09.11.1983
Neðri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

70. mál, tóbaksvarnir

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég ætla að lýsa eindreginni andstöðu minni við margt í þessu frv. og lýsa yfir undrun minni á því að jafnskemmtilegur og lífsglaður maður og hæstv. heilbr.- og trmrh. skuli geta talað fyrir þessu máli hér án þess að stökkva bros.

Ég held að við verðum að fara að spyrja okkur á hinu háa Alþingi Íslendinga: Til hvers eru lög? Eru þau til þess að fólki líði betur eða eru þau til þess að fólki liði verr? Ég skal fúslega viðurkenna og fallast á að tóbaksnotkun sé óæskileg ef það er læknisfræðilega sannað að hún sé hættuleg, sem ég dreg raunar í efa, en mér finnst það ekki ólíklegt að reykingar séu ekki meinhollar. En það er voðalega margt annað sem er ósköp óhollt í þessu lífi. Það er áreiðanlegt að ekkert er óhollara en óhamingjan. Og að leggja þau bönd á atferli manna eins og þetta, að menn megi ekki lengur fá sér sígarettu, sem geti ekki neytt áfengis nema farið sé næstum því með leynd í þrjár verslanir í bænum, ég trúi ekki að þetta auki lífslíkur eða lífshamingju manna.

Ég get fallist á ákveðin atriði í þessu frv., svo sem eins og fræðslu um þá hættu sem talin er stafa af tóbaki, þannig að hver einasta manneskja sem kýs að taka upp reykingar viti að hverju hún gengur. Sama ætti auðvitað að gilda um, og er margsamþykkt hér á hinu háa Alþingi, að haldið sé uppi fræðslu um þá hættu sem kann að stafa af áfengi sé þess neytt í óhófi. En ákvæði eins og hér eru lögð til finnst mér satt að segja undrunarefni meira en nokkurt annað. Og ég ætla að leyfa mér að taka nokkur dæmi.

Hér segir í 10. gr.

„Tóbaksnotkun er óheimil: 1. Í grunnskólum, dagvistum barna og húsakynnum, sem eru fyrst og fremst ætluð börnum og unglingum yngri en 16 ára til félags- og tómstundastarfs.“

Þýðir þetta að barnakennurum, fóstrum, fólki sem vinnur með unglingum sé óheimilt að kveikja sér í sígarettu jafnvel heilan starfsdag? Hvernig ætla menn að framkvæma þetta? Á þetta vesalings starfsfólk, hafi það nú verið svo ólukkulegt að byrja að reykja sígarettur eða neyta tóbaks yfirleitt, að híma undir húsvegg eins og sakamenn? Þýðir þetta í raun og veru að fólk má t.d. ekki kveikja sér í sígarettu inni á sinni kaffistofu innan þessarar stofnunar? Ég hlýt að spyrja: Er þetta raunhæft?

Svo segir hér í 9. gr., með leyfi forseta: „Tóbaksnotkun er óheimil í þeim hlutum af húsnæði stofnana, fyrirtækja og annarra, þar sem almenningi er ætlaður aðgangur í sambandi við afgreiðslu eða þjónustu, sem þessir aðilar veita.“ — Þetta er eiginlega bara lesið til gamans:

„Þetta gildir þó ekki um veitinga- og skemmtistaði.“ Það ber svo sannarlega að þakka, hæstv. heilbrrh. Ég er hrædd um að það kæmu ekki margir á þá veitinga- og skemmtistaði sem svo væri komið fyrir.

Svo segir hér ennfremur í 10. gr.:

„2. Á opinberum samkomum innanhúss fyrir börn eða unglinga, hafi börn innan 16 ára aldurs aðgang að þeim.“ Þetta hlýtur þá að eiga við starfsfólk líka skilst mér.

— Og í sambandi við skóla. Skólamenn vinna t.d. mikið með foreldrum og haldnir eru foreldrafundir, sem standa oft heilt kvöld. Þýðir þetta heimildarleysi fyrir tóbaksnotkun líka að foreldrar barnanna mega ekki fá sér sígarettu með kaffinu sínu þegar þeir eru að ræða við kennara, eins og auðvitað er algengt í hverjum einasta skóla? Ég verð að segja alveg hreinskilnislega að ég sé ekki hvernig þetta skuli framkvæmt.

Hér er í 13. gr. — ég man ekki að lesa það orðrétta — að um að draga mjög úr heimild til reykinga í flugvélum, meira en orðið er. Enn þá veit ég ekki annað en áfengi sé óspart selt í flugvélum. Er í raun og veru raunhæft að setja lög sem þessi um reykingar? Ég hygg að margir farþegar verði fyrir ónæði — ekki síst stjórnmálamenn! — af drukknu fólki sem þarf mjög að tala við það í flugvélum. Ég held að þeir verði fyrir miklu minna ónæði af fólki sem situr þar í rólegheitum og reykir sígarettuna sína.

Í 20. gr. finnst mér taka steininn úr. Þar er talað um að það varði sektum ef maður heldur áfram að reykja í húsakynnum þar sem það er bannað og jafnframt í almenningsfarartækjum. Svo segir hér, með leyfi forseta:

„Sömu aðilar“ — þ.e. þeir sem bannað hafa notkun tóbaks – „geta, með aðstoð lögreglu ef með þarf, vísað hinum brotlega úr farartækinu eða húsakynnum láti hann ekki segjast.“

Finnst engum dálitið broslegt að sjá einhvern vesalings samborgara okkar fyrir sér með hálfreykta sígarettu fluttan undir lögregluvernd úr opinberri stofnun? Og hvað ætla menn að gera í flugvélinni?

Hæstv. heilbr.- og trmrh. þetta verður erfitt. Ég sé að hann er farinn að brosa. Ég trúði heldur ekki öðru. Ég skal nú ekki vera að skemmta þm. með upplestri úr frv. Þetta minnir mig ef nokkuð er, á frv. sem ég las upp á síðasta þingi, en það var frv. um dýralækna, og er sjaldgæft að menn hafi slíkt gaman af lestri frv.

En ég skal tala um þetta í nokkurri alvöru og lýsa yfir stuðningi mínum við það sem hér segir um aukna fræðslu um tóbak og notkun þess, en ég vil minna menn á að þegar menn mega ekki reykja lengur fara þeir e.t.v. að borða enn þá meira en nú er gert af alls kyns róandi töflum og þá þyrfti náttúrlega að setja lög um það líka. (Gripið fram í: Það á nú ekki við alla.) Auðvitað er sjálfsagt að halda uppi fræðslu um meinta skaðsemi tóbaks, en hún er — eins og önnur mannanna sannindi — kannske ekki alveg algild. Margar lærðar greinar hefur mátt lesa um að menn hafi kannske einblínt einhliða um of á tóbaksnotkun. Hún er samtvinnuð ýmsu öðru í almennri neyslu manna. En ég skal ekki láta uppi neinar skoðanir á því, á því hef ég ekkert vit.

Ég vil mælast til þess, að sú nefnd sem fær þetta frv. til umfjöllunar skoði vandlega hvað af þessu er hægt að framkvæma án þess að hálf þjóðin verði vitlaus.