16.05.1984
Neðri deild: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6015 í B-deild Alþingistíðinda. (5383)

363. mál, kjaradómur í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Félag ísl. atvinnuflugmanna hefur nú á þessu vori tvívegis boðað til vinnustöðvunar þeirra félagsmanna sinna er starfa hjá Flugleiðum. Fyrri vinnustöðvunin skyldi vara dagana 11. og 12. maí s. l. Þeirri vinnustöðvun var þá aflýst með innan sólarhrings fyrirvara og jafnharðan boðað til nýrrar, er vara skal dagana 18., 19. og 20. maí n. k.

Ljóst er að slík verkfallsboðun ein sér hefur í för með sér víðtækt og varanlegt tjón í atvinnugrein sem er jafnviðkvæm og flug- og ferðamannaþjónusta. Endurteknar verkfallsboðanir fámennra hópa eru til þess fallnar að valda þúsundum ferðamanna erfiðleikum, skerða nauðsynlegar samgöngur eyþjóðar við önnur lönd og ógna atvinnuhagsmunum þeirra starfsmanna er byggja afkomu sína á þjónustu við ferðamenn.

Af fyrri reynslu er ljóst að stöðvun stærsta hluta farþegaflugsins eða endurteknar hótanir þar um geta valdið því að fjöldi ferðamanna, sem hafa ætlað að ferðast til Íslands á sumri komanda, breytir áætlunum sínum. Slíkt ástand leiðir einnig af sér verulega skert traust á íslensku áætlunarflugi og stefnir í voða árangri af víðtæku erlendu kynningarstarfi á Íslandi sem ferðamannalandi. Vinnudeila Flugleiða og Félags ísl. atvinnuflugmanna teflir því mun víðtækari hagsmunum í tvísýnu en þeirra sem í deilu eiga, þ. á m. hagsmunum þeirra þúsunda launþega er með einum eða öðrum hætti vinna við ferðamannaþjónustu hér á landi.

Vinnudeila þessi hefur nú um hríð verið í höndum ríkissáttasemjara sem haldið hefur nokkra fundi með deiluaðilum en án árangurs. Í samtali við ríkissáttasemjara í morgun taldi hann mjög ólíklegt að samkomulag næðist með deiluaðilum og raunar vonlaust eins og málin standa nú.

Það er stefna ríkisstj. að samningar stéttarfélaga séu í öllum meginatriðum innan þess ramma sem Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands hafa samið um. Nú er það hins vegar ljóst að kröfur FÍA liggja langt utan þess ramma.

Til þess að fyrirbyggja að FÍA geti með verkföllum knúið fram óraunhæfa kröfugerð sína og til verndar mikilvægum hagsmunum fyrirtækja og starfsmanna á sviði ferðamannaþjónustu er þetta frv. hér með lagt fyrir Alþingi.

Flugmenn Flugleiða hafa lagt fram kröfur um verulegar launahækkanir og aðrar kjarabætur, er ganga langt umfram það sem að undanförnu hefur verið samið um við aðrar starfsstéttir hér á landi. Flugleiðir hafa samþykkt að bjóða flugmönnum hliðstæðar kjarabætur og felast í almennum samningi ASÍ og VSÍ, en þessu hafa flugmenn hafnað og boðað til verkfalls til að leggja áherslu á sína kröfugerð. Með slíkum verkföllum er ekki aðeins stefnt í hættu íslenskum flugrekstri, sem hefur átt í verulegum fjárhagserfiðleikum undanfarin ár, heldur einnig afkomu almennrar ferðaþjónustu hér á landi.

Það er ljóst að erlendir ferðamenn, sem íhugað hafa ferðir til Íslands á þessu sumri, munu leita á aðrar slóðir ef þeir reka sig á truflanir í flugsamgöngum við landið. Áhrif slíkra truflana ná í reynd ekki aðeins til komandi sumars, heldur einnig til hugsanlegra ferða síðari ár. Yfirgnæfandi hluti þeirra erlendu ferðamanna, sem koma til Íslands, kemur með flugvélum og á s. l. ári er talið að 84% allra erlendra ferðamanna til Íslands hafi komið með flugvélum Flugleiða.

Í íslenskum flugrekstri er mikill árstíðamunur, sem jafnframt hefur afgerandi áhrif á fjárhagsafkomu flugfélaga. Þannig er yfirleitt tap á rekstri Flugleiða sjö mánuði ársins, en þetta tap þarf að vinna upp yfir fimm mánuði sumarsins eða frá maí til september. Allar truflanir í rekstri, sem upp koma á þessum tíma, skerða því möguleika félagsins á að halda uppi eðlilegri starfsemi allt árið um kring, þ. á m. að geta haldið í starfi öllu sérþjálfuðu starfsliði sínu yfir vetrarmánuðina.

Á undanförnum árum hafa verið gífurlegir fjárhagslegir erfiðleikar í Norður-Atlantshafsfluginu, m. a. vegna óheftrar samkeppni um það bil 40 áætlunarflugfélaga og fjölda leiguflugfélaga sem bjóða þjónustu á þessum markaði. Flugleiðir búa að sínu leyti við lakari kost vegna millilendinganna á Íslandi, sem m.a. lengja flugleiðina milli Lúxemborgar og Bandaríkjanna um ca. 10% borið saman við beint flug samkeppnisfélaganna. Með hliðsjón af þjóðhagslegu mikilvægi þessarar starfsemi hafa stjórnvöld í Lúxemborg og á Íslandi veitt félaginu fjárhagslegan stuðning á undanförnum árum, er m. a. hefur falist í eftirgjöf lendingargjalda Norður-Atlantshafsflugsins í Lúxemborg og Keflavík.

Vegna væntanlegrar gildistöku nýrra reglna í Bandaríkjunum um næstkomandi áramót, er fela í sér kvöð um endurnýjun eða breytingu á núverandi flugvélakosti Flugleiða, eru fram undan hjá félaginu mjög fjárfrekar aðgerðir. Ef félagið á enn að geta haldið sínum hlut á Norður-Atlantshafsleiðinni eða jafnvel aukið hann ber brýna nauðsyn til að starfsemi geti haldið áfram óskert og farþegar glati ekki tiltrausti sínu til íslensks áætlunarflugs.

Hjá Flugleiðum eru nú starfandi 118 flugmenn, en samtals eru nú hjá félaginu 1400 starfsmenn. Flugmenn eru því um 8% starfsmanna, en geta með verkfalli sínu stöðvað allt flug á þess vegum auk þess sem afkomu almennrar ferðaþjónustu er stefnt í stórhættu. Með tilliti til þess hversu íslenskt þjóðlíf er háð flugsamgöngum geta stjórnvöld ekki látið það afskiptalaust að tiltölulega fámennir starfshópar lami slíka starfsemi með verkföllum, sem ætlað er að þrýsta á samþykkt krafna er ná langt út fyrir það sem aðrir þegnar landsins hafa nú þegar samið um.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í ítarlegan samanburð á kröfum Félags ísl. atvinnuflugmanna eða viðbrögðum Flugleiða við þeim. Ég held að við gerum ekkert gott í sambandi við afgreiðslu þessa máls að fara að rifja það upp eða yfirlýsingar beggja aðila að undanförnu.

Þetta frv. gerir ráð fyrir að Hæstiréttur tilnefni þrjá menn í kjaradóm sem skal fyrir 15. júní n. k. ákveða kaup og kjör þeirra félagsmanna Félags ísl. atvinnuflugmanna sem starfa hjá Flugleiðum. Hæstiréttur kveður á um hver hinna þriggja kjaradómsmanna skuli vera formaður dómsins. Kjaradómurinn setur sér starfsreglur og aflar sér nauðsynlegra gagna og er rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum, opinberum aðilum og fyrirsvarsmönnum Flugleiða og FÍA.

Þá er ákvæði um það að kjaradómurinn skuli við ákvörðun kaups og kjara flugmanna hafa til viðmiðunar við úrskurð sinn síðast gildandi kjarasamning aðila og þær almennu kaup- og kjarabreytingar sem orðið hafa skv. kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.

Verkbönn, verkföll, þ. m. t. samúðarvinnustöðvanir, eða aðrar aðgerðir, sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála, eru óheimilar.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð miklu fleiri. Það má eðlilega deila um hvort nafnið á þessu frv. sé það eina og sanna. Sú nefnd sem fær málið til meðferðar mætti alveg eins breyta fyrirsögn frv. í þá átt að hér sé um frv. til l. um kjaradóm, kaup og kjör flugmanna að ræða í staðinn fyrir stöðvun verkfalls Félags ísl. atvinnuflugmanna, en þetta eru tveir höfuðkjarnarnir í þessari lagasetningu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn. Ég vænti þess að samvinna geti tekist á milli allra flokka í Alþingi um að greiða fyrir afgreiðsla þessa máls, þannig að það geti farið í gegnum Alþingi á þessum degi, því að það er þegar orðið mjög skammt í það verkfall sem Félag ísl. atvinnuflugmanna hefur boðað til og mundi verulega skerða flutninga til og frá landinu og flutninga á milli Bandaríkjanna og meginlands Evrópu.