16.05.1984
Neðri deild: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6043 í B-deild Alþingistíðinda. (5424)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn. hafði eftir mér ummæli sem ég átti að hafa sagt í sjútvn., í nokkuð undarlegu samhengi. Skal ég ekki fást um það hvernig mín ummæli eru skilin, en það sem ég hef vakið athygli á í sambandi við þetta mál er að ýmsar greiðslur, sem eiga að renna til sjómanna, eru enn óinnkomnar, eins og 15 millj. kr. til Lífeyrissjóðs sjómanna og 6.5 millj. kr. til annarra velferðarmála sjómanna. Þetta er hvort tveggja óinnkomið og ef ofan á yrði að fella lögin við þessa umr. mundi það að sjálfsögðu þýða að sjómenn yrðu af þessu fé. Skil ég ekki hvernig sú mikla umhyggja sem hér kom annars fram í sambandi við hetjur hafsins getur samræmst þeim sjónarmiðum.

Ég vil einnig taka undir þau orð sem féllu hér um það hversu erfið sjósókn væri, einkum að vetrarlagi, og tel nauðsynlegt að það komi einnig fram hér að sú nefnd sem fjallað hefur um öryggismál sjómanna hefur farið fram á það að vextir af þessu gengismunarfé renni til öryggismála sjómanna, en þar er um mjög verulegt fé að ræða, eða vaxtatekjur á s. l. ári sem nema tæpum 18 millj. kr. Þau mál eru nú í athugun.

Ég vil einnig láta þess getið varðandi þau ummæli sem hv. síðasti ræðumaður lét hér falla að meiri hl. sjútvn. Nd. hefur skilning á þeim vandamálum sem skreiðin stendur frammi fyrir og hefur fullan vilja á að beita sér með þeim hætti að komið verði til móts við skreiðarverkendur meira en gert hefur verið. En ég vil jafnframt minna á það, að útflutningsgjald af skreið var lækkað á þeirri skreið sem framleidd var fyrir síðustu áramót að frumkvæði þessarar nefndar.

Á hinn bóginn liggur ekki fyrir á þessari stundu, hverjar tekjur gengismunarsjóðs muni endanlega verða. Hefur verið mikil tregða á því síðustu mánuði, ég ætla frá áramótum, að greiðslur berist frá Nígeríu fyrir skreið og tel ég mjög ógætilegt á þessari stundu að segja um það hvenær greiðslur berast þaðan. Skal ég ekki fara nánar út í þau mál.

En ég ítreka það, að vandi skreiðarverkenda er okkur ljós. Þessi vandi er ekki nýr af nálinni. Og ég vil enn segja vegna ræðu 5. þm. Reykn. að ólíkt betri er rekstrarafkoma atvinnuveganna nú en áður var, ef við förum eitt ár aftur í tímann. Ég vil enn fremur segja það, að frv. það sem hér liggur fyrir er ekki þess efnis að verið sé að draga fé frá sjávarútveginum sem heild. Og allra síst er hægt að halda því fram að frv. feti í sér að verið sé að níðast á sjómönnum eða útvegsmönnum. Þvert á móti er verið að flytja fé frá framleiðslunni til sjómanna og útgerðarmanna. Þetta held ég að nauðsynlegt sé að komi hér fram vegna þeirra ummæla sem hér féllu áðan.