09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég get að því leyti tekið undir orð hv. síðasta ræðumanns, að þetta mál kemur til umfjöllunar í nefnd þar sem ég á sæti, og það er ekki nema sjálfsagður hlutur að málið fái sína eðlilegu og þinglegu afgreiðslu. Ég get hins vegar sagt það strax sem mína skoðun á þessu máli að það er ýmislegt í þessum efnum sem er eðlilegt að gaumgæfa og, eins og reyndar frsm. tók hér fram, ástæða til að athuga hvort hægt sé að færa til tækni okkar tíma. Við vitum það mætavel að aðstæður eru orðnar aðrar í sambandi við flutninga en áður voru og vera má að ýmislegt í þeim efnum sé hægt að hagnýta sér til betra skipulags.

Alveg með sama hætti má mjög á það líta að neytendur fái meira ráðrúm til að meta gæði vöru hinna einstöku framleiðenda, t.d. með því að kartöflunum sé pakkað á viðkomandi framleiðslustað og viðskiptaaðilar geti haft nokkurt ráðrúm um það hvaðan þeir kaupa sínar kartöflur. Í þessu sambandi má minna á að það er að sjálfsögðu ekki nærri því öll kartöfluframleiðsla á landinu sem gengur í gegnum Grænmetisverslun landbúnaðarins. Þannig er stórt framleiðslusvæði norður við Eyjafjörð þar sem framleiðendur og þeirra sölusamtök þar annast dreifingu þessarar vöru.

Í minni heimabyggð gerist þetta með sama hætti. Þar eru það aðrir aðilar en Grænmetisverslunin sem sjá um þá sölu. Ég held að við ættum ekki að mæta ábendingum sem þessum með fyrir fram neikvæðu hugarfari. Það vil ég ekki gera, enda er bæði framsetning á þessu máli og raunar framsaga hv. flm. með nokkrum öðrum hætti en maður á að venjast frá þeim heiðursmönnum í Alþfl. Það er fjarri því að ég vilji taka við þessu máli með einhverjum fordómum, síður en svo.

Hv. flm. talaði nokkuð um einokun í þessum efnum og taldi að ýmis mistök í þessari búgrein mætti e.t.v. rekja til þessarar einokunar. Ég tel að hér sé seilst nokkuð langt, en þær ábendingar sem fram komu í ræðu hv. þm. verða að sjálfsögðu kannaðar og athugað mjög gaumgæfilega hvort hægt sé að finna þeim stað í því viðskiptafyrirkomulagi sem ríkir í þessari búgrein. Ég ætla hins vegar aðeins að minnast á tvennt.

Í fyrsta lagi þar sem hann talar um skipulagsleysi í sambandi við niðursetningu eða stærð garðlanda s.l. vor og talar þar um tiltekna margföldun á útsæði. Þannig er nefnilega mál með vexti að um langan tíma hefur verið sett það mikið niður af útsæði að ef alls staðar væri góð uppskera yrði um offramleiðslu að ræða. Það var ekki einungis á síðasta ári, það hefur átt sér stað um marga ára skeið. Okkar veðurfar og okkar ræktunarskilyrði eru með þeim hætti að við fáum ákaflega sjaldan góða uppskeru alls staðar á landinu. Það er að sjálfsögðu líka afar sjaldgæft að svo fari sem fór á þessu ári, að uppskeran brást langvíðast.

Annað sem ræðumaður minntist líka á í þessu sambandi var það sem ég vildi nú frekar rekja til leiðbeiningarstarfseminnar og rannsóknastarfseminnar í landinu sem er, eins og við vonandi öll vitum, alveg óháð sölukerfinu. Hafi eitthvað sérstaklega verið sofið á verðinum í þeim efnum er þar við Rannsóknastofnun landbúnaðarins, tilraunastöðvarnar og leiðbeiningarþjónustuna að sakast, sem ég hef átt nokkra hlutdeild að um margra ára skeið, að koma ekki á framfæri þeirri vitneskju sem þannig hefur fengist. Ég ætla ekki að dæma það hér hvort þar hefur verið um að ræða þann árangur sem eðlilegt væri að gera kröfur til. Ég held að það sé ekki hægt að fá neinar stærðir til að byggja slíkt mat á. Það held ég að sé nokkuð augljóst mál að í rannsóknar- og leiðbeiningarstarfsemi sé mjög erfitt að finna einhvern árangur sem beinlínis sé hægt að leggja niður í tilteknar stærðir. En hitt vil ég aftur á móti fullyrða, að á vegum þessara aðila og bændaskólanna í landinu, og þá sérstaklega Bændaskólans á Hvanneyri, hefur verið mjög mikið unnið að rannsóknarmálum í sambandi við m.a. kartöflur.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa umr. af minni hendi lengri að þessu sinni. Þetta mál fær sína þinglegu meðferð og að sjálfsögðu kemur fram hver sé afstaða Alþingis í þessu máli.