16.05.1984
Efri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5977 í B-deild Alþingistíðinda. (5303)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Frsm. 1. minni hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Það frv. til l. sem liggur hér fyrir um réttindi skipstjórnarmanna hefur verið lengi í undirbúningi hjá þeirri nefnd sem skipuð var til að semja frv., en það var í júnímánuði 1978 eða nánar tiltekið 26. þess mánaðar sem nefnd þessi var skipuð eða í ráðherratíð Halldórs E. Sigurðssonar, þáv. samgrh. Nefnd þessari var einnig falið að endurskoða lög um vélstjóraréttindi og svo einnig skömmu síðar lög um lögskráningu sjómanna. Þessi nefnd lauk störfum 29. mars s. l. og hélt 78 fundi. Störf nefndarinnar tóku langan tíma sem bæði stafaði af viðamikilli gagnaöflun, bæði hér heima og frá öðrum löndum, og svo veikindum eins nm.

Í þessari nefnd voru hinir hæfustu menn og við skipan í nefndina hefur verið leitast við að tengja sem best þá hagsmunaaðila sem málið snerta. Eins og fram kemur í grg. þessa frv. áttu sæti í nefndinni frá samgrn. Kristinn Gunnarsson deildarstjóri sem jafnframt var skipaður formaður. Frá Vélskóla Íslands var tilnefndur Andrés Guðjónsson skólastjóri þess skóla. Sjómannasamband Íslands tilnefndi Guðmund Hallvarðsson, formann Sjómannafélags Reykjavíkur. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands tilnefndi þáverandi forseta sinn Ingólf S. Ingólfsson, en haustið 1982 lét hann af nefndarstörfum sökum heilsubrests. 24. nóvember sama ár tók Helgi Laxdal vélfræðingur sæti í nefndinni eftir tilnefningu Farmanna- og fiskimannasambandsins. Af Stýrimannaskólanum var tilnefndur þáverandi skólastjóri þess skóla Jónas Sigurðsson, af Landssambandi ísl. útvegsmanna Jónas Haraldsson skrifstofustjóri, frá Vinnuveitendasambandi Íslands Jón Magnússon lögfræðingur og frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga var tilnefndur Óskar Einarsson deildarstjóri. Haustið 1982 var Páll Sigurðsson dósent ráðinn nefndinni til aðstoðar. Einnig er þess getið að starfsmaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sat nokkra fundi nefndarinnar eftir beiðni formanns hennar.

Ég legg áherslu á þessa skipun nefndarinnar og dreg það sérstaklega fram hér vegna þess að nú við framlagningu þessa frv. eftir nær sex ára starf nm. að gerð þess, þá hafa mótmæli borist gegn því til samgn. þessarar hv. deildar, einkum frá Stýrimannaskólanum, fulltrúum skipstjóra og stýrimanna, svo það virðist sem lítil tengsl hafi verið á milli fulltrúa þessara aðila í nefndinni og þeirra sem nú gagnrýna frv. harðast. Ég tek það fram að síðustu daga nú fyrir helgina komu mótmæli frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu. Einnig kom álit frá Stýrimannafélagi Íslands, en það var mun hógværara en frá hinum aðilunum.

Fyrstu lög um atvinnu við siglingar hér á landi voru sett 1893. Allt frá þeim tíma hafa lög um siglingar og atvinnuréttindi skipstjórnarmanna verið í endurskoðun með nokkurra ára millibili. Síðustu lög í þessum efnum eru frá 1973, lög nr. 69, og eftir þeim er unnið í dag.

Við jafnörar breytingar og orðið hafa á síðustu árum, einkum í tæknibúnaði skipa almennt, er eðlilegt að slíkar breytingar séu metnar inn í þau lög sem nú er verið að setja, enda speglast það mjög í því frv. sem hér liggur fyrir og tekið hefur verið tillit til þess af höfundum þess. Auðvitað orkar margt tvímælis í því sem hér er lagt til, eins og vill verða við allar breytingar, en þó okkur hafi þótt ýmislegt gott í því gamla sem við höfum og þekkjum megum við samt ekki vera of rög við það að taka upp breytingar sem breyttir tímar og tækni bjóða upp á.

Ég ætla ekki að fara út í einstakar greinar eða breytingar þessa frv., sem eru gerðar frá núgildandi lögum, þar sem nefndin hefur ekki gert neinar tillögur um breytingar á því heldur leggur það hér fram óbreytt frá því sem það kemur frá hendi höfunda þess.

Hæstv. samgrh. hefur lagt áherslu á að frv. þetta nái fram að ganga, einkum með það fyrir augum að marka megi þá stefnu að draga megi verulega úr og helst að losna alveg við, nema í undantekningartilvikum, hinar illa séðu undanþágur sem átt hafa sér stað undanfarin ár hjá yfirmönnum á skipaflota okkar landsmanna. Eins og hæstv. alþm. er kunnugt eftir þá skýrslu sem lögð var fram hér á Alþingi nú í vetur er þarna um mikið vandamál að ræða eins og áðurnefnd skýrsla bar með sér. Voru um 1200 undanþágur veittar, einkum hjá mönnum á fiskiskipaflotanum, flestar til stýrimanna og vélstjóra. Slíku ástandi getur enginn mælt bót og þess vegna er það skylda löggjafans að leita færustu leiða til að ráða þarna bót á. Með samþykkt þessa frv. er vissulega stigið stórt spor í þá átt.

Eins og fram kom í máli mínu hér fyrr vil ég undirstrika að hérna er um venjulegar breytingar að ræða hvað varðar réttindi skipstjórnarmanna, einkum það atriði er varðar réttindi til að stjórna skipi eftir 1. stigs nám í Stýrimannaskóla. Markið er nú hækkað úr 120 tonnum í 240 tonn, en benda má á að á síðustu árum hefur fjöldi skipa verið stækkaður að rúmlestatölu með lengingu eða yfirbyggingu og sömu menn eru með skipin og voru þá og einnig stýrimenn á þeim frá því fyrir breytingar. Er þarna ekki einn þátturinn í undanþágufarganinu? Við verðum að horfast raunhæft í augu við nýja tækni og breyttar aðstæður.

Deila má um námskröfur og siglingartíma en ávallt verður að gæta þess að fyllsta öryggis sé gætt gagnvart skipi og skipshöfn og í starfsþjálfun og námi ber að leggja sérstaka áherslu á þann þátt mála. Það segir ekki alla söguna í þeim efnum hvort 1. stigs próf úr Stýrimannaskólanum gefur rétt til þess eftir tilskildar siglingar eða starfsþjálfunartíma að stjórna skipi sem er 120 brúttórúmlestir eða 240, heldur það að menn hafi tilskilin réttindi til þeirrar stjórnunar, hvort heldur er sem skipstjórar eða stýrimenn.

Í dag er of stór hluti þessara yfirmanna, einkum stýrimanna, með undanþágur til þessara starfa. Aðsókn að stýrimannaskólum landsins hefur farið verulega minnkandi á síðustu árum og það svo verulega að til vandræða horfir hjá þessum skólum og hlýtur það að vera alvarlegt áhyggjuefni hjá þjóð sem byggir afkomu sína að langstærstum hluta á sjómennsku. Forráðamenn skólanna telja þetta að stærstum hluta stafa af því hve greiðlega hefur gengið fyrir menn að fá undanþágur til að starfa án tilskilinnar skólagöngu. Undir þetta skal tekið hér, en einnig koma þarna fleiri atriði til greina, eins og fjárhagsmál þeirra er í skólann vilja fara. Þarna er um að ræða menn sem hafa stundað sjómennsku í alllangan tíma og í mörgum tilvikum haft allgóð laun, fjölskyldumenn sem þurfa oft og tíðum að sjá fyrir stórum fjölskyldum, og þeir sem búa úti á landi þurfa að rífa sig upp og koma hingað til Reykjavíkur eða til Vestmannaeyja til þess að geta sest í viðkomandi skóla. Þetta vex mörgum í augum sem von er og þegar við þetta bætist svo að þurfa að greiða skatta af góðum tekjum árið áður á meðan setið er í skólanum. Í flestum tilvikum njóta þessir menn ekki námslána vegna þeirra tekna sem þeir hafa haft.

Þarna er um verulegt vandamál að ræða sem hæstv. samgrh. þyrfti að vinna að breytingu á. Þó ég hafi hér rætt um nám í stýrimannaskólanum og vandamál þeirra nemenda sem hann sækja eða sækja vilja á þetta sama við um nemendur Vélskólans og skal það sérstaklega undirstrikað hér.

Virðulegi forseti. 1. minni hl. þessarar hv. deildar leggur til í nál. sínu að frv. verði samþykkt óbreytt, en vill benda á að rétt er að setja í reglugerð tilsvarandi ákvæði og lagt er til með brtt. við frv. um atvinnuréttindi vélstjóra um undanþágu frá gjaldi þeirra nemenda sem eru við störf á milli skólaára eins og er gerð brtt. um við vélstjórafrv., en ætti við um 19. gr. þessa frv.

Ég læt hér máli mínu lokið sem framsögumaður 1. minni hl. þeirrar n. er um þetta mál fjallaði.