09.11.1983
Efri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa hér mörg orð um, en mér virðist sem hv. þm., sem hér hafa talað, sérstaklega úr stjórnarandstöðunni, að undanskildum þó virðulegum þm. Sigríði Dúnu, 11. þm. Reykv., hafi haft fyrir fram nokkra fordóma um með hvaða hætti tekið yrði undir þetta mál. Hv. þm. Karl Steinar sagði t.d. hér um bil orðrétt, að ég hefði efast um leiðir þessa frv. Ég tók fram í minni ræðu að framsetningin hér væri með nokkuð öðrum hætti en menn ættu að venjast af Alþfl. Þetta vil ég líta á sem jákvæð viðbrögð frá minni hendi.

Annar hv. þm. — á meira að segja uppruna sinn í Austur-Skaftafellssýslu — var að tala um að ég hefði verið með — ég held að ég hafi tekið rétt eftir — 1000 ára fordóma. Hann talaði um að ég hefði notað orðið „aðeins“ í þessum efnum. Það getur vel verið að ég hafi einhvern tíma nefnt orðið „aðeins“, en áreiðanlega ekki sem neina sérstaka skilgreiningu á skoðunum mínum í þessum efnum. Sá heiðursmaður notaði nokkuð mikið annað orðalag, takmarkaðar breytingar. Ég sé nú ekki að það sé miklu skýrari umsögn um þetta frv. en þó að jafnvel ég hefði notað orðið „aðeins“. Sannleikurinn er sá, að afstaða verður ekki skilgreind til þessa frv. með einu orði. Hún verður að sjálfsögðu skilgreind með afstöðu til frv. — En ég endurtek það, sem ég sagði í fyrri ræðu, að þetta mál er allrar athygli vert og ekki mun standa á mér að það fái þinglega afgreiðslu.