17.10.1983
Efri deild: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Tómas Árnason:

Hæstv. forseti. Að gefnu tilefni vil ég aðeins rifja upp í örfáum orðum sögu þessa gjalds. Á árinu 1979 hagaði svo til að það voru veruleg vandkvæði á því að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum. Ég var þá fjmrh. og var mjög óánægður með hallareksturinn vegna þess að ég álít að það sé grundvallaratriði í þjóðarbúskap að halda jafnvægi í ríkisfjármálunum. T.d. í glímunni við verðbólguna er ég þeirrar skoðunar, að það sé í sjálfu sér ekki lausn að breyta verðbólguvanda í ríkisfjármálavanda, og er alveg sömu skoðunar nú og ég var þá. Ég beitti mér því í samráði við þáv. forsrh., hv. þm. Ólaf Jóhannesson, fyrir fjáröflun til ríkissjóðs, talsvert verulegri fjáröflun, sem var nú ekki vinsæl þá frekar en oft áður. Liður í þeirri fjáröflun var einmitt þetta gjald. Það var að sjálfsögðu sótt um heimild til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að leggja á gjaldið á sínum tíma og sú heimild var veitt til eins árs. Þannig varð gjaldið til með fullu samþykki sjóðsins.

Ég hef síðan verið þeirrar skoðunar að þetta ætti ekki að vera varanlegt gjald og er þess vegna samþykkur því að gjaldið verði nú afnumið. Það má auðvitað deila um hvort það ætti að gera á miðju ári eða um áramót, það er annað mál, en í prinsippinu er ég þeirrar skoðunar að rétt sé að fella gjaldið niður.

Um álagningu gjaldsins og brbl. má auðvitað deila. Það er ærið teygjanlegt hvað menn telja vera brýna nauðsyn samkv. 28. gr. stjórnarskrárinnar og eflaust fjöldamörg fordæmi fyrir svipuðum aðgerðum og þessari, þó að það geti vel verið að ekki sé ástæða til að beita brbl. um svona mál. — En ég vildi láta þetta koma fram um forsögu málsins og jafnframt svo hitt, að ég er sammála því og mun styðja að þetta gjald verði fellt niður.