09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Þetta er greinilega mjög jákvæður dagur í sögu Ed. Allir strjúka öllum rétt og allir eru góðir við alla.

Í þessu máli vildi ég aðeins leggja áherslu á stuðning minn við þetta frv. því að ég viðurkenni að á seinni árum hafa árstíðir í mínu daglega lífi ekki hvað síst verið miðaðar við það þegar kartöflur fara að gerast óætar. Og þá bölvar maður því að vera neyddur til að neyta vöru sem vart er neysluhæf, eingöngu vegna þess að ekki má leyfa fólki að velja frjálst um hvað það kaupir. Hvers vegna þarf maður að standa hér í stól og biðja um það nánast að jafnsjálfsagðir hlutir og smárýmkun á löggjöf, alls ekki alger rýmkun heldur takmörkuð rýmkun, sé heimiluð þannig að menn fái að borða sæmilega góðan mat með kartöflum allan ársins hring?

Ég verð að játa að ég er ekki alveg eins bjartsýnn og hv. 5. landsk. þm. um velvilja vissra stjórnmálasamtaka í garð þessa frv. Ég verð að játa að mér fannst hálfgert 1000 ára hljóð í hv. 11. landsk. þm. þegar hann fór að ræða um væntanlega meðhöndlun sína á þessu máli í nefnd. Hann gaf þó aðeins eftir og taldi nú rétt að neytendur fengju aðeins meira ráðrúm til að velja og hafna. Það eru hálf ólíkindaleg hljóð frá manni sem telur sig vera í Sjálfstfl., þeim fræga flokki frelsis og frjálsra athafna.

Hv. 11. landsk. þm. hélt því reyndar fram að rannsóknir á þessum vettvangi væru gjörsamlega óháðar sölukerfi. Það er alls ekki alveg rétt því að við erum hérna að ræða um einokunarverslun, Grænmetisverslun ríkisins, sem er í eigu þess sama aðila og á rannsóknastofnanirnar sem vinna á þessum vettvangi.

Ég vil enn og aftur leggja áherslu á að hér er ekki verið að fara fram á þvingun. Það er verið að fara fram á rýmkun. Það er ekki verið að fara fram á algera rýmkun, heldur eingöngu takmarkaða. Ef menn ekki geta tekið undir það finnst mér menn vera farnir að setja nærfellt allt fyrir sig, sem fyrir þá er lagt. Auðvitað kemur þetta ekki í veg fyrir að hægt sé að efla rannsóknir og starf í landbúnaðarmálum, efla ylrækt og hvað eina sem að slíku lýtur. Höfuðatriðið í þessu máli eru neytendurnir, að þeir fái góða vöru að neyta og að sú vara sem við framleiðum, Íslendingar, standist samkeppni og samanburð við þá vöru sem flutt er inn.