16.05.1984
Neðri deild: 95. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6077 í B-deild Alþingistíðinda. (5492)

221. mál, jarðalög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á jarðalögum.

Í frv. er lagt til að landnámsstjórn og Landnám ríkisins verði lögð niður og verk og viðfangsefni þess falin öðrum aðilum eða felld alveg niður. Tilgangurinn með þessum breytingum er tvíþættur: í fyrsta lagi að einfalda stjórnkerfi landbúnaðarins og koma í veg fyrir óþarfa skörun á hlutverkum stofnana ríkisins og/eða landbúnaðarins og í öðru lagi að draga úr kostnaði við opinbera stjórnsýslu. Í meginatriðum er gert ráð fyrir að verkefni varðandi stofnun býla, félagsbúa, endurbygginga jarða, jarðaskrá og umsjón jarða Landnáms ríkisins flytjist til landbrn. og að þeim verði búinn lagagrundvöllur í jarðalögum. Er það gert í þessu frv. sem hér liggur fyrir.

Jafnframt er hér lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæða jarðalaga í ljósi fenginnar reynslu og til samræmis við breytingar á annarri löggjöf frá 1976.

Landnám ríkisins hefur annast stjórnsýslu og rekstur þriggja af fjórum graskögglaverksmiðjum í eigu ríkisins en sú fjórða er rekin sjálfstætt. Í undirbúningi er frv. til laga um graskögglaverksmiðjurnar, sem áformað er að leggja fyrir Alþingi á komandi hausti, en þangað til það nær fram að ganga verða þær reknar á grundvelli gildandi ákvæða í lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins o. fl. að öðru leyti en því, sem segir í 13. gr. frv., að landbrn. taki við verkefnum Landnáms ríkisins og landnámsstjórnar.

Skv. 10. gr. frv. er lagt til að nýr kafli komi inn í jarðalögin um viðurkenningu á nýjum býlum, félagsbúum og jarðaskrá og koma ákvæði hans í stað sambærilegra ákvæða í lögum nr. 45/1971.

Þetta frv. hefur verið afgreitt frá hv. Ed. og var þar ítarlega skoðað og gerðar nokkrar breytingar á frv. eftir að leitað hafði verið umsagna Búnaðarþings og fleiri aðila, og þar sem fyrir liggur í þingtíðindum framsöguræða sú sem ég flutti við 1. umr. málsins þar vil ég vísa til hennar að öðru leyti, en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.