16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6051 í B-deild Alþingistíðinda. (5451)

136. mál, hafnalög

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. um hafnalög hefur nefndin rætt á nokkrum fundum sínum og fengið til viðræðu Ólaf Steinar Valdimarsson ráðuneytisstjóra. Nefndin gerði þrjár brtt., eins og sést á þskj. 870.

Við 26. gr. er sú brtt. gerð að inn í greinina er bætt: hafnsögubáta.

Á 27. gr. var gerð breyting í Ed., en samgn. Nd. breytti greininni aftur í fyrra horf. Í 27. gr. segir: „Umsóknir um framlög úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda skulu sendar ráðuneytinu, sem leitar álits hafnaráðs og hafnamálastjóra.“ Svo var bætt inn: og sendir síðan tillögur sínar til fjvn., en Ed. bætti við að senda einnig til hlutaðeigandi hafnarstjórnar. Þessar beiðnir eru náttúrlega komnar frá þeirri nefnd.

Í 27. gr. er gert ráð fyrir að heimilt sé að láta framlag ríkissjóðs lækka til þeirra hafna þar sem hafnarsjóðir standa það vel að þeir eru taldir geta borið hærri greiðslur en lögin heimila hæst að veita. Af þessum ástæðum taldi samgn. Nd. rétt að setja nýja grein sem komi á eftir 27. gr. og verði 28. gr. og orðist svo:

„Heimilt er að gera sérstakar ráðstafanir til að létta greiðslubyrði þeirra hafnarsjóða sem ekki hafa nægar tekjur til að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum. Við fjárlagagerð hvers árs skal samgrn. gera Alþingi sérstaka grein fyrir fjárþörf í þessu efni. Ráðh. skal gera tillögu til fjvn. og Alþingis um skiptingu fjárins og skal við skiptinguna hafa hliðsjón af tekjum og gjöldum hafnarsjóðs, framlagi sveitarfélags til hafnarsjóðs, fólksfjölda og öðrum þeim atriðum sem hafa áhrif á greiðslugetu hafnarsjóðsins.“

Það hefur komið stundum í ljós að tekjur hafna geta breyst skyndilega eins og kom fyrir þegar loðnubresturinn varð. Hafnirnar töpuðu þá sumar hverjar upp í á milli 40 og 50% af áætluðum tekjum. Ef dregið hefur úr tekjum vegna þess að menn hafa gert ráð fyrir meiri tekjum en reynast er eðlilegt og sjálfsagt að þessi heimild sé inni í lögum.

Samgn. varð sammála um að leggja til að frv. yrði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef þegar lýst.