigum að líta á það t. d. að Verslunarlánasjóður fær meira en hálfa upphæð í sinn hlut frá lífeyrissjóðunum, meira en helming af því sem Byggingarsjóður verkamanna fær. Og hverjar eru tölur veðdeildar Iðnaðarbankans? Þær eru 90 millj. Veðdeild Iðnaðarbankans fær 90 millj., til almennra útlána vel að merkja, 90 millj. frá lífeyrissjóðunum á móti 117 sem Byggingarsjóður verkamanna fær.

Ég vakti athygli á þessu í fyrra, taldi mér það skylt sem stjórnarsinna þá. Ég gerði það enn í vetur, sem stjórnarandstæðingur að vísu. Ég geri það hér og nú, því að hér er um einhvern stærsta póstinn í fjármögnun byggingarsjóðanna að ræða. Ég veit að það er ekki auðvelt við að fást. Hér þarf sjálfsagt lagabreytingu, enn fremur eru margir þessara sjóða orðnir svo fast njörvaðir við ákveðnar veðdeildir að ekki er mjög auðvelt úr að bæta. En ég álít að við eigum einskis að láta ófreistað til að ná þessu fjármagni þangað sem lánsfjárlög segja til um. Því að skyldukaup lífeyrissjóðanna eru auðvitað, eins og allir menn vita, réttlætt með því að þetta fé fari þangað sem þörfin er mest, til byggingarsjóðanna. Ekki er ég að segja að það sé neitt altækt, en ég bendi bara á tvo sjóði til samanburðar. Lífeyrissjóður Austurlands, sem verkafólk á Austurlandi greiðir í, greiddi fullt framlag, 100% framlag í sín skyldukaup á s. l. ári. Hvert fer það fé? Það fer allt til Byggingarsjóðs verkamanna, allt þangað sem þörfin er mest. Lífeyrissjóður verslunarmanna borgar 19% af því sem hann á að borga, enda vita menn að það er höll hér inni í mýri, sem mönnum þar hefur áreiðanlega verið kærkomnari en byggingar almennings í landinu. 19% greiða þeir, en ég efast ekki um að verslunarlánasjóður eða 90 millj. þar séu nokkuð drjúgar hjá þessum lífeyrissjóði.

Að lokum þetta eins og ég sagði áðan. Sú spurning hlýtur að vakna hvort nokkur knýjandi nauðsyn sé á framgangi þessa frv. með tilliti til þess hvernig mál standa nú. Ég tek það fram að ég mun greiða fyrir því að þetta mál nái fram að ganga vegna margra tæknilegra og framkvæmdalegra atriða sem í því eru vissulega til bóta. En svo eru það fyrirheitin ein sem blíva. Fjármagnið vantar skv. því sem hv. varaformaður Sjálfstfl., Friðrik Sophusson, segir upp á hundruð millj. þrátt fyrir erlendar lántökur, enda eru dæmin deginum ljósari um stórfelldari drátt en áður hefur verið án afgreiðslu lána. Mér þykir undarlegt ef það er að skapi hæstv. félmrh. að farið sé að brjóta félagslega kerfið niður, en ekki verður annað séð, enda er það hreinlega ekki með í mynd þessa árs, ef upplýsingarnar eru réttar um að þær umsóknir hafi allar verið skornar niður á þessu ári. Og í Búsetamálinu eru stóru orðin orðin að öfugmælum.

Það væri kannske rétt að taka allt málið upp og mangónefndin, sem nú er orðin milliþinganefnd í húsnæðismálum og á að sætta sjónarmið í stjórnarflokkunum, tæki bara allt málið upp og spreytti sig á því í sumar. En við nánari athugun legg ég það nú ekki til. Ég held að það sé hæpið, svo að ekki sé meira sagt. Ég er nefnilega hræddur um að nánari umfjöllun þessara herra um þetta mál skiti nú eins og jafnan áður enn aumari niðurstöðu, svo að máske er best að drífa málið af áður en enn fleiri skemmdarverk tekst að vinna.