16.05.1984
Efri deild: 100. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5987 í B-deild Alþingistíðinda. (5311)

302. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu formanns samgn. fylgjast þessi tvö frv. að, þ. e. frv. um atvinnuréttindi vélfræðinga og atvinnuréttindi skipstjórnarmanna. Það skal þó undirstrikað að svo virðist sem miklu meira samkomulag sé um þetta mál innan samtaka vélstjóra en samtaka skipstjórnarmanna. Þó eiga þessi mál að okkar áliti að fylgjast að. Þess vegna töldum við í minni hl. samgn. eðlilegt að eins færi um þetta mál, að því yrði frestað á sama máta og við lögðum til að frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna yrði vísað frá deildinni með rökstuddri dagskrá. Við munum því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.