16.05.1984
Neðri deild: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6028 í B-deild Alþingistíðinda. (5393)

271. mál, Hitaveita Suðurnesja

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil mótmæla þeim orðum síðasta ræðumanns, hv. þm. Gunnars G. Schram, að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi verið með málþóf í þetta skiptið í þessu máli því hv. þm. Gunnar G. Schram ætti að heyra þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er með málþóf, þá getur hann verið langorður, en hann hefur flutt tvær stuttar ræður í þessu máli sem ég hef hlýtt á og þær hafa báðar verið efnislegar og í knöppu formi.

En vegna þess hvernig umr. hafa fallið tel ég mig tilneyddan að undirstrika að ég tel mikilvægt að breyting á raforkukerfunum, þ. e. sundurhlutun þeirra, verði ekki til þess að orkuverð til notenda annars staðar á landinu hækki. Ég held að hér sé verið að stofna gott og arðvænlegt fyrirtæki og ég er því sannarlega hlynntur að Suðurnesjamenn fái að nýta sína raforku og virkja sína orku úr iðrum jarðar sér og þjóðinni allri til hagsbóta. En ég vil ekki að það verði til þess að orkuverð annars staðar verði dýrara. Þess vegna þarf að hafa á þessu visst skipulag og þess vegna er t. d. samrekstrarsamningur milli Landsvirkjunar og Hitaveitu Suðurnesja sjálfsagður. Ef hann væri ekki og ef báðir virkjuðu án tillits hvor til annars gæti vel verið að farið væri óskynsamlega með fjármuni.

Rafmagnsveitur ríkisins hafa haft nær 30 millj. kr. í brúttóhagnað af sölunni á Keflavíkurflugvöll. Það verður að staðnemast við þessa tölu hvort sem það líkar betur eða verr og líta á þessar tekjur missa Rafmagnsveitur ríkisins. E. t. v. missa þær líka óþægindi af verslun á Suðurnesjum sem í umsögn þeirra var gert nokkuð úr. Ég tek fram að þarna er um að tala brúttóhagnað, en allt um það gæti maður ímyndað sér að ef einhvers staðar borgar sig að selja raforku sé það til svo stórs notanda eins og þarna er um að ræða. Og þá þarf að sjá fyrirtækinu eða öðrum fyrirtækjum, sem dreifa raforku annars staðar um landið, fyrir tekjum þar á móti. Út af fyrir sig væri miklu eðlilegra að það væri Landsvirkjun þá sem seldi til einstakra stórnotenda, svo sem eins og álversins í Straumsvík og verksmiðjunnar á Grundartanga. Ef Hitaveita Suðurnesja selur ekki þetta rafmagn þangað væri eðlilegra að það væri Landsvirkjun en RARIK. En við viljum sem sagt ekki að orkureikningar annars staðar á landinu hækki með þeim gjörningi sem við erum hér að gera og þess vegna er nál. svo úr garði gert sem það er.

Það er vel hægt að hugsa sé að báðar línurnar séu ekki seldar í einu og Hitaveita Suðurnesja kaupi fyrst litlu línuna og Rafmagnsveiturnar eða annar aðili haldi áfram að eiga um eitthvert skeið þá stærri. En hér er um heimildarlög að ræða og heimildin er bundin því að flutningslinur verði seldar en ekki gefnar og nál. tekur af tvímæli um vilja meiri hl. n. Ég vona svo að endingu að Hitaveita Suðurnesja verði blómlegt fyrirtæki. Ég óska því fyrirtæki alls hins besta. Það hefur farið vel af stað. Og ég vona að það verði heillaspor fyrir þá Suðurnesjamenn að það færi út kvíarnar hér og óska fyrirtækinu alls hins besta.