16.05.1984
Efri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5995 í B-deild Alþingistíðinda. (5326)

363. mál, kjaradómur í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það á að vera almenn regla að dómi okkar Alþb.-manna að aðilar vinnumarkaðarins gangi frá sínum samningum sjálfir án nokkurra afskipta stjórnvalda eða löggjafans. En engin er sú regla að ekki séu undantekningar á. Þegar um er að ræða launamenn almennt hlýtur að gegna nokkuð öðru máli annars vegar um hinn almenna launamann — ég tala nú ekki um láglaunamanninn sem er að berjast sinni erfiðu lífsbaráttu — og svo hins vegar um hálaunamanninn, manninn sem kannske er langt fyrir ofan öll venjuleg laun en er í aðstöðu til þess að stöðva með afdrifaríkum hætti þau hjól í samfélaginu sem helst mega aldrei stöðvast. Hann hefur þá aðstöðu til þess, að fara langt fram úr öllum öðrum og í raun og veru þá misnota þau réttindi, sem verkfallsrétturinn felur í sér.

Við Alþb.-menn teljum því að það geti verið réttlætanlegt í algjörum undantekningartilvikum að löggjafinn hlutist til um kjarasamningamál og þá eingöngu þegar slíkir hálaunamenn eiga í hlut. Við viljum ekki að verkfallsrétturinn sé flekkaður af ofnotkun eða misnotkun fámennra hópa sem knýja fram mjög há laun sér til handa í krafti þeirrar séraðstöðu sem þeir njóta. Þarna getur í einstaka undantekningartilviki verið óhjákvæmilegt að gera undantekningu.

Flugmenn eru tvímælalaust í hópi þeirra starfsstétta sem slíkar undantekningar geta heyrt til. Nú verður að sjálfsögðu að skoða það ákaflega vandlega í hverju tilviki hvort eðlilegt sé að grípa inn í mál af þessu tagi. Það er alls ekki sjálfgefið, það vil ég taka mjög skýrt fram, að bara vegna þess að flugmenn eigi í hlut eigi löggjafinn að grípa inn í. Það er síður en svo sjálfgefið í þessu tilviki né í öðrum. Slík undantekningartilvik verður að rannsaka mjög gaumgæfilega og stjórnvöld verða að meta það hvenær komið er að því marki að ekki verði undan vikist að stjórnvöld hafi þar afskipti. Þannig var þetta veturinn 1981. Kjaradeila flugmanna var í fullum gangi en stjórnvöld hikuðu nokkuð við að grípa þar inn í. Þó varð það niðurstaðan í þáv. ríkisstj. að óhjákvæmilegt væri að hafa þar afskipti og við Alþb.-menn tókum fulla ábyrgð á þeirri afstöðu. Þó fór svo að það reyndi ekki á ákvörðun af því tagi vegna þess að samningar höfðu tekist áður en til þess kom. En þetta sýnir að í áranna rás hefur það ekki verið nein ófrávíkjanleg regla hjá okkur Alþb.-mönnum að ekki gæti komið til greina að grípa inn í tilvikum sem þessum.

Við höfum ekki fengið í hendur nein gögn sem sýna hver gangur þessa máls hefur verið á undanförnum dögum og vikum. Við höfum ekki verið í neinni aðstöðu til að meta það hvort óhjákvæmilegt hafi verið að grípa inn í deilu flugmanna nú eða freista þess að staldra við og sjá hver þróun deilunnar yrði. Það er því útilokað að við getum borið ábyrgð á þeirri ákvörðun sem stjórnarflokkarnir vilja taka í þessu tilviki, þ. e. grípa inn í deiluna. Við höfum ekki haft neina aðstöðu til þess að leggja þar þann dóm á sem verður að vera undirstaða þess að hægt sé að samþykkja frv. af þessu tagi. Því hefur það orðið niðurstaðan í þingflokki Alþb. að taka ekki afstöðu til frv. við atkvgr. um það og við munum sitja hjá.