16.05.1984
Efri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5994 í B-deild Alþingistíðinda. (5325)

363. mál, kjaradómur í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Sem svar við orðum hv. 5. landsk. þm. þá er ég ekki þeirrar skoðunar að nauðsyn geti ekki brotið lög og að ekki þurfi lög til þess að brjóta ákveðna nauðsyn. En það verður að skoða hvert mál í því ljósi sem það liggur hverju sinni. Ég hef áhyggjur af því að menn skuli ekki átta sig á því að hér eru flugmenn alls ekki að semja við Flugleiðir. Þeir eru að semja við ríkið. Þeir eru að þvinga ríkið til þess að taka ábyrgð á þeim launum sem þeir eru svo gagnrýndir fyrir vegna þess að þau eru svo há í hlutfalli við laun Sóknarkonunnar.

Við vitum öll að hér á landi er nokkuð viðtekin hefð að gagnrýna laun manna eins og lækna og flugmanna og í eina tíð voru það verkfræðingar líka. Það er varla orðið lengur, en þessir menn eru að losa sig undan ábyrgðinni á ákvarðanatökunni. Nú geta þeir bent á stjórnvöld landsins þegar þeir fá sín laun ákveðin af Kjaradómi og það verða ekki nein smánarlaun, það vitum við. Þau verða í hlutfalli við þau laun sem þeir hafa í dag. Sama launabilinu verður haldi uppi af Kjaradómi. Þið skuluð ekki ætla að Kjaradómur fari að lækka laun flugmanna, ekki nokkur leið. En samningsaðilar bera ekki ábyrgð á því lengur. Þeir geta bent á stjórnvöld og sagt: Þau bera ábyrgð á því. Það voru þau sem ákváðu launin okkar. Það er þess vegna sem ég er á móti þessu frv.