09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það eru örfá orð um frv. sem hér liggur fyrir.

Mér finnst þetta frv. mjög athugunarvert og ég legg til að það verði rækilega skoðað í landbn. Það er áreiðanlega þess vert að skoða rækilega hvort rétt sé að viðhalda einkarétti Grænmetisverslunar landbúnaðarins á innflutningi á kartöflum. Ég vil benda nefndinni á það, þegar þar að kemur, að það er í gildi frjáls innflutningur á ávöxtum. Það má fá þar áreiðanlega nokkurn samanburð, ef nefndin gæti látið vinna hann upp, á hvernig verðþróunin hefur verið á ávöxtum annars vegar og kartöflum hins vegar. Þar er í gildi að heildsöluaðilar flytja inn ávexti. — Ég legg sem sagt til að þetta mál verði skoðað mjög vel.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að nauðsynlegt er að efla innlenda kartöflurækt með öllu móti og styðja mjög að því að hún eflist. Ég sé að frv. gerir ekki ráð fyrir að það sé leyfður frjáls innflutningur á kartöflum meðan innlend framleiðsla er fyrir hendi. Nauðsynlegt er að innlenda framleiðslan sé sem best og sem fjölbreyttust. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram um þau mál.

Ég hef töluvert langa reynslu af því að versla með innfluttar kartöflur og ég verð að segja að úrvalið á því sviði hefur ekki verið nægjanlegt oft og tíðum. Þess vegna legg ég til að þetta mál verði mjög rækilega skoðað í nefndinni, hvort rétt er að breyta frá því fyrirkomulagi sem við byggjum á nú.