16.05.1984
Efri deild: 100. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5987 í B-deild Alþingistíðinda. (5314)

252. mál, fjarskipti

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um fjarskipti og brtt. sem flutt er á þskj. 913. Frv. var sent til umsagnar flugráðs, flugmálastjórnar, Háskóla Íslands, Verslunarráðs, Félags símvirkja, símsmiða og línumanna hjá Pósti og síma og er leitast við í brtt. að taka mið af þeim ábendingum sem þar komu fram. Brtt. miðar einkum að því að rýmka um einkarétt Pósts og síma til fjarskipta í vissum og afmörkuðum tilvikum og miðað er að strangari kröfum til verklags Pósts og síma varðandi prófun notendabúnaðar.

Eins og fram kemur í nál. eru atvinnuréttindamál mjög viðkvæm varðandi þessa lagasetningu og er nauðsynlegt við setningu reglugerðar skv. 3. gr. frv. að tryggð verði starfsréttindi þeirra manna sem nú hafa með höndum uppsetningu notendabúnaðar.

Efasemdir komu fram um það fyrirkomulag að tegundarprófanir notendabúnaðar væri í höndum Póst- og símamálastofnunar, en stofnunin hefur sjálf sölu notendabúnaðar með höndum. Nefndin leggur þó ekki til að þessi mál verði lögð í hendur sjálfstæðrar stofnunar, stofnuð verði sjálfstæð stofnun um þessi mál, en telur nauðsynlegt að starfsreglur og tímamörk Pósts og síma varðandi þessar prófanir séu skýrt afmarkaðar í reglugerð.

Nefndarmenn voru sammála utan einn þeirra um að Póst- og símamálastofnun hafi áfram til sölu notendabúnað og varahluti. Einn nm., Kolbrún Jónsdóttir, hefur fyrirvara á um þetta atriði og flytur brtt. við nál. á þskj. 943. Að öðru leyti var n. sammála um að mæla með samþykkt frv. með þeim brtt. sem fram koma á þskj. 913 og um aðrar greinar þess ætla ég ekki að hafa lengra mál en vísa til framsögu samgrh. fyrir frv. við 1. umr. málsins.