16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6048 í B-deild Alþingistíðinda. (5443)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er fyllilega tilefni til þess að rabba svolítið saman um sjávarútvegsmálin. Það hefur ekki verið gert svo mikið að því. Þetta er gamall kunningi sem hér liggur fyrir í augnablikinu, á ársafmæti um þessar mundir og rétt að fagna því með nokkrum kærleiksríkum orðum, en því miður er það varla hægt með hamingjuóskum.

Sannleikurinn er raunar sá að við höfum allt of mikið gert að því að beita brbl. Þetta er skrumskæling á þingræðinu, mismunandi alvarleg að vísu, en menn skyldu athuga það að það er eitt ár frá því að þessi brbl. voru sett og þar til þau koma nú til afgreiðslu. Þessi brbl. fjalla aðallega um það að breyta hlutaskiptum sjómanna og færa meira af aflanum til útgerðar og klípa að sama skapi af hlut sjómanna. Þetta er staðreynd.

Í öðru lagi er viðhaldið gífurlegum mun á verði til útgerðar annars vegar og til sjómanna hins vegar þegar seldur er afli erlendis. Sá aukamunur er í þessu frv. 9%, kostnaðarhlutdeildin var 29%. Það er rétt að aðrar smærri byrðar voru sameinaðar í eina stóra, olíusjóðinn, eins og menn þekkja, það þarf ekki að rekja það. En það er varla nokkur vafi á því að eins langt var gengið í þessu efni í fyrra fyrir ári eins og kostur var og sem hugsanlega getur talist sæmilegt.

Ég skal viðurkenna það og það gerum við öll að á vordögum á s. l. ári blöstu við miklir erfiðleikar í útgerð í landinu. Ég held að við höfum svo sannarlega öll verið sammála því því að það blasir við og var óvefengjanlegt og vanda útgerðarinnar varð að leysa að hluta til. Allir voru einnig sammála um það. En aðferðin, herra forseti, aðferðin er ævinlega sú sama. Hvergi er hægt að finna fjármagn þegar illa stendur í þessum atvinnuvegi annars staðar en hjá sjómönnum. Það er ekki vegna þess að menn hafi trúað því að sjómenn hafi verið svo vel staddir og í svo miklu aflögufærir að þangað væri hægt að leita eftir þeim fjármunum sem dygðu til þess að halda flotanum gangandi, en eitthvað þurfti til. Nú er í rauninni orðið of seint að rífast um orðinn hlut, það sem skeð hefur á undanförnu ári. Brbl. halda gildi sínu jafnvel þó þau séu ekki samþykkt, þau halda gildi sínu þangað til þau eru felld. Hér er því um liðna tíð og orðna hluti um að tala.

En ég segi það við þetta hátíðlega ársafmælistækifæri að næst þegar útgerðina vantar peninga til að sækja fisk í sjó — og það verðum við að gera með illu eða góðu — þá getum við ekki í eitt skiptið enn tekið þann hlut af sjómönnum. Það er alveg ljóst, lengra verður ekki gengið. Við stöndum á brúninni, við fáum engan mann til þess að sækja fiskinn fyrir minni hlut. Ég ætla að vona að hæstv. ríkisstj. geri sér fulla grein fyrir því.

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við fölum um gengismun af sjávarafurðum. Þetta er meira en árviss viðburður. Á sumum árum og stundum góðum þurftum við að fella gengið svo hratt að hæstv. hlutaðeigandi ráðh. mundi stundum ekki eftir því að hann þurfti að setja lög um gengismunarsjóð, eins og kunnugt er. Ég harma það að fyrrv. hæstv. sjútvrh. situr ekki hér í salnum. Ég hef varla geð í mér til þess að tala yfir þessum stað án þess að hann sé inni, einkum af þessu tilefni.

Ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. forseta hvort hann gæti ekki séð svo um að skap ræðumanns verði betra og raunar að orð hans falli í þann jarðveg, sem hann óskar helst nú á sáningartíma. (Forseti: Forseti mun gera tilraun til að ná í hæstv. forsrh.)

Ég get svo sem notað tækifærið á meðan eftirlitsmenn þessa virðulega húss leita Matthíasar Bjarnasonar, hv. heilbrrh., og nefna dálítið annað sem við töluðum um hér um daginn sem síst var til þess að létta undir með (Forseti: Ég gerði reka að því að fá hingað hæstv. forsrh. sem var sjútvrh. hér fyrr og tók það svo að hv. ræðumaður ætlaði að beina orðum sínum til hans. Nú er komið í ljós að það er hæstv. samgrh.) Já, hann er líka fyrrv. sjútvrh.Ég bið hv. alþm. afsökunar á þessari töf á ræðu minni og er ræðunni hér með haldið áfram. Þegar við vorum að fjalla um útflutningsgjaldið núna fyrir stuttu átti að bjarga útgerðinni eina ferðina enn og svo sannarlega ekki vanþörf á. En það var líka gert ég ætla að biðja menn að taka eftir því, hv. deild — með því að klípa af hlut sjómanna, þó með dálítilli hliðarleið væri, með því sem sagt að þá fjármuni, sem teknir voru af fiskverði í raun og veru af útflutningsgjöldum sjávarafurða, færðu menn til sem svaraði 4% af heildaraflaverðmæti ísl. flotans á þessu ári til útgerðar en ekki sjómanna. Ef menn hefðu á einhverju stigi getað sætt sig við það að útflutningsgjöldin yrðu minni sem næmi þessum 4% af aflaverðmæti þjóðarinnar, sem eru líklega um 230 millj. á þessu ári, þessi 4% ein, þá hefði verið hægt að hækka fiskverðið um sömu upphæð, sem þýðir að þarna er skiptahlutur sjómannsins látinn liggja á milli hluta en útgerðin fær það allt saman. Enn einu sinni var gengið á hlut sjómanna.

Þessi vandi, sem þá steðjaði að útgerðinni og mun steðja að trúi ég á þessu ári, verður ekki leystur með þessum klassíska máta lengur, það er ekkert af að taka. Það minnir okkur á að það, sem við einu sinni höfðum í huga með því að setja upp Verðjöfnunarsjóð, hefur ekki orðið að því gagni sem ætlast var til.

Það er ekki nokkur vafi á því að flestum mönnum, sem eitthvað hafa kynnst þessum málum, hlýtur að vera það ljóst að við þurfum Verðjöfnunarsjóð sem eitthvert gagn er að, virkilegan atvörusjóð. Til hans þarf að veita fjármagni, ekki aðeins úr atvinnuveginum sjálfum heldur einnig annars staðar frá. Sannleikurinn er sá að þó að margir í landinu tali um að ævinlega sé verið að setja fjármuni frá landsmönnum yfir til sjávarútvegsins þá er það blekking. Þeir fjármunir, sem hafa farið til sjávarútvegsins, hafa komið frá honum sjálfum. Þar hefur verið um millifærslur milli greina í sjávarútveginum sjálfum að ræða.

Ég sé að nú er hæstv. samgrh. og fyrrv. sjútvrh. kominn í salinn. Ég vil af þessu tilefni aðeins nefna það við hæstv. ráðh. að á meðan hann gegndi annarri stöðu á hinu háa Alþingi, þegar hann var einn af þessum óbreyttu þm. og ekki ráðh. og sat í stjórnarandstöðusætum í stað þess að sitja í hábökuðum útskornum kórónustólum, þá hafði hann dálítið aðra afstöðu til gengismunar en nú.

Á síðasta þingi — það er ekki lengra síðan — komu gengismunarmálin til umr. Þá lá einmitt fyrir frv. af sama tagi og brbl. þ. e. að taka gengismun af útfluttum sjávarafurðum, þ. á m. af útfluttum skreiðarafurðum. Ég er svo sem ekkert að álasa hæstv. ráðh. fyrir að hafa tekið þá afstöðu þá og kannske ekkert frekar að hann skuli taka aðra afstöðu nú, en ég vil aðeins minna á að það var hann, hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason, sem lagði sjálfur fram till. sem var eins og sú sem var verið að fella hér áðan. Hún_hljóðar svo, sem leyfi forseta:

„Útfluttar skreiðarafurðir skulu greiddar á því kaupgengi sem er í gildi þegar útflutningsskjöl eru afgreidd í banka við gjaldeyrisskil.“

Og í rökstuðningi sínum sagði hæstv. ráðh. m. a.: „Ég þarf í raun og veru ekki að bæta við þetta því að ég skýrði frá því hér í dag að ég teldi að sá gengishagnaður, sem reiknað væri með vegna skreiðarafurða, væri ekki fyrir hendi og ekkert útlit fyrir það að hann verði til í náinni framtíð. Ef skreið selst, sem slæmar horfur eru á, þurfa skreiðarframleiðendur fullkomlega á því að halda að afreikna á gildandi kaupgengi bankanna á hverjum tíma. Þess vegna er þessi till. flutt.“

Svo mörg voru þau orð og það var ekki aðeins þessi hæstv. ráðh., sem þá var óbreyttur þm., sem lagði þetta til, þeir hnykktu nú enn frekar á nafni ráðh. og hæstv. ráðh. sjálfur, Matthías Á. Mathiesen og lengst gekk að sjálfsögðu eins og venjulega hæstv. núv. fjmrh. Ég ætla nú ekki að lesa þann pistil. Hann bar þá ekki síður en nú umhyggju fyrir litla manninum.

Herra forseti. Við gætum auðvitað talað um þetta miklu lengur okkur til skemmtunar en ég vil ekki tefja tíma frá — (Gripið fram í. ) Ég vil ekki tefja tíma þingsins vegna þess að það liggur margt fyrir og ég vil reyna að greiða fyrir þingstörfum eins og mögulegt er.