16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6046 í B-deild Alþingistíðinda. (5438)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að koma með þá tillögu að afgreiðslu þessa máls verði frestað vegna þess að innan örfárra daga mundi þingheimi gefast tækifæri til að halda hátíðlega upp á ársafmæli þess. Þetta er mál sem var gefið út þann 27. maí 1983. Á grundvelli aðgerða, sem þarna eru sett lög um, hefur verið innheimt og útdeilt hundruðum milljóna kr. Ég er ekki með frumgögn í því máli en það gætu ábyggilega verið tæpar fimm hundruð milljónir sem búið er að vísa í hinar og þessar áttir í hina og þessa sjóði. Og af því að menn hafa verið að ræða í þessari hrotu ýmislegt um starfshætti þingsins finnst mér alveg afleitt og himinhrópanlegt að við skulum vera í þeirri aðstöðu að ræða og reyna að meta löngu gerða og löngu liðna hluti. Okkur hefur oft blöskrað í vetur en þetta er eiginlega málið sem fyllir mælinn.