09.11.1983
Neðri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

13. mál, endurmat á störfum láglaunahópa

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það mun vera nokkuð óvenjulegt að flytja frv. til l. um að skipa nefnd eins og hér er lagt til. En í grg. taka flm. fram hvers vegna það er. Ástæðan er sú að áður hefur hér verið flutt á hv. Alþingi till. til þál. um skipan nefndar til að gera sérstaka úttekt á kjörum láglaunahópa. Sú tillaga var samþykkt hér á hv. Alþingi. Þetta er eitt af baráttumálum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það náði samþykki hér á hv. Alþingi en eftirtekjan er heldur rýr — efndirnar nánast engar. Og það mun vera ástæðan fyrir því að sú leið er farin að flytja hér frv. til l. um að skipa nefnd. Og það, sem er athyglisvert við það að öðru leyti, er að nefndin skal skipuð hlutlausum sérfróðum aðilum til þess að skilgreina hugtakið „láglaunahópar“ og gera úttekt á raunverulegum kjörum þeirra.

Það bar til tíðinda — og þótti fréttnæmt — í gær að hæstv. ríkisstj. hefði á fundi sínum ákveðið að gera nú leit að þessum láglaunahópum sem mörgum virðast vera týndir í þjóðfélaginu. Það er augljóst mál að flutningur þessa máls hefur stuggað við ráðherrum þannig að þeir hafa ákveðið að vera fyrri til í kapphlaupinu svo að vel má vera að flutningur þessa máls hafi þegar skilað nokkrum árangri. Nú skulum við að vísu ekki slá því föstu því að þó að ríkisstj. samþykki að leit skuli hafin er ekki víst að þeir komi í leitirnar.

Mig langar til að fara örfáum orðum um þetta mál frekar og þá m.a. með vísun til þess sem fram hefur komið í umr. áður.

Hér á hv. Alþingi hafa farið fram ítarlegar umr. um kjaramál að undanförnu í tilefni af bráðabirgðalögum ríkisstj., sem hér hafa legið fyrir til staðfestingar, um afnám vísitölukerfis, um afnám samningsréttar. Fjölmiðlar eru allir fullir af upplýsingum um gífurlega kjaraskerðingu sem launþegar hafi mátt þola og taka á sig og þjóðfélagið nánast snýst um fátt annað en það lífskjarahrun eða þá lífskjarafórn sem orðið hafi á undanförnum árum og misserum. Menn hafa misjafnar skoðanir á orsökum þess arna, en flestum ber saman um það að kjör þjóðarinnar hafi farið versnandi. Og menn spyrja óhjákvæmilega ýmissa spurninga um það hverjum er ættað að bera byrðarnar. Er þar farið eftir eðlilegum sjónarmiðum sanngirni og réttlætis eða er hér um að ræða einhliða lífskjarafórn? Og allt snýst þetta tal að lokum um láglaunahópana, láglaunafólkið og hlut þess. Það má furðulegt heita að í allri þessari umr. skuli þykja alveg sérstök ástæða til þess að setja á laggirnar sérstaka nefnd til þess að rannsaka það hvað menn eiga við með þessu. Hvað eiga menn við þegar menn tala um láglaunafólk? Hvar er þetta fólk að finna? Í hvaða stéttarfélögum er það? Í hvaða atvinnuvegum er það? Hver eru kjör þess? Eigum við virkilega að trúa því að það liggi ekki fyrir sæmilegar upplýsingar í þessu hagspaka þjóðfélagi — þar sem hagfræðilegar upplýsingastofnanir spretta upp eins og gorkúlur á haug og eru að verða óteljandi — um það hver tekjuskiptingin í þjóðfélaginu er?

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vildi meina að það skorti ekki upplýsingar. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vísaði því algjörlega á bug að við verkalýðshreyfinguna væri að sakast um fátækt og bág kjör láglaunafólks. Hins vegar vildi hann meina að það skorti mikið á skilning ráðamanna — stjórnmálamanna — á kjörum þess. En meginspurningin er þessi: Er það virkilega svo að það vanti fyrst og fremst upplýsingar um hag þessa fólks? Ég skal ekki fullyrða um það, hvort svo er. Auðvitað liggja upplýsingarnar fyrir, en kannske skortir dálítið á úrvinnslu þeirra. Ég held að það skorti ekki upplýsingar um kaupgjaldstaxta verkalýðshreyfingarinnar og það vantar ekki upplýsingar um hvaða stéttir það eru sem raunverulega bera úr býtum kaup samkvæmt þessum töxtum. Þannig vitum við í stórum dráttum hvaða hópar þjóðfélagsins það eru sem ekki njóta annarra kjara en fram kemur í þessum kauptöxtum, þ.e. búa ekki við ákvæðisvinnukerfi, njóta ekki yfirborgana af einu eða neinu tagi. Engu að síður er það svo að ef það væri staðreynd að Íslendingar eða íslenskir launþegar lifðu af þessum töxtum þá væri ekki nokkur vafi á því að það væri hungursneyð í þessu landi, það væri hrein og klár hungursneyð. Það er ekki nokkur vafi á því að það væru komnar hér fram harðar kröfur um það að rannsaka hvaða hópar það væru sem hér byggju raunverulega við hungur, hvaða hópur það væri sem væri fyrir neðan hungurmörk. Vegna þess að það er engin leið að halda því fram að hægt sé að framfleyta fjölskyldu af tekjum einnar fyrirvinnu á lægstu töxtum verkalýðshreyfingarinnar. Og reyndar liggur það ljóst fyrir að um 90% a.m.k. af meðlimum ASÍ eru láglaunafólk samkvæmt skilgreiningum sem notaðar hafa verið þar.

Ólafur Björnsson prófessor hefur nýlega vakið athygli á því að ef allt það væri satt og rétt sem sagt hefur verið um kjör fólks á Íslandi út frá þessum töxtum og ef allt það væri satt og rétt sem sagt hefur verið og samþykkt á ótal fjölmennum samkomum um þá skerðingu á umsömdum kjörum sem fólk hefur mátt þola, einkum og sér í lagi á rúmum s.l. áratug, þá væru þjóðartekjur Íslendinga áreiðanlega ekki einu sinni helmingur af því sem mönnum ber þó saman um að þær séu. M.ö.o. það virðist allt benda til þess að staðreyndir og „staðreyndir í umræðum“ um kaup og kjör séu sitt hvað.

Ef við lítum í kringum okkur í þjóðfélaginu og spyrjum hver séu ytri tákn raunverulegra lífskjara íslenskra fjölskyldna — svona yfirleitt — ef við lítum á híbýlakostinn, ef við lítum á fermetrafjölda íbúða og berum það saman við það sem gengur og gerist hjá launþegum annarra þjóða, ef við lítum á bifreiðaeign, ef við lítum á ferðalög til útlanda, ef við lítum á heimilistækjabúnað á venjulegu íslensku heimili, ef við lítum á vídeó-æðið — en því er m.a. haldið fram að Íslendingar séu lengra komnir í vídeó-vitleysu en nokkur önnur þjóð á byggðu bóli, sem sé mun meiri vídeótækjaeign á Íslandi en meðal Svía, sem er talin sæmilega efnuð þjóð — ef við lítum á þessar staðreyndir og spyrjum síðan: Lifir þetta fólk virkilega á Sóknartöxtum? Er þetta fólk virkilega með 11 þús. kr. á mánuði? Lifir þetta fólk á töxtum Dagsbrúnar eða Verkamannasambandsins? Er þetta láglaunafólkið á Íslandi? Og þá liggur náttúrlega í augum uppi að það er meira en lítið skrýtið.

Niðurstaðan virðist vera sú að Íslendingar lifa ekki af kauptöxtum sem verkalýðshreyfingin semur. Auðvitað er ein meginskýringin sú að raunverulegar atvinnutekjur heimila, raunverulegar ráðstöfunartekjur heimila, byggjast á tekjum fleiri en einnar fyrirvinnu. Ég hef ekki við höndina nákvæmar tölur um það hver atvinnuþátttaka giftra kvenna er eða sambúðarfólks en ég veit að hún hefur farið mjög ört vaxandi. (Gripið fram í.) 80% segir hv. þm. Guðrún Helgadóttir. 80% giftra kvenna eða sambúðarfólks eða 80% fjölskyldna sem hafa fleiri en eina fyrirvinnu. Og þá er náttúrulega komin skýringin á því að atvinnutekjurnar eða ráðstöfunartekjur heimilisins eru meiri. Það er ekki einhlít skýring. Jafnvel það mundi ekki duga til þess að útskýra „lifistandard“ Íslendinga. Það er nefnilega mikið bil á milli raunverulegra taxta og hins vegar raunverulegra atvinnutekna, raunverulegra útborgaðra tekna og raunverulegra ráðstöfunartekna heimila. Heimilin komast ekki af á neinum töxtum. Fjölskyldumeðlimirnir væru löngu dauðir úr hungri ef þeir ættu að lifa á þeim. Það segir nú sína sögu um árangurinn af kjarabaráttu verkalýðshreyfingar á undanförnum árum.

Heimilin lifa á tekjum sem er yfirleitt aflað af tveimur fyrirvinnum eða fleirum. Þar við bætist að það er mjög algengt á því tímaskeiði ævinnar, þegar fjölskyldan er að vinna það óyfirstíganlega, þ.e. að koma sér upp þaki yfir höfuðið, þá vinna báðar fjölskyldufyrirvinnurnar aukavinnu, yfirvinnu, kvöldvinnu, helgarvinnu o.s.frv. Og jafnvel þessar tölur koma ekki fram í opinberri kórréttri „statistík“ yfirvinnutíma á Íslandi af mjög skiljanlegum ástæðum. Það er vegna þess að ef allt væri fram talið í tekjum sem slík fjölskylda verður að afla ef hún á að standa undir þeim lífskjörum sem við Íslendingar gerum kröfur til, ef allar þær tekjur væru taldar fram þá væri þetta mesta hátekjustétt — mestu hátekjufjölskyldur þjóðfélagsins — og skattlögð svo grimmilega að þar með væri ávinningurinn af þessari tekjuöflun fyrir bí. M.ö.o. ég held að það verði að slá því föstu að kjaramálaumræða, sem tekur mið af töxtum verkalýðsfélaga, er yfirleitt út í bláinn og kjaramálaumræða, sem snýst um það að mæla kaupmátt launa út frá kauptöxtum, ja — hún getur verið skemmtileg út af fyrir sig, fróðleg um margt, en hún hefur ekkert að gera með raunveruleg lífskjör Íslendinga, kaupmátt ráðstöfunartekna eða raunveruleg lífskjör.

Hver er þá skýringin á því að umsamdir taxtar verkalýðshreyfingarinnar, verkalýðsfélaga og vinnuveitenda liggja svo lágt niðri að það deilir enginn um það lengur að það er ekki á færi nokkurrar fjölskyldu að lifa af þessu? Til hvers er verið að gera slíka samninga? Jú, eins og fram hefur komið þá er sagt: Ja, þetta eru lágmarkssamningar. Eru þá einhverjir hópar — það er kannske spurningin sem hér er verið að biðja um að fá svör við — eru þeir hópar fjölmennir í þessu þjóðfélagi, eru þær fjölskyldur margar sem þurfa að framfleyta sér og sínum af þeim hungurtaxtatekjum sem verkalýðshreyfingin hefur náð í kjarasamningum — þeim tekjum sem slíkir taxtar skila einni fyrirvinnu? Það er kjarni málsins. Það hefur nefnilega ekki fengist upplýst hversu margar þær fjölskyldur eru. Það hefur mörgum tölum verið hreyft en þrátt fyrir allt, þrátt fyrir allar umræður sem orðið hafa um vísitölukerfi t.d. hér á hv. Alþingi á s.l. vori, þrátt fyrir allar umræður um kjör láglaunahópa í seinustu kosningabaráttu og þrátt fyrir allar umræður sem urðu í stjórnarmyndunarviðræðum milli allra flokka um þessi mál þá vantar mikið á að það sé upplýst hverjar eru þær fjölskyldur í landinu þar sem fyrirvinnan er ein og þarf að framfleyta fjölskyldu — kannske fjögra manna fjölskyldu af þessum hungurtöxtum. Hvað eru þær margar? Hvar er þær helst að finna? Það er kjarni málsins. Það er þetta sem hér er verið að biðja um að fá upplýst.

Auðvitað má það furðulegt heita að þessar upplýsingar skuli ekki liggja fyrir. Hvernig stendur á því að verkalýðshreyfingin, sem líka hefur sínar hagstofnanir, hefur ekki getað unnið úr hinni almennu „launastatistík“ þessar upplýsingar? Er ekki tiltölulega auðvelt að afla þessara upplýsinga á tölvuöld? Ég hefði haldið það. Það er fyrir lifandis löngu tímabært að þessar upplýsingar liggi skilmerkilega fyrir og með þeim hætti að hægt sé að vinna úr þeim upplýsingum aðrar upplýsingar um félagslegt ástand á Íslandi á verðbólguáratugnum.

Við spyrjum t. d.: Er það svo að launamismunur í reynd hafi farið vaxandi á óstjórnarárunum frá 1971 til dagsins í dag? Hefur félagslegt misrétti farið vaxandi á þessum óstjórnarárum? Sjáum við merki þess sem stundum er — t.d. að taka í húsnæðismálum — haldið fram að lánakerfið hafi raunverulega sprungið, raunverulega hrunið í rúst undir stjórn hæstv. fyrrv. húsnæðismálaráðherra, formanns Alþb., og nú sé komin til skjalanna heil ný kynslóð sem býr allt í einu við allt önnur kjör og verri en fyrri kynslóðir í landinu og á þess ekki lengur kost raunverulega með góðu móti að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Hvaða áhrif hefur t.d. hrun húsnæðislánakerfis á raunverulega lífsafkomu þeirra fjölskyldna sem verða að komast af á hungurtaxtakaupi einnar fyrirvinnu sem ég vitnaði til áðan? Það er auðvitað alveg augljóst mál að einstæð móðir eða einstætt foreldri með nokkur börn á framfæri sem vinnur í starfi þar sem ekki er um að ræða kaupauka af neinu tagi, þar sem ekki er um að ræða neins konar ákvæðisvinnukerfi, þar sem ekkert er um að ræða annað en tekjur fyrir 8 stunda vinnudag á þessum hungurtöxtum — þessi fjölskylda hlýtur raunverulega að búa á hungurstigi. Fjölskylda, með 11 þús. kr. á mánuði, getur ekki komist af í þessu þjóðfélagi. Slík fjölskylda getur ekki leigt íbúð á þeim kjörum sem eru hér á markaði, hún er dæmd alveg frá þátttöku í því íslenska þjóðfélagi sem gerir ráð fyrir því að allar fjölskyldur eigi að eignast þak yfir höfuðið; það er ógjörningur með öllu að hún geti það.

Í raun og veru er fyrirvinna þessarar fjölskyldu að verulegu leyti dæmd frá þátttöku í atvinnulífinu vegna þess að það er raunverulega kraftaverk sem heyrist talað um á hverjum degi ef einstæð móðir, sem á fyrir 3–4 börnum að sjá, eða einstætt foreldri — svo að farið sé nú eftir kyngreiningarformúlum dagsins í dag — skuli á hverjum degi geta farið frá þessari fjölskyldu sinni og unnið sína vinnu á vinnustað. Þær píslir, þær hörmungar og sú félagslega martröð, sem á þetta fólk er lögð, er ólýsanleg og ég lýsi furðu minni á því, miðað við þann mikla fjölda útskrifaðra akademískra manna sem eru félagsfræðingar og félagsráðgjafar af öllu tagi að ekki skuli hafa komið fram í almennri þjóðmálaumræðu skarpari lýsing eða raunverulega sönn lýsing á þeirri óskaplegu fátækt og því óskaplega vonleysi sem þetta fólk í raun hlýtur að búa við.

Það er út frá þessum staðreyndum fyrst og fremst sem þetta mál er brýnt þótt óvenjulegt sé. Það er mjög æskilegt að þessi nefnd verði skipuð og hún hefji störf. Það er rétt leið sem hérna er boðuð — sú að nefndin verði skipuð sérfróðum mönnum sem ekki eru fyrst og fremst talsmenn einstakra hagsmunahópa þó að sjálfsagt sé að þeir leiti sér upplýsinga og gagna alls staðar þar sem slíkar upplýsingar er að fá. Það er sjálfsagt ekki tímabært hér í tilefni af þessu frv. að ræða spurninguna um hvað er til ráða, hvað helst er hægt að gera á hvaða vettvangi og með hvaða aðferðum til þess að bæta kjör þessa fólks. Við skulum fá þessar upplýsingar á borðið og sá vandi hlýtur náttúrlega að brenna á forystumönnum verkalýðsfélaganna í landinu.

Menn greinir á um það hvort verkalýðshreyfingin hafi staðið í stykkinu í þessu efni eða ekki. Menn greinir á um það hvort löggjafarvaldið, ríkisvaldið, hafi gegnt skyldum sínum í þessum efnum. Það er kannske ástæða til þess að fara nokkrum orðum um það. Menn deila ekki um það að árangur verkalýðshreyfingarinnar í því að tryggja lífskjör þessara hópa er náttúrlega hörmulegur. En er við hana eina að sakast. Menn gætu haldið því fram að harðdrægni atvinnurekenda hefði reynst slík í kjarasamningum að þar væri ástæðuna að finna.

En ég held að — burtséð frá öllum umræðum um það hvort einstök verkalýðsfélög hafi staðið í stykkinu og einstakir verkalýðsforystumenn — meginskýringin á þessu sé önnur. Hana er að finna í gjörsamlega úreltu skipulagi og vinnubrögðum verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar. Hvað á ég við með því? Ég á við með því að verkalýðshreyfingin hefur látið undir höfuð leggjast núna í aldarfjórðung að standa við yfirlýsta stefnu sína, margsamþykktar ályktanir ASÍ-þinga, um það að breyta sjálf skipulagi sínu á þann veg að í staðinn fyrir að sundra launafólki á vinnustöðum — sameini hún fólkið í ein heildarsamtök innan hvers einstaks atvinnuvegar.

Kemur þetta þessu máli við sem við erum að ræða um núna? Ég segi: Já, alveg tvímælalaust. Við erum að ræða um launabil. Við erum t.d. að varpa fram þessari spurningu: Ef það er staðreynd að þjóðarframleiðsla okkar, þ.e. þjóðartekjur á mann, fer ekki vaxandi og það er staðreynd að hún muni fara minnkandi annað árið í röð, ef allt bendir til þess að ytri skilyrði þjóðarbúskaparins verði með þeim hætti að þjóðartekjurnar og hlutur launþega í þeim verði ekki aukinn hvað erum við þá að tala um ef við erum um leið að segja að það verði að koma í veg fyrir að fjölskyldur á Íslandi líði raunverulega skort og búi við hungurstig? Við erum að segja að það verði að breyta tekjuskiptingunni innbyrðis. Við erum að segja að í þeim kjarasamningum, sem næst verða gerðir, verði það að vera forgangsverkefni að það fólk, sem ekki á til hnífs og skeiðar, sem eru þessir raunverulegu láglaunahópar sem er ætlað að lifa af tekjum sem duga ekki til þess að framfleyta fjölskyldu, verði hækkaðir en sú kauphækkun verður ekki sótt til aukinnar þjóðarframleiðslu eða aukinna þjóðartekna að öllum líkindum; það verður að taka það af öðrum. Við erum m.ö.o. að ræða um að það verði að breyta launabilunum, launakerfunum, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um.

Við eigum að gera þá kröfu til verkalýðshreyfingarinnar ef við erum þeirrar skoðunar að kjarasamningar eigi að vera frjálsir að það sé hlutverk hennar við þessi skilyrði að breyta tekjuskiptingunni sjálfri. Hvernig er verkalýðshreyfingin í stakk búin til þess? Hefur henni tekist það á undanförnum árum og áratug? Nei, henni hefur ekki tekist það. Mun henni takast það? Ég er að segja að skipulag verkalýðshreyfingarinnar, ef við lítum á það vinnustað fyrir vinnustað, stuðlar ekki að því að þetta verði gert — einfaldlega vegna þess að á fjölmennustu vinnustöðunum er það svo að skipulag verkalýðshreyfingarinnar sundrar fólkinu. Á hverjum einstökum vinnustað eru dæmi þess að starfsfólkið skiptist mjög oft upp í 10–12–15 — jafnvel 20 verkalýðsfélög, dæmi eru um það að kjarasamningar eru gerðir svo nemi mörgum, mörgum tugum og hundruðum með margvíslegum launabilum og dæmi eru um það að fólk sé í allt að 40 stéttarfélögum. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það að hið ófaglærða fólk, sem er fjölmennt, gengur til kjarasamninga sem eru heildarsamningar og eru lágmarkssamningar. Síðan þýðir þetta skipulag verkalýðshreyfingarinnar það að þeir hópar, sem sterkari hafa markaðsaðstöðuna, sem eru fámennari, vinna sérhæfð störf, koma á eftir þegar hinum almennu kjarasamningum er lokið og segja: Ja, síðan er eftir okkar hlutur. M.ö.o., láglaunafólkið í þjóðfélaginu er því, samkvæmt því skipulagi sem verkalýðshreyfingin býr við, látið draga kerruna, það er látið draga plóginn, það raunverulega ber þessa stéttabaráttu, þessa kjarabaráttu, á herðum sér. En síðan koma allir hinir á eftir, sem gjarnan þurfa minna á sig að leggja, eða minna að fórna í sjálfri kaupgjaldsbaráttunni og hafa allt sitt á þurru og tryggja sér auðveldari og betri kjarabætur.

Meðan verkalýðshreyfingin býr við þetta skipulag þá er ég svartsýnn á að hún nái árangri í því að rétta hlut láglaunafólksins. Það er dapurlegt til þess að vita að slíkt ginnungagap skuli vera milli yfirlýstrar stefnu verkalýðshreyfingarinnar og raunverulegra efnda eins og fram kemur í þessu máli. Það er dapurlegt til þess að vita að verkalýðshreyfingin skuli viðurkenna vandamálið, lýsa því yfir í stefnusamþykktum en hafast síðan ekkert að til þess að fylgja því fram. Fyrir mörgum, mörgum áratugum hefur verkalýðshreyfingin í grannlöndum okkar tekið upp skipulag sem miðar að því að sameina fólkið á vinnustöðunum í eina hreyfingu. Það stuðlar að því með því kerfi og með þeim vinnubrögðum að taka upp „solidaritets“-pólitík í launamálum. Það er slíkt kerfi sem dregur úr tilhneigingunni til launamismunar þar sem kjarasamningar fara fram á sama tíma innan sama atvinnuvegar fyrir alla, hvort heldur þeir eru faglærðir eða ófaglærðir, hvort heldur þeir gegna störfum við stjórnun eða framleiðslu. Þegar fólkið er sameinað í einu félagi, þegar upplýsingarnar liggja fyrir um launabilið innbyrðis milli fólks í þessum atvinnuvegi, þegar upplýsingar liggja fyrir um greiðslugetu í þessum atvinnuvegi, þá eru öll ytri skilyrði miklu hagstæðari til þess að reka þá „solidaritets“-pólitík, að draga úr þeirri tilhneigingu markaðsins til launamismununar sem alltaf er fyrir hendi. Og það er í þessum punkti sem verkalýðshreyfingin hefur brugðist, og þá á ég ekki við verkalýðshreyfinguna sem slíka, þá á ég fyrst og fremst við þá fámennu stjórn innan hennar sem hefur lagt hana undir sig og viðhaldið þar völdum sínum í skjóli ólýðræðislegra vinnubragða og fyrst og fremst hreiðrað þar um sig í skjóli flokksræðis. Það vita allir við hverja ég á og ég þarf ekki að hafa um það fleiri orð. M.ö.o. það er skipulag verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar sem á sinn þátt í því að kjör láglaunafólksins eru eins slæm og raun ber vitni.

En það er náttúrlega fleira sem heldur niðri launum og um það þarf ekki að hafa mörg orð. Það hefur komið fram í þeim umr. sem hér hafa orðið um launamálin. Það er staðreynd, og það varðar stjórnmálamennina, ríkisstjórnirnar og stjórnmálaflokkana, að efnahagsstefnan á Íslandi á s.l. rúmum áratug hefur m.a. borið það einkenni að sífellt hefur verið aukinn sá hluti þjóðarteknanna sem varið er til fjárfestingar, sá hlutinn er miklu hærri heldur en með öðrum þjóðum. Þetta háa hlutfall fjárfestingar hefur ekki skilað neinum arði eða mjög takmörkuðum arði og þetta er auðvitað meginástæðan fyrir því að hlutur launþega hefur farið versnandi. Oft er erfitt fyrir launþega að átta sig á þessu vegna þess að í fljótu bragði virðist þetta vera skrýtið. Fjárfestingin á að vera það sem keyrir áfram hagvöxtinn, það sem stuðlar að efnahagslegum framförum, en að vitlausar fjárfestingar, of miklar fjárfestingar, bitni raunverulega á kjörum þjóðarinnar í heild, það er ekki eins einfalt mál, en engu að síður einhver dapurlegasta staðreyndin eftir hörmungaróstjórnina á þessum liðnu tólf árum.

Það er ein spurning sem mig langar til þess að nefna líka í sambandi við þessi mál. Í launamálaumr. á s.l. sumri hefur því verið haldið fram að ein ástæðan fyrir slæmum kjörum hinna fjölmennari hópa ófaglærðra, láglaunahópanna, sé sú að þeir fái raunverulega ekki í sinn hlut í útborguðu kaupi nema lítinn hlut af raunverulegum umsömdum launum. M.ö.o. að hlutfall launatengdra gjalda sem samið er um í kjarasamningum til hinna og þessara félagslegra aðgerða og ekki aðeins félagslegra aðgerða, m.a. í þágu verkalýðshreyfingarinnar sem slíkrar, hafi orðið til þess að hlutfall útborgaðra launa samkvæmt þessum kjarasamningum hafa farið minnkandi. Í þessu efni sagði hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson með leyfi forseta:

„Þá má einnig bæta því við að vegna þeirra launatengdra atriða sem ég taldi upp áðan, orlof, tryggingar, styttri vinnutími o. fl., þá hefur skipting launakostnaðar í þjóðfélaginu breyst. Og það hefur komið mjög hart niður á þeim sem eru með lægstu launin. Hluttallið milli útborgaðra launa og launatengdra gjalda hefur gjörbreyst þannig að útborguð laun hafa hlutfallslega lækkað en launatengdu gjöldin hafa hækkað. Þetta hefur haft mjög skaðleg áhrif gagnvart láglaunafólki, sérstaklega í mikilli verðbólguþróun.“

Þetta er eitt þeirra atriða sem ég tel að sú nefnd, sem hér er lagt til að verði sett á laggirnar, taki fyrir og rannsaki. Því hefur verið haldið fram að fyrir hverjar þúsund krónur í útborguðum launum sé raunverulegur launakostnaður 1 500 kr. Og þá vitna ég til greinar um þetta efni, Mælikvarðar á lífskjör, eftir dr. Vilhjálm Egilsson í Morgunblaðinu 28. sept. s.l. Nú er spurning: Ef það er staðreynd í væntanlegum kjarasamningum að hlutur launþega í þjóðarframleiðslu eða þjóðartekjum verði ekki aukinn í heild, ef næstu kjarasamningar eiga þar af leiðandi fyrst og fremst að snúast um breytta tekjuskiptingu innbyrðis, ef það er staðreynd að það þarf að taka af þeim sem betri hafa kjörin og raunverulega láta þá taka á sig auknar kjarafórnir, þeir hafa betur efni á því, ef við ætlum raunverulega að bæta hlut láglaunafólksins, þá er ein spurning enn: Er hægt við þessi skilyrði og er verkalýðshreyfingin reiðubúin til þess við þessi skilyrði að semja um það að draga úr þeim hlut launatengdra gjalda sem ekki rennur í vasa launþega, a.m.k. meðan efnahagskreppan varir? Er þetta ekki ein leið til þess að mæta þeirri kjaraskerðingu sem launþegar hafa orðið að taka á sig? Þetta er atriði sem ég beini til launþegaforingja sem hér eru inni og hér eiga sæti á þingi, þetta er þýðingarmikið mál og þarfnast svara. Verkalýðshreyfingin hefur samið um launaskatt og samdi um hann beinlínis í því skyni að þeir fjármunir rynnu til húsnæðismála, sem ríkisvaldið og forustumenn flokka, jafnvel þótt þeir kenni sig við verkalýðshreyfinguna, hafa síðan ekki staðið við. Er þá ástæða til þess að endurskoða það þannig að þessi hluti sem er raunverulega hluti af umsömdum launum, renni til launþega úr því að honum er hvort eð er ekki varið til félagslegra aðgerða.

Hvað um þann hluta af launatengdum gjöldum sem fer kannske fyrst og fremst til þess að byggja skrifstofuhallir handa verkalýðsrekendum? Má endurskoða það næstu tvö árin á sama tíma og kjaraskerðingin er hvað verst?

Ein spurning enn handa forustumönnum í verkalýðshreyfingunni: Er þess að vænta að það ýti undir verkalýðsforingjana, þegar þeir standa frammi fyrir þeirri staðreynd að hér hefur á undanförnum árum myndast í þjóðfélaginu hópur fólks sem býr orðið við skort og hungur, að taka nú til alvarlegrar og hleypidómalausrar íhugunar breytingar á skipulagi og starfsháttum verkalýðshreyfingarinnar? Eru þeir nú reiðubúnir til þess að hætta að sundra fólkinu á vinnustöðunum samkvæmt úreltu skipulagi í allt of mörg sértæk verkalýðsfélög? Eru þeir reiðubúnir að standa við sínar eigin samþykktir í nafni „solidaritets“ og launajöfnunar, víkja frá hagsmunum flokka sinna, sem hafa stjórnað verkalýðshreyfingunni í allt of ríkum mæli hingað til, og gera nú að veruleika eigin samþykktir í þessu efni einmitt til þess að draga úr því misrétti sem er orðið allt of mikið, óþolandi mikið?

Sumir segja að árangur aðila á vinnumarkaðinum í kjarasamningum sé slíkur að ríkisvaldið verði að grípa inn. Sumir halda því fram að það sé fyrst og fremst Alþingi. Alþingi sé líklegra til þess að geta það. Þetta eru spurningar sem voru þaulræddar í stjórnarmyndunarviðræðunum. Þar voru uppi tillögur, ég hugsa í öllum þingflokkum, um það — að því er varðar vísitölukerfið, að í stað þess að láta kerfið vera óbreytt, skyldi greiða fasta krónutölu til allra. Engu að síður var það óbreytt að þær vísitölubætur, sem greiddar voru, voru hlutfallslega upp allan launaskalann. Ég segi að í öllum flokkum voru uppi tillögur um að þetta skyldi ekki gert, heldur skyldu dýrtíðarbætur greiddar sem föst upphæð, t.d. miðað við meðallaun og þannig fengju þeir, sem hærri hafa launin, minna í sinn hlut, en þetta gæti þýtt raunverulega kauphækkun til hinna lægst launuðu.

Það er ekkert launungarmál að einmitt þeir menn í öllum flokkum, sem gegna trúnaðarstörfum á vegum aðila vinnumarkaðarins, hvort heldur er í launþegafélögum eða á vegum vinnuveitenda, voru á einu máli um að þessi leið væri ófær, óframkvæmanleg. Auðvitað hefur hún verið reynd áður, ég viðurkenni það, og við vitum í stórum dráttum til hvers hún leiðir. Íhlutun Alþingis með lögum um launabilin er neyðarúrræði, segja menn. Ef menn eru á annað borð þeirrar skoðunar að þetta eigi að vera verkefni aðila vinnumarkaðarins er óæskilegt að ríkisvaldið geri það. Það hefur verið reynt og reynslan af því er slæm. En það er ekki hægt að horfa upp á þetta miklu lengur. En spurningin er um það hvort líklegt sé að Alþingi eða ríkisvaldið geri betur með beinni lagalegri íhlutun. Um það eru menn ekki sannfærðir. A. m. k. má á það benda að við erum að mótmæla því hér, stjórnarandstæðingar, og stjórnarliðar eru í vaxandi mæli að taka undir það með okkur, við erum að mótmæla því að verkalýðshreyfingin hafi verið svipt samningsrétti. Við erum m.ö.o. að segja: Látið þið aðila vinnumarkaðarins semja um kaup og kjör um leið og vísitölukerfi er afnumið og aðstæður í þjóðfélaginu eru þannig að kjarasamningar snúast fyrst og fremst um tekjuskiptingu launþega innbyrðis og endurúthlutun á því. Við teldum alveg sjálfsagt að segja einmitt við þær kringumstæður: Nú er komið að því að verkalýðshreyfingin sem slík neyti réttar síns til frjálsra kjarasamninga til þess að stokka upp úrelt launakerfi, draga úr launamismun og sýna í verki að hún sé til þess bær og fær að rétta hlut láglaunafólksins í frjálsum kjarasamningum. Þetta er auðvitað sú leið sem ríkisstj. átti að fara. Þetta er sú leið sem við mælum með. Það er margt sem bendir til þess að þessari skoðun vaxi fylgi á þingi. Við vitum það ekki enn þá.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég mæli eindregið með því að þetta mál fái skjóta og góða afgreiðslu hér á þingi, því að það verðskuldar það. Aðeins að lokum örlítið á persónulegum nótum. Ég tók eftir því við fyrri umr. um þetta mál að hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir fór ákaflega hlýlegum orðum um hlut fyrrv. þm. Hannibals Valdimarssonar í baráttu fyrir jafnrétti kynja og jafnlaunum karla og kvenna. Hv. þm. vitnaði til þingræðu sem hér var flutt árið 1949 og baráttu hans fyrir þessum málum. Ef ég fer rétt með var það eitt með fyrstu þingmálum umrædds þm., till. hér á hv. Alþingi um launajöfnuð kynja. Nú, það kemur okkur Alþfl.-mönnum út af fyrir sig ekkert á óvart. Hv. þm. sagði að hér væri um að ræða mannréttindamál. Baráttan fyrir jöfnum launum og fyrir jafnri þjóðfélagsaðstöðu kynjanna er mannréttindamál.

Nú er það svo, ef við lítum ögn til baka yfir stjórnmálasöguna, að sá flokkur sem ég tala hér fyrir, Alþfl., flokkur íslenskra jafnaðarmanna, hefur verið eins konar mannréttindahreyfing í íslenskum stjórnmálum á sjöunda áratug. Öll stærstu mál þessa flokks hafa verið mannréttindamál í þessum skilningi, sem varðað hefur bæði kynin. Það hefur verið hlutskipti míns flokks að berjast fyrir sem brautryðjandi öllum stærstu mannréttindamálum sem komið hefur verið inn í löggjöf með þessari þjóð. Ég á t.d. við lagasetningu um takmörkun á vinnuþrælkun, ég á við lagasetningu sem skyldar atvinnurekendur til þess að greiða vinnuseljendum laun í peningum, ég á við mannréttindi eins og þau að fátækt fólk skuli eiga rétt til þess og hafa aðstöðu til þess af hálfu þjóðfélagsins að eignast þak yfir höfuðið, ég á við löggjöf um verkamannabústaði, ég á við afnám laga um mannréttindasviptingu fátæks fólks, afnám þeirra ákvæða að fólk missti kosningarrétt ef þannig var fyrir því komið að það þurfti að þiggja félagslega aðstoð, sem nú heyrir undir almannatryggingar, en þá varðaði við glæp.

Ég á við baráttu Alþfl. fyrir almannatryggingum sem er stærsta og þýðingarmesta umbótaaðgerð sem leidd hefur verið í lög á Íslandi sem mannréttindamál og varðaði að sjálfsögðu bæði kynin.

Ég á við baráttu Alþfl. áratugum saman innan verkalýðshreyfingarinnar um að rétta hlut kvenna á vinnumarkaðnum. Ég á við baráttu Alþfl. fyrir jöfnum launum, sömu launum karla og kvenna við sömu vinnu. Okkur kemur það því ekkert á óvart þó að hlýlega sé talað á góðum stundum um baráttu Alþfl. fyrir mannréttindum. En ég vil nota tækifærið til þess að vekja athygli á að Alþfl.-menn eru þeirrar skoðunar að sú mannréttindabarátta sé ekki kynbundin. Þessa mannréttindabaráttu á að heyja eins og við höfum háð hana, ekki undir merkjum „apartheids“ kynjanna, ekki út frá aðskilnaði kynja, ekki með þeim rökum að karlmenn hafi ekki áður lagt baráttu kvenna lið sem eins af hinum undirokuðu hópum í þjóðfélaginu. Ég er alveg sammála þeim sem segja: Lýður, bíð ei lausnarans — leys þig sjálfur. Ég er auðvitað að sjálfsögðu eindregið meðmæltur því að konur eigi sjálfar að heyja þessa baráttu, ekki aðeins að taka þátt í henni — heldur leiða hana. En þær gera það ekki undir merkjum aðskilnaðarstefnunnar, ekki undir merkjum „apartheids“. Ekki með því að kalla þá menn „karlrembusvín“ sem lengi hafa barist slíkri mannréttindabaráttu, nota jafnvel þetta orð, sem ég er alveg sannfærður um að yrði notað um þennan ágæta baráttumann fyrir jafnrétti kynja á vinnumarkaðnum, fyrir jöfnun launa karla og kvenna. Ég er sannfærður um það að hv. þm., sem vitnað var til þarna árið 1949, sem var baráttumaður fyrir jöfnum kjörum kynjanna, var dæmigert „karlrembusvín“ samkvæmt skilgreiningu kvennahreyfingar okkar daga á því hugtaki nú til dags. Ég held að það fari ekkert á milli mála. En jafnvel menn, sem þannig væri lýst í dag — ég held nú reyndar að það sé pólitískt merkingarlaust hugtak — hafa sýnt það í verki að þeir hafa getað lagt ýmislegt af mörkum í þessari mannréttindabaráttu, sem við ættum bæði að geta stutt.