16.05.1984
Neðri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6033 í B-deild Alþingistíðinda. (5403)

363. mál, kjaradómur í vinnudeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það var ekki ætlan mín að standa hér í umræðum, enda samkomulag um að hér yrðu ekki eldhúsdagsumr., en orð síðasta ræðumanns, sem ég vil ekkert skattyrðast við hér, gera það að verkum að ég þarf að gefa hér örstutta yfirlýsingu. Ég er í prinsippinu andvígur íhlutun ríkisvaldsins í vinnudeilur og ég vil taka það fram að hjásetu mína ber ekki að taka sem svo að ég beri ekki fulla virðingu fyrir störfum, ábyrgð og menntun flugmanna. En hér á í hlut starfsstétt sem hefur þreföld, fjórföld, fimmföld laun almennra verkamanna eða verkakvenna. Flugmenn fara fram á mun meiri hækkanir en almennt verkafólk hefur fengið eða hefur möguleika á að ná. Mér finnst launamisréttið í landinu nóg fyrir og vil ekki á það bæta. Einstaka sérhæfðir hópar á háum launum hafa í mörgum tilfellum mörgum sinnum sterkari verkfallsstöðu en almennir, óbreyttir launþegar og óheft vald þeirra til verkfalla held ég að leiði til skerðingar á verkfallsrétti almenns verkafólks. Illu heilli mátti heyra það á máli síðasta ræðumanns. Ég get ekki sem formaður í samtökum láglaunafólks hindrað framgang þessa máls en ég vara hæstv. ríkisstj. við að nota þetta sem fordæmi fyrir lög gegn almennu verkafólki.