16.05.1984
Neðri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6013 í B-deild Alþingistíðinda. (5380)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Já, það snýr dálítið einkennilega þetta mál þegar till. fulltrúa Alþb. í þessu efni snúast aðallega um það að ná peningum af raforkusölu til Keflavíkurflugvallar en tillögur fulltrúa Sjálfstfl. ganga í þveröfuga átt. En það er líka annað atriði sem er einkennilegt í þessu og það er það að þeir, sem eru að keppast við að selja ríkisfyrirtæki þessa dagana, leggja áherslu á það í málflutningi sínum að rétt sé að ríkið standi að stofnun atvinnurekstrar af einu eða öðru tagi í tengslum við þetta fyrirtæki sem það á meiri hluta í eða stóran hlut í. Þannig er röksemdafærslan eiginlega þvert á það sem maður hefur átt að venjast hér: Þeir sem vilja selja ríkisfyrirtækin vilja jafnframt fá að stofna þau, þeir sem vilja ekki selja þau vilja ekki að þau verði stofnuð. En þetta er í rauninni ekki aðalatriði málsins.

Mér sýnist fulllangt seilst þegar menn gera ráð fyrir því að í orðalaginu „nýting á jarðgufu og heitu grunnvatni“ eigi að felast yfirlýsing um það að farið verði út í almennan atvinnurekstur. Hvar ætla menn þá að draga mörkin um það? Er þá ekki allur atvinnurekstur á Íslandi nýting á varma? Er ekki notaður varmi í sambandi við allan atvinnurekstur á Íslandi? Ég hef enga trú á því að það hafi í rauninni vakað fyrir mönnum þegar þetta var sett hér inn í. Ég vil benda mönnum á að ríkið er það stór eignaraðili í þessu fyrirtæki að það getur ráðið æðimiklu um það í hvað verður ráðist. Mín skoðun er þess vegna sú að hér sé verið að deila um keisarans skegg og það skiptir ekki meginmáli hvort þetta orðalag verði með eða ekki. En ég sé ekki ástæðu til þess að hindra það að menn geti farið í aðra nýtingu á jarðgufu og grunnvatni en beinlínis þá sem upptalin er í stafliðum a og b. Það verður síðan að meta þegar þar að kemur, hversu skynsamlegt það er og hversu rétt sé í það að ráðast.

Annað atriði hefur hér valdið ágreiningi og það er spurningin um sölu á háspennulínum í eigu Rafmagnsveitna ríkisins til þessa fyrirtækis. Hér liggur fyrir brtt. um það að einungis sé heimilt að selja aðra línuna. Ég vil vekja athygli manna á því að þessar línur liggja samhliða og ég er hræddur um að það líti dálítið ankannalega út þegar þær bila ef kemur einn vinnuflokkur sunnan að og annar innan að til þess að gera við bilun sem er kannske á sömu slóðum. Ég er hræddur um að menn tapi þar af mögulegri samnýtingu starfskrafta og hagkvæmni sem væri möguleg með því að báðar línurnar séu í eigu sama aðila. Ég vil vekja athygli á því í sambandi við stofnun þessa fyrirtækis — því ég lít eiginlega á þetta sem fyrirtækisstofnun þó að hér sé einungis um útvíkkun á starfssviði að ræða — að þrátt fyrir það að þetta landsvæði liggi svo nærri höfuðborgarsvæðinu sem raun ber vitni hefur eign Rafmagnsveitna ríkisins á þessum línum þýtt það að hvergi á landinu hefur raforkuverð verið hærra en einmitt hjá rafveitum þarna vegna þess að afgjaldið fyrir það að flytja raforkuna þessa leið hefur verið svo hátt. Það hefur verið lagt á verðjöfnunargjald til þess að greiða niður verð á raforku hjá Rafmagnsveitum ríkisins og hjá Orkubúi Vestfjarða og þetta verðjöfnunargjald hefur leitt það af sér, ásamt því háa gjaldi sem hefur verið tekið fyrir að flytja raforkuna þessa stuttu leið, að raforkuverð hefur orðið hærra hjá rafveitum þarna suður frá sem hafa ekki notið verðjöfnunargjaldsins. Ég held því að það sé einsýnt í þessu máli með tilliti til hagkvæmni að heimildin sé fyrir hendi til þess að setja báðar línurnar, það verða langtum hreinni skil í öllum tilvikum, það eykur rekstrarhagkvæmni. Og ég held að forsaga málsins kenni mönnum að búið sé að fara nógu djúpt í vasana á fólki á þessu svæði út á þær línur sem hér um ræðir.

Eitt er það ákvæði enn sem iðnn. flytur brtt. um. Hún er um það að heimild Hitaveitu Suðurnesja til þess að virkja jarðvarma til raforkuframleiðslu sé háð því skilyrði að áður hafi verið gerður samrekstrarsamningur við Landsvirkjun. Nú eru samrekstrarsamningar af hinu góða, ekki er um það að efast, en mér finnst dálítið ankannalegt að setja það í lög að það sé háð skilyrðum um samninga við önnur fyrirtæki að menn geti farið í virkjanir. Að vísu er hér gert ráð fyrir að iðnrh. skeri úr ef ágreiningur kemur upp, en mér finnst þetta ákvæði heldur ankannalegt þó að ég vilji ekki láta það skipta sköpum í þessu sambandi, ekki láta það standa í vegi fyrir því þjóðþrifamáli sem hér er verið að flytja. En ég hefði kosið að iðnn. hefði hugað betur að þessu og gengið betur frá þessum hnútum þannig að árekstrar milli tveggja fyrirtækja í greininni gætu ekki staðið í vegi fyrir því að hagkvæmar virkjanir væru valdar.

Ég segi þetta vegna þess að mér hefur oft fundist að einmitt í þessari grein, raforkugreininni, hefðu fyrirtækin alveg sérstakt lag á því að koma sér upp á kant hvert við annað og koma samningamálum sínum í hnút og ég er ekki viss um að það hafi elst af fyrirtækjum í greininni ennþá. Ég ætla að vona að jafnvel þó að þetta ákvæði verði samþykkt verði það ekki til þess að mál þurfi að fara í hnút. En ég er ekki ánægður með þetta ákvæði, eins og ég segi, þó að ég vilji ekki að það skipti sköpum um örlög þessa frv.

Herra forseti. Ég held að ekki sé ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að þetta fyrirtæki geti farið í aðra nýtingu en á jarðgufu og heitu grunnvatni. Ég held að sjálfsagt sé að samþykkja þetta eins og meirihluti n. leggur til um það að heimilt sé að selja línurnar tvær en ekki helminginn af þeim. Að lokum vil ég láta í ljós ánægju mína með að þetta frv. skuli vera komið þetta langt því að ég trúi því að í því fyrirkomulagi, sem hér er gert ráð fyrir, felist veruleg hagkvæmni og að hér sé um að ræða sanngirnismál fyrir þessi byggðarlög sem þau muni vel njóta.