16.05.1984
Efri deild: 100. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5986 í B-deild Alþingistíðinda. (5310)

302. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Frsm. 1. minni hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um atvinnuréttindi vélstjóra fyrir hönd 1. minni hl. samgn. sem þá var. Ég ætla ekki að hafa mörg orð þar um. Það á það sama við um þetta frv. og kom fram í máli mínu um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna. Hér eru gerðar líkar breytingar í þá átt að reyna að fækka þeim undanþágum sem eru hér ríkjandi í þessum atvinnugreinum. Það skal tekið fram að um þetta frv. var nokkuð góð samstaða. Hagsmunaaðilar hafa ekki haft þar uppi mótmæli á sama hátt og hefur verið um skipstjórnarfrv. Þess vegna leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem fylgja á þskj. 840. Það eru ekki mikilvægar breytingar en rétt er að þær komi hér fram.

Í fyrstu brtt. er lagt til að 3. gr. 2. mgr. orðist svo: „Til starfstíma má einnig telja starfstíma við vélarupptekt um borð í skipi, í vélsmiðju eða í annarri sambærilegri málmiðnaðargrein.“ Þetta er gert til að taka af tvímæli um hvað telst til vinnuþjálfunar, þannig að menn geti aflað sér réttinda til að geta hafið vélstjóranám einmitt með því, þegar þeir hafa sína vinnu við þessi tilteknu verkefni.

Önnur brtt. er við 5. gr.: „Á eftir 1. málsl. 3. mgr. komi nýr málsl. er orðist svo: Nemendur vélskóla, sem sigla á undanþágu milli námsára, eiga rétt á endurgreiðslu gjaldsins, haldi þeir áfram námi á næsta námsári, gegn framvísun á vottorði frá viðkomandi skóla þar um.“ Þetta fjallar um það að tekið er gjald fyrir veittar undanþágur, en n. telur rétt að þeir nemar Vélskólans sem sigla á milli skólaára eða til þess að ná sér í tilskilinn siglingartíma til þess að geta haldið áfram í sínu námi fái þetta endurgreitt ef þeir sýna vottorð um að þeir hafi hafið nám næsta haust á eftir.

Þriðja brtt. er við 6. gr.: „Aftan við 1. tölul. bætist: til fjölgunar eða fækkunar.“ Þetta er um það að svokölluð mönnunarnefnd getur ákveðið frávik frá ákvæðum laganna um fjölda vélavarða og vélstjóra, eftir því sem tilefni gefst til, þegar verið er að taka tillit til hagræðingarráðstafana, tæknibúnaðar og annars slíks, sem þarf að reyna, þá geta þeir gert þar tillögu um til fjölgunar eða fækkunar. Þetta er sett inn í fullu samráði við Vélstjórafélag Íslands.

Ég hef ekki fleiri orð hér um. Um þetta gildir það sama og ég sagði áðan um frv. um atvinnuréttindi skipstjóra. Þetta er í mjög líkum dúr og má segja að sama grg. dugi fyrir þessu eins og hinu frv. Minni hl. n. sem að þessu stendur — við vorum ekki nema þrír, Árni Johnsen var fjarverandi — leggur til að frv. verði samþykkt.