16.05.1984
Efri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5996 í B-deild Alþingistíðinda. (5327)

363. mál, kjaradómur í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Til upplýsingar fyrir 3. þm. Norðurl. v. þá upplýsti hv. þm. Karvel Pálmason í umr. um þetta mál í Nd. í dag að hjá sáttasemjara ríkisins lægju fyrir skriflegar yfirlýsingar frá báðum aðilum um það að ekki þýddi fyrir þá meira að tala saman. Það næðust ekki samningar á milli þeirra. Og það er akkúrat á þessum forsendum eða þessum grundvelli sem ég er að reyna að benda ykkur á og koma ykkur í skilning um að þar með eru þessir aðilar búnir að ákveða það sjálfir upp á sitt einsdæmi að vísa þessu máli nánast til ríkisstj. til ákvörðunar. Að láta þá komast upp með það að þvinga stjórnvöld með þeim hætti, að ógna þessum ákveðna viðskiptaþætti í íslensku atvinnulífi, það tel ég ekki vera röggsemi af hálfu ríkisstj. Þessi viðbrögð, þessi löggjöf er þvert á móti undanlátssemi, uppgjöf og eiginlega hálf óhugnanlegt að horfa til þess hvernig fámenn stétt getur sett jafnsterka ríkisstj. í mikinn vanda.