16.05.1984
Neðri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6025 í B-deild Alþingistíðinda. (5391)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um hafði ég augum litið álitsgerðir sem borist höfðu hv. iðnn. vegna máls þessa frá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkustofnun. Rafmagnsveitur ríkisins segja á einum stað svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði af þessari breytingu á lögum um Hitaveitu Suðurnesja láta Rafmagnsveitur ríkisins af hendi raforkukerfi sem þær eiga og reka á Suðurnesjum. Þrátt fyrir háværar raddir frá ýmsum aðilum á Suðurnesjum um það að Rafmagnsveiturnar hafi hagnast á rekstri þessara flutningskerfa á kostnað rafveitna sveitarfélaganna í gegnum árin er staðreyndin hins vegar sú að tekjur af raforkuheildsölu til sveitarfélaga rafveitnanna hafa vart dugað til að standa straum af fjármagns- og rekstrarkostnaði Reykjanesveitunnar.“

Þetta er um þennan hluta málsins að segja. Það er, eins og menn veita athygli, ekki um Keflavíkurflugvöll að tefla í þessu máli. Hvað segir svo ráðgjafarstofnunin sem á að vera vísindastofnun? Hvernig hljóða einstaka tilvitnanir þar? Hér segir aftur á móti Orkustofnun að Rafmagnsveitur ríkisins hafi um langan aldur sett þarna raforku, haft af því allverulegan ábata og verði þetta frv. að lögum sé verið að flytja ábatann af raforkusölu til Keflavíkurflugvallar frá því fyrirtæki sem annast raforkudreifingu í meginhluta dreifbýlis á Íslandi og býr við erfiða fjárhagsstöðu til þéttbýlisorkuveitu sem ekki þarf að fást við jafnerfið verkefni. Svo segir vísindafyrirtækið:

„Hlutverk hitaveitunnar á þar sem annars staðar að takmarkast við að vinna orkuna og koma henni til notandans og selja honum hana. Hún á ekki að taka þátt í fyrirtæki sem notar orkuna.“

Hvar skyldi það standa í bréfum eða lögum og reglugerðum um þessa stofnun að hún eigi að kveða upp slíka dóma? Hér segir enn:

„Hér er um að ræða grundvallaratriði sem löggjafinn þarf að hafa í fullum heiðri.“ Orkustofnun segir okkur góðfúslega frá því hvað beri að hafa í heiðri. Ég tek ekki við slíkum yfirlýsingum. Það er ekki við hæfi, segir þessi vísindastofnun við stjórnmálayfirvöld og Alþingi, að opinber þjónustufyrirtæki með einkaleyfisaðstöðu hætti fé sínu í slíka starfsemi. Þessi álitsgerð er engu lík og ég segi um hana það sem mér sýnist af því að hún er langt utan við það hlutverk sem þessi stofnun á að gegna. Hún er að segja Alþingi til um verkefni sem er á vegum Alþingis en ekki þessarar stofnunar. Þessu mun ég áreiðanlega koma á framfæri við þá sjálfa án milliliða á þingfréttasíðu Þjóðviljans.

Ég svaraði því til að ég er ekki sömu skoðunar í þessu efni og hv. 5. þm. Austurl. Hann er í réttu hlutverki að ræða þessi mál hér, en ekki Orkustofnun í umsögnum sínum til hins háa Alþingis. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við þurfum að veita alla þessa forsjá, að stjórn þessa fyrirtækis sé ekki treystandi til þess að taka um það ákvörðun hvern veg það ver fjármagni sínu. Það er þessi forsjá sem ég vil ekki hafa. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að þessi margumræddi c-liður, sem veitir fyrirtækinu heimild til annarrar starfsemi, eigi einneigin að standa. Hvað er á móti því að hitaveitan gengist til að mynda fyrir framkvæmdum í heilbrigðismálum, sem menn hafa mjög á orði að kunni að gefast hin bestu færi á við sérstökum sjúkdómi suður þar? Hvað er á móti þessu? Ég sé ekkert á móti því. Og allt er það heldur léttvægt sem hv. þm. þenur sig út af hér, hefur greinilega farið fyrir hjartað á honum útvarpsumr. hér í gær. Það er sjálfsagt, þótt síðar verði, að taka annan eldhúsdag ef þeir þykjast þurfa að rétta hlut sinn, Alþb.-menn, þó að ég sjái ekki hvaða erindi það eigi inn í umr. um Hitaveitu Suðurnesja.

Hv. 5. þm. Vestf., sem hefur ekki tíma til að sitja undir umr. þótt hann hafi vit til þess að taka þátt í henni, varpar fram fsp. til mín um það hvað ég vilji segja ef álver verður staðsett á þessu svæði, hvað ég vilji segja um ef stofnuð verði Orkuveita Suðurlands, hvort þá sé hugmyndin að sú orkuveita yfirtaki Þjórsárvirkjanir. Hv. þm. veit vel hver grundvallarstefna í þessum málum er og raunar lögfest. Við höfum til þess Landsvirkjun, Íslandsvirkjun, að annast um aðalorkuöflun og höfuðdreifingu orkunnar. Þetta er skýrt markað. (Forseti hringir.) Ég hef lokið máli mínu eftir andartak. — Þetta er skýrt markað. Aftur á móti er sú stefna uppi og engum dulin að þar sem er um smærri dreifingu að tefla, dreifingu í smásölu og til hins almenna notanda, hef ég þá stefnu að dreifa valdinu. Þetta er eitt dæmið um það sem við hyggjumst breyta til að dreifa valdinu út til sveitarfélaganna þar sem þau eru til þess reiðubúin og hagkvæmt þykir að þau hafi með höndum þessa starfsemi. Mér er ljóst og ég hef margoft tekið það fram að Rafmagnsveitur ríkisins eiga hlutverki að gegna, en það er eitt af mínum stefnuskráratriðum þegar afhending á rafmagni frá Íslandsvirkjun verður um allt landið, þá er stefnan eindregin að raforkuverðið verði hið sama í öllu landinu.