16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6046 í B-deild Alþingistíðinda. (5439)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég varð var við það í umr. áðan að ýmsir alþm. þ. á m. hv. þm. Halldór Blöndal, hafi mikla samúð með því hvernig ástand væri hjá skreiðarverkendum þó að hann treysti sér ekki til þess að fylgja þeirri till. sem ég hér flutti né heldur öðrum þeim till., þ. e. till. hv. þm. Elsu Kristjánsdóttur, um að ekki yrði tekinn gengismunur á skreið. Hv. þm. Halldór Blöndal benti á í þessu sambandi að óvíst væri hvort inn kæmu þeir peningar sem um væri að ræða og hér væri hugmyndin að ráðstafa og nefndi einkum skreiðina í því sambandi. Með hliðsjón af þessum sjónarmiðum, bæði því að það virtist vera skilningur af hálfu a. m. k. þessa hv. þm. og væntanlega af hálfu fleiri á þeim vanda sem hér er við að etja, og svo eins út af þeim áhyggjum sem þar voru látnar í ljós um að ekki kæmu inn nægilega miklir peningar til þess að standa undir skuldbindingum, þá hef ég nú umorðað í huga mínum þær hugmyndir sem hér er um að ræða og vil flytja hér fyrir hönd mína og Elsu Kristjánsdóttur sérstaka till. sem tekur tillit til þessara sjónarmiða. Þetta er till. sem er skrifleg og ég mun afhenda forseta og hljómar þannig að aftan við 3. mgr. 3. gr. bætist setningin:

„Fari gengismunur af skreið fram úr 155 millj. kr. skal það sem umfram er greitt í skreiðardeild Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, enda hafi heildargengismunur af öllum sjávarafurðum skv. þessari gr. farið fram úr 555 millj. kr.“

Með þessu orðalagi er það sem sagt tryggt að þeir fjármunir, sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um að verði varið til ákveðinna þátta, hafi forgang. Eins og mönnum mun kunnugt tók ríkisstj. ákvörðun um að verja 552 millj. kr. til ýmissa hluta með ákvörðun 18. ágúst 1983. Ef þessi brtt. er samþykkt með þessum hætti er það öruggt að ríkisstj. getur gengið í þessa peninga allt upp í 555 millj. kr. svo lengi sem eitthvað er ógreitt af því. Það leggst ekki inn á reikning á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins fyrr en heildarupphæðin er líka komin yfir þessar 555 millj. og því þurfi ekki að óttast neitt um þá ákvörðun sem tekin var af hálfu ríkisstj .

Á hinn bóginn felst í þessu viðurkenning á vanda skreiðarverkenda þannig að þegar búið er að standa við allar skuldbindingar sem hafa verið ákveðnar og svo framarlega sem þá myndast afgangur af gengismun af skreið, sem er þá vegna þess að það fer fram úr þeim 155 millj. sem um var talað, þá renni það í Verðjöfnunarsjóð og á í skreiðardeild Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. g tel að með þessum hætti sé leitast við að taka tillit til allra þeirra sjónarmiða sem uppi hafa verið og taka fyllsta tillit til þeirra raka sem t. d. hv. þm. Halldór Blöndal færði fram í umr. áðan.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að afhenda þessa till. sem er hér skrifleg og flutt af þeim sem hér stendur og Elsu Kristjánsdóttur.