16.05.1984
Efri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5972 í B-deild Alþingistíðinda. (5299)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta mál. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í efnislegar umr. frekar um þetta. Ég vil aðeins vegna ummæta hv. 2. þm. Austurl. minna á það sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. um húsnæðismál:

„Lán Byggingarsjóðs ríkisins til þeirra, sem byggja í fyrsta sinn, hækki um næstu áramót (þ. e. síðustu áramót). Jafnframt verði húsnæðislánakerfið eflt svo á næstu árum að lán þessi geti numið allt að 80% af byggingarkostnaði staðalbúðar. Samsvarandi hækkun verði til þeirra sem kaupi íbúð í fyrsta sinn.“

Það er ljóst að ríkisstj. ákvað að hækka öll lán um 50% frá 1. janúar s. l. og er það þegar komið til framkvæmda.

Ég vil aðeins koma inn á það að gefnu tilefni að þegar þessi mál voru skoðuð á síðasta ári, eftir að ríkisstj. tók við völdum, kom í ljós að ástandið í þessum málum var alveg hrikalegt. Fólk var bókstaflega í rúst með sín mál varðandi húsbyggingar. Skuldirnar voru yfirþyrmandi enda var lánshlutfallið á árinu 1982 og 1983 ekki nema 17% miðað við staðalíbúð. Þess vegna varð að grípa til aðgerða sem ríkisstj. og gerði. Það var eitt af hennar fyrstu verkum. Hún gerði það bæði með því að lengja lán, með skuldbreytingalánum og svo 50% viðbótarlánum ofan á veitt lán á árunum 1981, 1982 og 1983. Það var sem sagt farið tæp þrjú ár aftur á bak til þess að leiðrétta þetta mál og koma þannig til móts við vandamál fólks. Þetta fjármagn er óvefengjanlega á bilinu 450–500 millj. sem húsbyggjendur og húskaupendur voru búnir að fá í hendur í lok janúarmánaðar s. l. Þetta hefur verið rækilega rakið og staðfest og þess vegna er ekki hægt að segja það að hér hafi ekki verið tekið til hendinni til að reyna að lagfæra þessi mál. Með þessari 50% hækkun er staðallinn eða viðmiðunin komin upp í 30%. Hins vegar getum við deilt um þessa staðalviðmiðun. Það mál er núna í endurskoðun og ég vænti þess að það verði fljótlega ljóst hvernig með það verður farið.

Ég vil einnig geta þess að miðað við þessa stefnu kom það alveg greinilega fram í fjárlagaundirbúningi hvað ríkisstj. var að fara. Hún gerði ráð fyrir því að reyna að lagfæra fyrst og fremst á þessu ári, 1984, hlutfallið milli almenna markaðarins og félagstegra íbúðabygginga, sem þýddi það í raun að ekki yrði um neina aukningu á félagslegum íbúðum að ræða á þessu ári, til að reyna að ná þessu hlutfalli: að koma almenna lánamarkaðinum upp í 30% miðað við staðalíbúð. Og til þessa er fjármagn í kerfinu í ár tæpar 1700 millj. kr. Þetta er það fjármagn sem húsnæðismálastjórn er núna að miða sínar útlánareglur við á þessu ári. Ég vil geta þess að það hefur dregist að gengið væri endanlega frá þeim, en það verður gert núna mjög fljótlega og endanleg áætlun fyrir árið í ár staðfest. Það hefur gengið nokkuð vel að greiða út lán frá áramótum. Að vísu eru sumar tegundir lána nokkuð á eftir, en ekki þó þannig að það sé ekki um mikla framför að ræða, því að nýbyggingalánin eins og þau eru tilfærð í þeim reglum sem ríkisstj. setti, þ. e. að greiða þau þetta hraðar út í tvennu lagi, þau hafa haft vissan forgang. Það er hægt að fá skýrslur um það núna hvernig þetta hefur verið framkvæmt frá áramótum t. d. fram í maímánuð, og n. getur fengið aðgang að því frá Húsnæðisstofnun.

Ég get alveg staðfest það vegna fsp. sem kom frá hv. 2. þm. Austurl. að það er ekki um neinar nýjar byggingar að ræða í verkamannabústaðakerfinu. Hins vegar eru sem betur fer víðs vegar um landið í smíðum, og það hér á þéttbýlissvæðinu, byggingar sem voru undirbúnar á s. l. ári. Það er því talsvert mikið af byggingum í gangi á árinu 1984 og meira en á horfðist. Endurskoðuð áætlun kemur frá stjórn Húsnæðisstofnunar núna innan mjög fárra daga og þar er hægt að sjá þetta sundurliðað nákvæmlega. Ég hef fylgst vel með þessu máli, og eins er það sem grípur inn í þetta mál, að við reiknum með því, hæstv. viðskrh. og ég, að við náum samkomulagi við bankakerfið um verulega fyrirgreiðslu við verktaka í byggingariðnaðinum, þ. á m. að hluta í sambandi við byggingu verkamannabústaða eða leiguíbúða. (KSG: Fyrirgefðu, viltu skýra þetta frekar.

Er þetta samkomulag?) Já, það er unnið að samkomulagi um það að bankakerfið taki að sér framkvæmdalán til framkvæmdaaðila í byggingariðnaðinum, það er talað um það að fá samninga á þessu ári um 120 millj. kr. sem yrði framkvæmt í samráði við Húsnæðisstofnun, því þeir eru með umsóknirnar um þessi lán til afgreiðslu. Við stefnum sem sagt að því að fá beina samninga fyrir þessa aðila við bankakerfið annaðhvort beint, miðað við þær umsóknir sem fyrir liggja, eða eftir stýringu frá Húsnæðisstofnun.

Ég vil aðeins víkja að Búseta, af því að svo mikið er talað um það. Ég vil segja alveg skýrt og skorinort í sambandi við það sem menn eru að tala hér og hafa í flimtingum með kókómjólk og mangósopa o. s. frv.: Það er ekkert samband þarna á milli. Ég vil skýra alveg beint frá því að þetta er mín till., sem ég lagði fyrir formann Sjálfstfl. til samkomulags, að taka út úr þessu frv. síðustu setningu c-liðar til að fresta ákvæðinu um félagasamtök, sem eru að byggja leiguíbúðir, og eins till. um að skipa nefnd til að endurskoða þessi leiguíbúðamál og koma fram með ákveðna till. eða ákveðið frv. fyrir næsta haust til lausnar á þessu máli. Þetta er alveg í samræmi við það sem forustumenn þessa húsnæðissamvinnufélags hafa verið að biðja um. Þeir hafa komið á minn fund og lagt fram ósk um það að sett yrði löggjöf um húsnæðissamvinnufélög. Á því er fullkomin þörf og ég geri ráð fyrir að menn sjái, þegar menn fara að skoða þetta nánar, að það er mjög brýn þörf á því að taka þessi mál til rækilegrar yfirvegunar og reyna að finna samræmda stefnu í því hvernig við best komum fyrir byggingu leiguíbúða og rekstri á þeim. Það er nauðsyn.

Ég ætla ekki að tefja tímann hér, virðulegi forseti, en ég vil benda mönnum á að lesa framsöguræðu mína fyrir þessu frv. sem ég flutti 8. des., hún er hérna í 9. hefti 1983, þar sem ég flutti sérstaka ræðu um Búseta og allt sem því fylgir og vakti athygli á ýmsum annmörkum í sambandi við það mál.

Í sambandi við það sem hv. 6. landsk. þm. kom hér inn á áðan um fjármögnunina má auðvitað segja að það er ekkert nýtt að meira fjármagn vanti í húsnæðiskerfið. En ég vil benda á það sem er stefnumarkandi í frv. Þá svara ég hv. 8. þm. Reykv. um leið. Það er einmitt þetta atriði sem ég vil ekki missa úr stjórnun á þessum málum í ár, að í fjármögnunarkaflanum er gert ráð fyrir alveg nýjum þætti, það er gert ráð fyrir því að á fjárlögum ríkisins komi 40% af samþykktri framkvæmdaráætlun fyrir næsta ár. Og það er alveg gífurlega þýðingarmikið atriði að við höfum þetta í höndunum, því það gæti þýtt að í staðinn fyrir 400 millj., sem við erum með á fjárlögum þessa árs, gætum við verið með um 800 millj. á fjárlögum ársins 1985. Auðvitað kallar þetta á gífurlega mikla umstokkun á fjármálakerfinu, en ef menn samþykkja frv. svona þá er þetta fyrir hendi sem stefna. (Gripið fram L) Ja, við skulum ekki segja svona hluti, svartsýnistal. Ég skýrði frá þeirri staðreynd að bætt var við 400–500 millj. í húsnæðiskerfið til viðbótar á s. l. ári og á þessu ári er fjármagn um 1700 millj. í staðinn fyrir 1000 millj. miðað við fyrra ár. Þetta eru staðreyndir sem eru stórkostlegar.

Og eitt vil ég segja til viðbótar í sambandi við 80% markið sem menn gjarnan tala um. Við erum ekki einvörðungu að stilla dæminu þannig upp að þetta eigi allt að koma úr byggingarsjóðunum sjálfum, hv. þm., heldur einmitt að við ætlum okkur að ná samkomulagi við lífeyrissjóðina og bankakerfið til að koma inn í þessa mynd á nýjan hátt. Það er mál nr. 1, 2 og 3. Að því þurfum við að vinna.

Og af því að verið var að tala hér um lífeyrissjóðina áðan, ég held það hafi verið hv. 2. þm. Austurl., vil ég aðeins geta þess að við gerðum núna fyrir einmitt þetta ár sérstakan samning við lífeyrissjóðina um að við það fjármagn, 690 millj., sem gert er ráð fyrir í lánsfjárlögum, verði staðið. Það hefur aldrei fyrr verið gengið eins tryggilega frá þessum málum. Húsnæðisstofnunin er búin að hafa samband við alla lífeyrissjóðina um þetta mál og í aprílmánuði var Byggingarsjóður ríkisins búinn að fá milli 25 og 30% af áætluðu fjármagni frá lífeyrissjóðunum og Byggingarsjóður verkamanna rúmlega 30%. Við höfum því fyllstu ástæðu til að halda að við þetta verði staðið og því verður að treysta.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þetta meira. En ég legg áherslu á það, um leið og ég endurtek að vegna þeirrar miklu áherslu sem ég lagði á það við framsögu málsins 8. des. að félmn. ynnu saman í aðalatriðum í þessu máli, hlýt ég að harma að það skyldi ekki vera gert en um leið leggja gífurlega áherslu á það, og höfða þar til skilnings og vinsemdar hv. þm. í þessari deild, að allt verði gert sem hægt er til að greiða fyrir því að frv. verði að lögum.