16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6056 í B-deild Alþingistíðinda. (5473)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. meiri hl. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Iðnn. Nd. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það var lagt fram á þskj. 652 og hefur reyndar farið þannig í gegnum hv. Ed.

Undir þetta nál. rita auk mín: Gunnar G. Schram, Friðrik Sophusson, Páll Pétursson með fyrirvara og Ingvar Gíslason með fyrirvara.

Þetta frv. felur í sér að ríkisstj. fær lagaheimild til að gera þær ráðstafanir til endurskipulagningar á fjárhag Íslenska járnblendifélagsins hf. að Grundartanga sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að ganga frá samningum við Elkem í Noregi og Sumitomo Corporation í Japan um þátttöku hins japanska fyrirtækis sem samstarfsaðila ríkisins í félaginu við hlið Elkem. Það er meginmarkmið með samstarfsaðild Sumitomo og þeim ráðstöfunum sem henni eru tengdar að styrkja markaðs- og fjárhagsstöðu járnblendifélagsins til varanlegrar frambúðar.

Með þessu frv. fylgdi mjög ítarleg grg. og hæstv. iðnrh. gerði ítarlega grein fyrir þessu máli hér fyrir stuttu í deildinni. Ég sé því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið.