16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6055 í B-deild Alþingistíðinda. (5470)

55. mál, tollheimta og tolleftirlit

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 900 frá fjh.- og viðskn. Nd. Hér er á ferðinni breyt. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit. Frv., sem er afgreitt frá Ed., lá fyrir síðasta þingi, en í Ed. var gerð lítils háttar breyting á frv. við 2. gr. Bættist við tollhafnaskrána Selfoss. Að öðru leyti mælum við nm. með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Þess ber að geta að í nefndinni var það rætt ítarlega hvort hægt væri að greiða aðflutningsgjöld annars staðar en þar sem innflutningshöfn er, en eftir viðtöl við tollstjórann í Reykjavík og tollgæslustjóra var horfið frá því ráði, enda má gera ráð fyrir því að þegar frv. til l. um breyting á tollskrá er komið fram séu þar ákvæði þessa efnis, og verður þá væntanlega skilið á milli annars vegar innflutnings og greiðslu til kaupanda og hins vegar greiðslu á tolli til ríkissjóðs, eins og gerist víðast í nágrannalöndunum.

Undir þetta nál. skrifa allir hv. nm. í fjh.- og viðskn. Nd.