16.05.1984
Neðri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6020 í B-deild Alþingistíðinda. (5389)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það kom fram í máli hæstv. iðnrh. að hann mundi flytja fleiri frv. í þessum dúr á næstunni og ætla má að það sem verið sé að gera sé á margan hátt stefnumarkandi. Nú fagna ég því að þetta frv. liggur hér fyrir, þó að ég hafi tvær aths. við það að gera sem hér er lagt til.

Sú fyrri er að ég tel fáránlegt að leggja til að ganga þurfi frá einhverjum sérstökum samrekstrarsamningi til þess að Hitaveita Suðurnesja megi hefja raforkuframleiðslu. Ég fæ ekki séð annað í fljótu bragði en að Landsvirkjun sé sæmilega tryggð sem eini aðilinn sem gæti selt þessu fyrirtæki raforku þó að hún þurfi ekki líka að hafa inni heimildir um að viðkomandi fyrirtæki megi ekki fara af stað með raforkuframleiðslu. Fæ ég ekki séð hvaða rök mæla með því að standa þannig að málinu.

Annað atriði sem vekur undrun mína er það, hvers vegna menn telja sjálfgefið að Keflavíkurflugvöllur sé þarna inni í. Nú má gera ráð fyrir að ýmis orkubú verði stofnuð án þess að þau selji öllum aðilum á sínu svæði raforku. Og ég tel heldur léttvæg rök hv. 3. þm. Reykn. þegar hann heldur því fram að það sé til þess að fyrirbyggja að tveir vinnuflokkar, annar komi að sunnan og hinn úr Reykjavík, hittist og séu að gera við línur hvor hjá sínum aðilanum á sama tíma. Þeir gætu myndað samrekstur eða samning um viðgerð á línunum. Það er ekkert vafaatriði að hægt er að koma því skynsamlega fyrir.

En spurningin er þessi: Ef t. d. álver er inni á svæði þar sem orkubú er stofnað af þessari tegund og talinn álitlegur kaupandi — það er ekki skrýtið þótt hæstv. iðnrh. strjúki sér um höfuðið því að spurningin getur verið nærtæk og komið fyrir á næstunni — er þá gert ráð fyrir að hinn álitlegi kaupandi verði hafður innan þessa notendahóps og má gera ráð fyrir að álverið í Straumsvík verði t. d. fært undir þessa raforkusölu, sem er þó eitt af því sem hvarflar að manni að muni vera á landamærunum þó ekki sé meira sagt? Ég er þeirrar skoðunar, að meðan sú starfsemi sem fer fram á vellinum heyrir undir utanrrh. sé það nokkuð mótað af íslenskum stjórnvöldum að það sé ekki sjálfgefið að sú byggð sem þar sé sé partur af sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Ég fæ ekki séð á hvaða forsendum, þar sem tvær línur eru suður eftir, önnur til að þjóna vellinum og hin til að þjóna hinni almennu byggð, eigi nauðsynlega að taka ákvörðun um að selja þær báðar. Mér finnst að hér hafi verið um nokkuð mikið fljótræði að ræða og menn hafi ekki sest niður og hugleitt það til enda að í sjálfu sér er völlurinn hluti af þessari veitu. Seljendur raforkunnar hafa mjög góða aðstöðu til að skammta honum raforkuverð að staðaldri rétt undir því verði sem það kostar að framleiða raforku með olíu.

Nú hefur það komið hér fram og því var ekki nógu trúlega mótmælt af hv. 4. þm. Reykv. að viðskiptin við völlinn hafa verið mjög ábatasöm fyrir Rafmagnsveitur ríkisins og það er ekki rétt að báðar þær háspennulínur sem liggja suður eftir séu gamlar. Önnur línan er mjög nýleg og var byggð beinlínis vegna orkusölunnar á vellinum. Raforkuverðið var sett af þeirri ástæðu að því var ætlað að greiða niður þá línu á skemmri tíma en líftími línunnar er. Þetta er ekkert nýtt í raforkukerfinu. (Gripið fram í.) Ég hygg að hér gæti dálítils misskilnings um minn aldur; en geri það ekki að deilumáli að þessu sinni. — Ég vil aftur á móti spyrja hæstv. iðnrh. að því hvort gera megi ráð fyrir þeirri niðurstöðu að þegar Sunnlendingar mynda sitt orkubú, sem vonandi verður, yfirtaki þeir raforkuframleiðsluna á Þjórsársvæðinu, sem er að sjálfsögðu inni á þeirra svæði, og njóti þeirra jarðgæða sem Suðurland býður upp á og jafnframt hvort vænta megi þess að Austfirðingar, þegar þeir myndi sitt orkubú, fái öll þau vatnsföll sem arðgæfust eru á Austurlandi ásamt glæsilegustu sölumöguleikunum, m. a. til þeirrar verksmiðju sem þar á að rísa. Þetta þykir mér eðlilegt að komi hér fram því að það mundi auðvelda mönnum ákvarðanatökuna um hvort það sé sjálfgefið að Keflavíkurflugvöllur sé kaupandi frá Hitaveitu Suðurnesja. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. sjái sér fært að svara þeim spurningum sem hér hefur verið til hans beint, en þær varða mjög þá stefnumörkun sem hér er verið að fjalla um.