09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem skeður hér í deild í dag. Hv. 4. þm. Reykn. afneitar áðan sjálfstæðismönnum í síðustu ríkisstj. og átelur þá fyrir mikið hirðuleysi í stefnumörkum og efnahagsmálum, og nú skeður það að hv. 11. landsk. þm. efast mjög um að rétt sé að fara þá leið sem það frv. sem hér liggur fyrir bendir á. Oft hefur maður séð að Sjálfstfl. hefur lýst stuðningi við þá stefnu Alþfl. að berjast gegn einokum í hverri mynd sem verið hefur og þykir mér þetta skjóta skökku við.

Hv. síðasti ræðumaður minntist á að dreifingarsvæði væru fleiri en hjá Grænmetisversluninni og er það rétt. Það minnti mig á að á Svalbarðseyri er rekin kartöfluverksmiðja sem veitir allmörgum mönnum vinnu. Þeir eru nú í vandræðum með hráefni vegna þess að uppskerubrestur varð í sumar. Þeir geta fengið kartöflur hjá Grænmetisversluninni fyrir 12 kr. kg, en sjálfir hafa þeir tryggt sér samning að fá kartöflurnar á 9 kr. kg. En þeir mega ekki flytja inn kartöflurnar á þessu lága verði, sem þýðir það að verksmiðjan á Svalbarðseyri gæti lagt upp laupana, a.m.k. gerir það henni mjög erfitt fyrir. Vafalaust á sér stað fækkun starfsfólks í þessum rekstri ef ekki fæst leyfi til að flytja inn kartöflur sem þeir fá á miklu lægra verði.

Þetta er dæmi um það hvernig sú einokun sem á sér stað hjá Grænmetisversluninni virkar. Vafalaust eru til mörg fleiri dæmi og þau sýna okkur að kerfið sem við búum við er ótækt. Það veldur mér miklum vonbrigðum ef a.m.k. þm. Sjálfstfl. samþykkja ekki þetta frv. Ég tel að það sé spor fram á við, auki frelsi, auki möguleika neytenda til að fá ódýrari vöru, sem hefur það í för með sér að lífskjörin batna.

Ég bendi á að fram er komið annað frv., ég held að það sé 67. mál, sem fjallar um nákvæmlega það sama og 5. gr. þessa frv. Ef þdm. samþykkja þetta frv. getum við um leið ekki aðeins afnumið þá einokun sem þarna er heldur einnig samþykkt hitt frv., sem kveður á um að Sölufélag garðyrkjumanna njóti viðurkenningar sem sölufélag ylræktarbænda.