09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, Stefáni Benediktssyni og Kolbrúnu Jónsdóttur að flytja hér frv. til l. um breytingu á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl.

Skal ég nú gera í stuttu máli grein fyrir efni þessa frv. Það felur í sér að verslun með matjurta- og gróðurhúsaframleiðslu verði færð verulega í frjálsræðisátt frá því sem nú er. Það er skoðun þeirra sem standa að flutningi þessa frv. að slíkt mundi stuðla að aukinni og fjölbreyttari framleiðslu og nánara sambandi framleiðenda og neytenda. Eftir sem áður yrði þó innflutningur á kartöflum og grænmeti takmarkaður við þann tíma er innlend framleiðsla dugir ekki til að fullnægja eftirspurn.

Í frv. er ráð fyrir því gert, að það sem í lögum heitir einkaréttur ríkisstj. til að flytja til landsins kartöflur og nýtt grænmeti verði afnumið, en auðvitað geti Grænmetisverslun landbúnaðarins starfað áfram, en þá á jafnréttis- og samkeppnisgrundvelli við aðra aðila.

Þá er í frv. gert ráð fyrir að landið verði allt eitt sölusvæði fyrir matjurtir og gróðurhúsaafurðir og veitt er heimild fyrir fleiri aðila en Sölufélag garðyrkjumanna, sem er samvinnufélag þeirra, til þess að fá viðurkenningu til heildsölu á innlendri framleiðslu að uppfylltum almennum skilyrðum.

Þá er í frv. lagt til að við opinbera verðákvörðun, sem varðar garðávexti, verði aðeins fjallað um „hámarksverð“, ekki eins og verð er nú, þannig að leyfilegt verði að selja þessa vöru á lægra verði og kostir hinnar frjálsu samkeppni fái að njóta sín.

Mál svipuð þessu hafa komið fram áður hér á hinu háa Alþingi. Ég minni á að á 103. löggjafarþingi flutti Vilmundur Gylfason og fleiri þm. Alþfl. frv. sem gekk mjög í þessa sömu átt og á 104. löggjafarþingi flutti hv. þm. Friðrik Sophusson og fleiri frv. sem einnig gekk í þessa sömu átt. Sýnist mér því allar horfur á að unnt muni að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins á þessu þingi.

Ég hygg að leitun sé að sams konar fyrirkomulagi og hér ríkir um þessi mál hjá öðrum þjóðum, þ.e. að ríkið hafi með lögum áskilið sér einkarétt til að flytja til landsins kartöflur og grænmeti.

Nú mun það hafa verið á kreppuárunum sem fyrst var stofnsett Grænmetisverslun landbúnaðarins. Má vera að slíkt hafi verið nauðsynlegt þá og síðan hafi það fyrirtæki á stríðsárunum annaðhvort verið stofnað að nýju eða vakið til lífsins. Ég kann ekki þá sögu til fyllstu hlítar. Það má líka vera að það hafi verið réttlætanlegt þá að hafa einkasölu og einokun á þessu sviði. En árið 1983 held ég að það sé gjörsamlega úr samhengi við allt annað í þjóðfélaginu að halda áfram einokunarverslun á þessu sviði. Raunar má segja að í kartöflurækt hér á landi ríki núna fullkomið skipulagsleysi.

S. l. vor voru settar niður um það bil 22 þús. tunnur af kartöflum. Í sæmilega góðu meðalári reikna menn með 10–12-faldri uppskeru. Þá hefði uppskeran orðið í kringum 220 þús. tunnur, þ.e. tvöföld ársneysla okkar hér á Íslandi á kartöflum. Ef sprottið hefði í sumar eins og í sæmilegu meðalári, þá væru núna til tveggja ára birgðir af kartöflum í landinu.

Svo eru auðvitað líka ýmis önnur vandamál í sambandi við þessa ræktun. Það lítur út fyrir að um þessar mundir sé tíðarfar að kólna hér á landi, veður sé að kólna, meðalhitastig fari nokkuð lækkandi. Í sumar varð eins og alkunna er nánast algjör uppskerubrestur í kartöflurækt. Það beinir huganum að því, hvort þarna hafi verið fylgst nægilega vel með, hvort menn hafi verið nægilega opnir til að taka upp nýjungar, hvort það hafi verið nægileg hvatning í kerfinu til að svo yrði gert. Ég held nefnilega að þetta einokunarkerfi hafi kannske komið í veg fyrir það.

Þegar ég er að tala um breytingar eða nýjungar á ég t.d. við það að leggja hitaleiðslur í jörð, sem er ekki aðeins vel framkvæmanlegt heldur mjög auðvelt tæknilega og áreiðanlega ekki svo tiltakanlega dýrt.

Í öðru lagi, hvort nægilega mikið er um það að bændur stundi svokallaða skiptirækt til þess að jarðvegurinn fái að jafna sig, svo að það fáist betri uppskera, kartöflur sem þola betur hnjask, þola betur geymslu, eru bragðmeiri. Hver er t.d. þáttur þess að nota lífrænan áburð í auknum mæli, sem er ekki gert nema í mjög litlum mæli, skilst mér, í kartöflurækt, en sérfræðingar segja að gefi tvímælalaust betri raun en notkun tilbúins áburðar. Ég held að þetta kerfi sem viðgengist hefur, þetta staðnaða, dauða einokunarkerfi hafi kannske átt þátt í því að koma í veg fyrir að hér yrðu breytingar. (Gripið fram í: Það voru 300 þús. tunnur í ár. )

Núna í haust voru settar á markað rauðar íslenskar kartöflur, þvegnar og í nýjum umbúðum. Þarna var um góða vöru að ræða. Neytendur tóku þessu vel og kartöflurnar seldust mjög vel. En ég held að í þessu kerfi sé ekki næg hvatning fyrir framleiðendur til að setja vandaða vöru á markaðinn og fá fyrir hana mjög gott verð. Ég hygg að kartöfluneysla hér hafi líka farið minnkandi núna allmörg undanfarin ár. Hins vegar hafi þær tvær verksmiðjur sem settar hafa verið á laggirnar til að framleiða svokallaðar franskar kartöflur eða Parísar-kartöflur, eða hvað þetta heitir nú allt saman, haft nokkur áhrif til að auka neysluna eða a.m.k. að koma í veg fyrir að hún minnkaði.

Þetta frv. gerir aðeins ráð fyrir þeirri breytingu að viðskrn. skuli veita leyfi til innflutnings á kartöflum og nýju grænmeti samkv. almennum reglum í reglugerð, er ráðuneytið mundi setja, en hér segir í 4. gr. frv., með leyfi forseta: „Í reglunum skal m.a. kveðið á um að leyfi til innflutnings skuli því aðeins veitt að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn.“ Því aðeins skulu leyfi veitt að innlend framleiðsla dugi ekki til. Og enn fremur: „Viðskrn. skal ráðfæra sig við samtök innlendra ræktenda og við samtök kaupmanna áður en gildistími innflutningsleyfa samkv. framangreindu er ákveðinn“. Hér er gert ráð fyrir því að haft sé samband við þessa hagsmunaaðila og að þetta geti gerst í samkomulagi. Ég hygg að í Noregi muni gilda mjög svipaðar reglur um þetta, að þar er ákveðin nefnd sem í samráði við innlenda framleiðendur heimilar innflutning á kartöflum og grænmeti.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að landbrn. hafi á hendi yfirstjórn innlendrar matjurtaframleiðslu og geri áætlanir um uppbyggingu þeirrar atvinnugreinar. Á þetta hefur hér skort. Einnig skuli það beita sér fyrir því að fjármagn fáist til framkvæmda í samræmi við slíkar áætlanir.

Þá er ráðuneytinu gert að setja reglur um mat og gæðaflokkun matjurta. Það getur falið Framleiðsluráði landbúnaðarins að fjalla um sölumál framleiðslu innlendra matjurta, en Framleiðsluráðið skal stuðla að því að fullnægt verði sanngjörnum óskum framleiðenda og neytenda.

Ráðuneytinu er samkv. þessu frv. einnig gert að stuðla að eftirliti með meðferð matjurta og að jafnan séu notaðar bestu fáanlegar aðferðir við ræktun, flutning, geymslu og vinnslu. Að því er kartöflurnar varðar virðist svo seinni árin sem þær þoli lakar geymslu, þoli lakar hnjask, þoli lakar þá auknu tækni sem beitt er við upptökuna, þessar stórvirku vélar. Mun það raunar ekki bundið við kartöfluræki hér á landi heldur hefur það einnig gerst víðar.

Í 5. gr. frv. segir að Sölufélag garðyrkjumanna skuli njóta viðurkenningar sem sölufélag ylræktarbænda, en einnig skuli heimilt að viðurkenna aðra heildsöluaðila. Ég held að það fyrirkomulag sem verið hefur á grænmetissölunni hér hafi gefist tiltölulega vel. Þar er ekki beinlínis um neina einokun að ræða. Þar er um samvinnufélag framleiðenda að ræða og ég held að það hafi gefið nokkuð góða raun. Þeirra samtök hafa að vísu verið gagnrýnd fyrir stefnu í verðlagningarmálum á undanförnum árum, en þar hafa þau nokkuð komið til móts við óskir neytenda og hagað sinni verðlagningu eftir því hvernig framleiðslunni hefur verið háttað. Um hásumarið, þegar uppskera hefur verið mest af tómötum og öðru grænmeti, hefur verðið lækkað verulega, sem leitt hefur til söluaukningar.

Ég held að það sé kominn tími til að við hugum að því hvort ekki er rétt að breyta þessu staðnaða og afdankaða einokunarkerfi, sérstaklega varðandi kartöflurnar. Það hefur verið árviss viðburður, raunar gerst svo lengi sem ég man eftir, að kvartanir hafa komið frá neytendum vegna þess að þær kartöflur sem á boðstólum væru í verslunum væru ekki boðleg vara. Það kvað mikið að þessum kvörtunum á s.l. vori og fram eftir sumri, mjög mikið og nú hafa verið fluttar inn frá Hollandi kartöflur, sem eru seldar hér í verslunum á að ég held 21 kr. kg en eru algjörlega óflokkaðar og eru náttúrlega vara samkv. því, eins og ég hygg að þeir hv. þm. muni vita sem borða kartöflur, eða hafa gert sér far um að athuga þessi mál núna. Það eru bæði íslenskar og erlendar kartöflur á markaðnum og þær erlendu eru hreint ekki góðar. Þar er einokunarfyrirtækið að verki. Ég hef það fyrir satt að aðilar, sem stunda innflutning hér, treysti sér til að kaupa kartöflur erlendis frá á lægra verði en Grænmetisversluninni hefur tekist. Um þetta skal að vísu ekki fullyrt en þetta hefur mér verið tjáð. Enn aðrir hafa sagt að það mætti e.t.v. ná hagstæðari samningum um flutninga á þessum vörum hingað til landsins en tekist hefur hjá þessu fyrirtæki. Í þeirri grein ríkir hörð samkeppni.

Ég held, virðulegi forseti, að það ætti að geta náðst samstaða um þetta mál hér í þinginu. Ég veit að fulltrúar sjálfstæðismanna eru fylgjandi frjálsri verslun, frjálsum viðskiptum. Þeir munu því áreiðanlega styðja þetta frv. með ráðum og dáð og sjá um að það hljóti greiðan gang í gegnum þingið. Ég veit ekki um fulltrúa annarra flokka, en ég held satt að segja að við verðum að átta okkur á því að þessi Grænmetisverslun landbúnaðarins, sem framfylgir einkarétti ríkisstj. til að flytja inn kartöflur, er alger tímaskekkja í íslensku þjóðfélagi í dag. Ég held að því fyrr sem við breytum þessu því betra fyrir alla neytendur og því er þetta frv. flutt.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og væntanlega landbn.