16.05.1984
Neðri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6033 í B-deild Alþingistíðinda. (5402)

363. mál, kjaradómur í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Um leið og ég lýsi yfir stuðningi við þetta frv. miðað við þær aðstæður sem hér eru vil ég vekja á því athygli að það háfleyga tal, sem stundum heyrist hér um frelsið á vinnumarkaðnum og frjálsa samninga, verður ansi innantómt stundum. Og það er merkilegt ef menn eru ekki opnir fyrir því á stundum sem þessum að nauðsynlegt sé að semja nýja vinnulöggjöf í landinu til þess að aðilar geti á hverjum tíma gengið út frá því sem vísu á hverju þeir eigi von. Að sjálfsögðu hleypir það kergju í menn ef þeir eru í verkfalli ef þeir vita að annar aðilinn muni leita mjög grimmt eftir því að fá lög sett í ákveðin mál. Slíkt hleypir kergju í menn og á e. t. v. þátt í því að menn hætta að talast við.

Mér er ljóst að ekki er vinsælt að ræða það að setja þurfi ný lög um þessi mál. En ef mönnum er það ekki ljóst á þessari stundu að þau lög sem við notumst við eru ákaflega úrelt og léleg, þá veit ég ekki hvenær mönnum ætti að vera það ljóst.