17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6080 í B-deild Alþingistíðinda. (5505)

380. mál, utanríkismál

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Það er orðin venja að efna á hverju þingi til almennrar umræðu um utanríkis- og alþjóðamál á grundvelli skýrslu sem utanrrh. leggur fyrir þingið. Ég tel að þetta sé góður siður. Ég hef nú fyrir u. þ. b. tveimur vikum lagt fram slíka skýrslu af minni hálfu á þskj. 744. Henni fylgir að venju sérstök yfirlitsskýrsla um þátttöku Íslands í 38. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem stóð um þriggja mánaða skeið í lok s. l. árs. Þessar skýrslur þurfa þó að leggjast fram fyrr svo að ítarlegar umr. geti um þær tekist. Utanríkismálin og það sem gerist í kringum okkur skiptir svo miklu máli fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og líf hennar að það er ekki aðeins góður siður heldur bein nauðsyn að Alþingi gefi sér tóm til að huga vandlega að þeim málum. Raunar hafa umr. átt sér stað á yfirstandandi þingi um utanríkismál og ýmis þau mál er þau snerta, en engu að síður væri æskilegt að þessar umr. færu fram fyrr á þingtímanum og mun ég stuðla að því ef ég verð í þeirri aðstöðu.

Þegar yfirlitsskýrslur um utanríkismál voru fyrst gefnar tíðkaðist að ráðh. flytti þær í heild við upphaf umræðu. Þetta hefur nú verið aflagt og mun ég því síður taka það upp að nýju sem skýrsla mín er nokkru lengri en áður hefur jafnvel tíðkast. Ég mun láta nægja að víkja að nokkrum meginatriðum og geta um ýmsa þætti í þróun mála eftir að skýrslan var samin, því að ekki er nóg með að rétt sé það sem Galilei sagði á 17. öld og geimvísindi nútímans hafa sýnt okkur enn betur að jörðin snýst, heldur breytist líka margt sem á henni hrærist, stundum býsna hratt, og mál taka sífellt á sig nýjar myndir.

Þess var að sjálfsögðu enginn kostur í skýrslunni, þótt lengri sé en áður, né í máli mínu nú að gera skil öllu því sem í hugann kemur þegar utanríkismál og staða heimsmála er skoðuð. En umræðan um skýrstuna gefur tækifæri til að vekja máls á og ræða nánar hvað eina á þessu sviði sem þm. þykir eiga erindi inn í þingsal.

Eins og stundum áður setja stirð samskipti risaveldanna neikvæðan svip á heimsmálin, einkum stöðu vígbúnaðarmálanna sem öllum ber saman um að þurfi að taka þveröfuga stefnu við það sem nú er. Jafnvirði um 800 milljarða dollara er varið til hermála í heiminum á ári hverju. Hundruð milljóna manna búa á sama tíma við mjög krappan kost eða svelta heilu hungri. Þó er einmitt talið að hinar fátæku þjóðir standi beint að fjórðungi þeirrar eyðslu sem fer til vígbúnaðar, eða um 200 milljörðum dollara.

Í fyrstu köflum skýrslunnar er vikið nánar að þessu ástandi og þeirri ógn og yfirgangi einræðis- og kúgunarafla sem því veldur. Þær aðstæður sem nú ríkja í vígbúnaðarmálunum eru að flestra áliti þannig að aldrei hefur verið brýnna að sest væri að samningaborði. Svo standa hins vegar mál og hafa gert nú um misseris skeið að annað risaveldanna, Sovétríkin, harðneitar að ræða málin nema einhliða skilyrði þeirra sé fullnægt áður, þ. e. að eldflaugar, sem vestræn ríki eru að koma upp til mótvægis við hinar kunnu SS-20 eldflaugar Sovétmanna, verði allar teknar niður áður en viðræður hefjast á ný. Það er auðvitað tilgangur viðræðna um vígbúnaðartakmarkanir að ná samkomulagi um gagnkvæma fækkun kjarnorkuflauga eins og annarra vopna. Hvorugum aðilanum þýðir að vænta þess að geta með skilyrðum af þessu tagi skapað sér forskot áður en sest er að samningagerð.

Vestræn ríki hafa þó sýnt hug sinn í þessu efni með því að ákveða samhliða uppsetningu hinna nýju kjarnorkuflauga að fækka um 2400 þeim kjarnorkusprengjum sem fyrir voru í Evrópu. Þetta þýðir verulega fækkun kjarnorkuvopna Vesturveldanna í Evrópu þrátt fyrir uppsetningu stýri- og Pershing-eldflauga Bandaríkjamanna. Tekin verða úr umferð fimmfalt fleiri kjarnorkuvopn en sett verða upp og hér er um einhliða fækkun að ræða án þess að nokkuð komi á móti af hálfu gagnaðila.

Mikil mótmæli hafa verið látin í ljós gegn uppsetningu eldflauga í vestrænum ríkjum. Slík mótmæli eru skiljanleg og gegna út af fyrir sig engri furðu. Hitt er óskiljanlegt að friðarhreyfingar og fjölmiðlar sváfu á verðinum og létu sig engu skipta þegar Sovétmenn settu áður niður á fjórða hundrað SS–20 eldflaugar, hverja þeirra með þrem kjarnaoddum sem unnt var að miða á jafn marga staði á Vesturlöndum.

Enn er eins og sumu vafalaust vel meinandi fólki sé um megn að taka undir kröfu og tilboð Atlantshafsbandalagsríkja að allar meðaldrægar eldflaugar séu fjarlægðar en láta sér nægja þess í stað að nema staðar a. m. k. um sinn við óbreytt ástand ógnar, sem af jafnvægisleysi og kjarnorkuvopnum stafar.

Slökunarstefnan, sem m. a. leiddi til Helsinkisamþykktarinnar 1975, gaf fyrirheit um bætta sambúð í álfunni og milli risaveldanna. Ýmsar vanefndir samþykktarinnar, bæði vegna áframhaldandi vígbúnaðar Sovétmanna og mannréttindaskerðingar, vörpuðu þó skugga á þróunina. Innrásin í Afghanistan og íhlutun Sovétríkjanna í Póllandi urðu svo til þess að greiða slökunarstefnunni högg sem hún hefur ekki náð sér eftir enn þá. Vonir um að leiðtogaskipti tvívegis í Sovétríkjunum sköpuðu ný viðhorf hafa ekki ræst. Nýjasta dæmið er hvernig Sovétríkin hafa búið sér til málamyndaástæður til að hafna þátttöku í Olympíuleikunum í Los Angeles af því að Bandaríkjamenn sáu sér ekki fært að sækja Olympíuleikana í Moskvu í kjölfar innrásarinnar Í Afghanistan. Tillögur, sem Sovétríkin lögðu formlega fram á Stokkhólmsráðstefnunni nú 8. þessa mánaðar þegar hún kom saman að nýju, fela ekki, að mati íslensku fulltrúanna á ráðstefnunni, í sér neitt efnislega nýtt og enga breytingu frá þeirri afstöðu sem Sovétríkin höfðu áður lýst þar í ræðuflutningi. Horfur í málefnum austurs og vesturs eru því ekki bjartar og ekki er hægt að spá um hvenær rofa muni til. Þrátt fyrir miður góðar horfur í afvopnunarmálum um þessar mundir má einskis láta ófreistað að ná árangri í þeim efnum, bæði á sviði kjarnorkuvopnabúnaðar og hefðbundins vígbúnaðar.

Einhliða athygli og andstaða gegn kjarnorkuvopnum og þeirri gereyðingarvá sem þeim er samfara er allra góðra gjalda verð en kann að koma þeirri skoðun inn hjá valdhöfum og fólki almennt að hefja megi átök og beita valdi, það sé a. m. k. tiltölulega saklaust ef einungis sé gripið til hefðbundins vígbúnaðar. En mjótt er á munum milli kjarnorku- og hefðbundins vígbúnaðar í kjölfar tækniþróunar og ólýsanlegar eru þær hörmungar sem hlotist geta af hvorum þeirra sem er. Sköpum skiptir því að komið verði í veg fyrir stríð og öll vopnuð átök. Íslendingar hljóta að leggja sitt litla lóð á þá vogarskál að svo megi takast.

Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um nokkur þeirra svæða þar sem alvarlegast ástand hefur ríkt utan Evrópu. Í Líbanon hefur nú tekist að koma á samsteypustjórn en friði hefur enn ekki tekist að koma þar á. Styrjöld Íraks og Írans heldur áfram og meðan svo stendur er m. a. framtíð olíuflutninga frá Persaflóa ótrygg. Síðustu fregnir um árásir á olíuskip og hækkað olíuverð á Rotterdammarkaði í kjölfarið sýna okkur fram á að átök og stríð, þótt fjarlæg kunni að vera okkur Íslendingum, geta engu að síður haft atvarleg áhrif á okkar hag.

Í El Salvador hefur nú farið fram síðari umferð forsetakosninga og standa vonir til að umbótastarfi í landinu vaxi fiskur um hrygg í kjölfar þeirra þótt áfram ríki óvissa. Alþjóðadómstóllinn hefur tekið afstöðu gegn tundurduflalagningu úti fyrir höfnum Nicaragua sem átt hafði sér stað með stuðningi Bandaríkjamanna en þeir hafa lýst yfir að sé hætt og á enda engan rétt á sér.

Bæði í Austurlöndum nær og Mið-Ameríku eru ágreiningsmálin svo erfið viðfangs að þess er ekki að vænta að varanlegar lausnir fáist í næstu framtíð. Sáttfýsi og friðarvilji þarf að vaxa í þessum heimshlutum sem öðrum og í Mið- og Suður-Ameríku þarf að eiga sér stað réttlátari skipting þjóðarauðs og efling mannréttinda og lýðræðis.

Í Afríku er kynþáttaaðskilnaðarstefna Suður-Afríkustjórnar enn áberandi blettur sem verður að hverfa. Í Nígeríu, því mikilvæga viðskiptalandi okkar, er í kjötfar stjórnarbyltingar leitast við að aflétta margs kyns fjármálaspillingu og næst þar vonandi árangur. Á þurrkasvæðunum um miðbik álfunnar ríkir ein mesta neyð sem nú þekkist og þarf hjálparstarf þar að eflast mjög á næstu árum.

Í Asíu hefur verið lagður grundvöllur að nánari efnahags- og viðskiptasamvinnu hins öfluga iðnríkis Japans og fjölmennasta ríkis veraldar, Kína. Vaxandi samskipti og samvinna Kína við Vesturlönd undanfarinn áratug hefur einnig sett svip á þróunina. Lítið lát er á stríðsástandi í Indó-Kína, Víetnamar búa enn við ofbeldisstjórn sem fer með hernaði að nágrönnum sínum í Kampútseu.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa Norðurlönd beitt sér fyrir því að samtökunum verði gert betur kleift en áður að hindra vopnuð átök. Svo vikið sé aftur að þróuninni í Evrópu skiptir þar mestu að friður hefur verið varðveittur í álfunni allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, nú í nær 40 ár. Vestræn ríki hafa tryggt frelsi og lýðræði í löndum sínum. Þessi staðreynd, þessi árangur, er enn merkari þegar haft er í huga að á sama tímabiti hafa um 105 stríð og meiri háttar átök verið háð í 66 löndum og að því er talið er 16 milljónir manna látið í þeim lífið. Friður og frelsi Vesturlanda er að þakka því öfluga friðar- og varnarsamstarfi sem mörg þeirra hafa staðið að innan vébanda Atlantshafsbandalagsins.

Meðan ekki næst samkomulag allra aðila um niðurskurð herbúnaðar undir öruggu eftirliti, þannig að jafnvægi raskist ekki, er óhjákvæmilegt fyrir þær þjóðir, sem njóta vilja frelsis og lýðræðis, að halda vöku sinni, sýna fulla árvekni. Er þetta eitt af grundvallaratriðum utanríkisstefnu okkar.

Um leið og við Íslendingar leggjum viðleitninni til afvopnunar allt það lið sem við getum megum við ekki glata raunsæinu. Í þeim ótrygga heimi sem við búum í verðum við að standa dyggan vörð um það sjálfstæði sem þjóðin þráði svo lengi og uppskar að lokum. Í samræmi við það raunsæi, sem ég tel að móta verði stefnu Íslands í utanríkis- og varnarmálum ef þjóðinni á að farnast vel við þær aðstæður sem nú ríkja, hef ég síðan ég tók við núverandi starfi lagt sérstaka áherslu á varnar- og öryggismálin. Er í 4. kafla skýrslunnar gerð ítarleg grein fyrir veigamestu atriðum þeirra.

Varnarsamstarfið við Bandaríkin, sem staðið hefur síðan 1951, hefur gefist vel. Ég tel engu að síður að við eigum að leggja kapp á að geta sjálfir metið sem best varnarþarfir landsins og að við eigum sjálfir að taka virkan þátt í því eftirliti sem nauðsynlegt er með óboðuðum ferðum í grennd við landið. Í skýrslunni er greint frá byggingu olíugeyma og flugskýla og ráðgerðri endurnýjun flugvélakosts á næsta ári.

Þá er rétt í þessu sambandi að minnast á skýrslu um verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli sem ég hef lagt fram í tilefni fyrirspurna þm. Alþfl. og BJ. Vonast ég til að hún skýri sig að mestu leyti sjálf.

Bygging nýrrar flugstöðvar í Keflavík er hafin sem kunnugt er og mun hún m. a. skapa skilyrði til aðskilnaðar varnarstarfseminnar og hins almenna farþegaflugs. Þá er einnig rétt að víkja sérstaklega að því að til athugunar er að endurreisa radarstöðvar á Norðvestur- og Norðausturlandi og mættu íslenskir fulltrúar s. l. þriðjudag á fundi hermálanefndar Atlantshafsbandalagsins í Brüssel þar sem fjallað var um það mál. Voru þeir áheyrnarfulltrúar eins og Frakkar. Íslendingar hafa ekki tekið þátt í störfum hermálanefndarinnar frá því á upphafsárum bandalagsins. Í ræðu, sem Þórður Einarsson varafastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu flutti í upphafi fundar hermálanefndarinnar, vísaði hann til kaflans um varnar- og öryggismál í skýrslu minni um utanríkismál og gat um þá athugun sem þar væri boðuð á virkari þátttöku Íslendinga við mótun og framkvæmd varnarstefnunnar og bæri að líta á setu Íslendinga á þessum fundi, er fjallaði sérstaklega um mál er snertu Ísland, sem lið í þeirri athugun.

Í hermálanefndinni sitja fulltrúar herja aðildarlanda NATO. Þar er rætt um sameiginlega varnarstefnu og framkvæmd hennar. Á vettvangi nefndarinnar er einnig tekin afstaða til framkvæmda sem fjármagnaðar eru úr mannvirkjasjóði í NATO, svo sem olíustöðin í Helguvík og flugskýli fyrir orrustuþotur varnarliðsins. Þá skal getið að yfirhershöfðingjar NATO-ríkjanna og yfirmenn þriggja herstjórna bandalagsins hittast reglulega tvisvar á ári í hermálanefndinni og var það slíkur fundur sem haldinn var á þriðjudag. Á miðvikudag og í dag 16. og 17. maí hittast varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsríkjanna í Brüssel og situr Henrik Sv. Björnsson, sendiherra og fastafulltrúi hjá Atlantshafsbandalaginu, fundi þeirra eins og tíðkast hefur. Þegar Frakkar ákváðu að hætta þátttöku í sameiginlegu varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins 1966 var sú skipan tekin upp að fastafulltrúar í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins hittast til að ræða varnarmál sérstaklega í svokallaðri varnaráætlananefnd og á sendiherra Íslands sæti í þeirri nefnd eins og í fastaráðinu sjálfu.

Herra forseti. Engri þjóð er ógnað með þeim viðbúnaði til eftirlits og varna sem hér er. Hann samræmist einnig í alla staði stofnskrá Sameinuðu þjóðanna sem áskilur öllum ríkjum rétt til sjálfsvarnar einu sér eða með öðrum ríkjum. Það er stefna ríkisstj. að varnirnar hér á landi verði áfram þessa sama eðlis og þær hafa verið frá upphafi en fylgst verði með tímanum hvað allan tækjabúnað snertir. Það er stefna ríkisstj. að vinna innan Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna og annarra fjölþjóðasamtaka að friði, gagnkvæmri afvopnun og öruggu eftirliti, frelsi þjóða og lýðræði, mannúð og mannréttindum. Við munum halda áfram að styðja raunhæfa viðleitni til afvopnunar og gerðumst á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna m. a. meðflytjendur að till. um könnun á vígbúnaðarkapphlaupinu á úthöfunum sem var samþykkt.

Ef við viljum ekki eiga á hættu að reka stjórnlaust í straumróti alþjóðamála, viljum stjórna okkar málum og ráða einhverju um okkar örlög, hljótum við að taka virkari þátt en hingað til í þeim fjölþjóðasamtökum sem við teljumst til.

Þróun hafréttarmála er einmitt dæmi um heillavænleg áhrif virkrar þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi. Af hafréttarmálunum í 5. kafla skýrslunnar vil ég sérstaklega nefna að markvísar aðgerðir hafa átt sér stað til að tryggja hafsbotnsréttindi utan efnahagslögsögunnar og verður unnið að því áfram. Afmörkun hafsbotnsréttinda okkar á Reykjaneshrygg og Rockall-svæðinu er í lokavinnslu í einstaka atriðum í samráði við ráðunauta okkar í þeim málum og samhliða hefur nágrannaríkjum okkar verið gerð grein fyrir rétti okkar og boðið fram samráð og samvinna í samráðum við ályktanir Alþingis.

Vegna ástands fiskstofna og þarfa okkar sjálfra hefur dregið úr veiðum Færeyinga og Norðmanna hér við land og er miðað við að veiðar þeirra síðarnefndu verði algjörlega bundnar gagnkvæmt. Vegna krafna Efnahagsbandalags Evrópu um hlutdeild í loðnustofninum hafa undanfarin ár átt sér stað þríhliða viðræður, Íslands, Noregs og bandalagsins um skiptingu þeirra veiða. Efnahagsbandalagið hefur þarna komið fram af hálfu Grænlands sem telst aðili bandalagsins til næstu áramóta eins og kunnugt er. Nýjustu viðræðurnar fóru fram í Bergen í s. l. viku og leiddu ekki til niðurstöðu, enda hefur Efnahagsbandalagið gert mun hærri kröfur en við teljum réttmætar og Norðmenn tregir til að minnka sinn hlut.

Innan Efnahagsbandalagsins hefur að undanförnu gætt nokkurs misskilnings að því er varðar forsendur viðskiptasamnings Íslands og bandalagsins frá 1972. Þar var eins og kunnugt er samið um gagnkvæmar tollaívilnanir fyrir iðnaðarvörur frá bandalaginu hér og í staðinn fiskafurðir héðan á markaði bandalagsins. Með þeim hætti náðist það jafnvægi sem gerði samninginn mögulegan og hagkvæman báðum aðilum. Nú hafa heyrst frá Efnahagsbandataginu raddir um að fiskveiðiréttindi hér við land þurfi að koma í staðinn fyrir tollahlunnindin sem við njótum skv. samningnum fyrir sjávarafurðir.

Lagt hefur verið kapp á að eyða þessari rangtúlkun. Um málefni er snerta Grænland er sérstakleg fjallað í kaflanum um Norðurlandasamvinnu í 3. hluta skýrslunnar en þau hafa verið til umræðu á Alþingi nú eftir síðustu áramót.

Að því er varðar þróunarsamvinnu, sem gerð er grein fyrir í 6. kafla, vil ég fagna því að tekist hefur að auka lítið eitt á s. l. ári og þessu það hlutfall þjóðarframleiðslu sem varið er til þróunaraðstoðar en það er þó langt undir því marki sem S. Þ. hafa sett aðildarríkjum sínum.

Einnig er nú að hefjast mjög áhugaverður áfangi þróunarsamvinnunnar við Grænhöfðamenn á sviði fiskveiða með tilkomu skipsins Fengs sem er sérhannað til þróunarverkefna.

Utanríkisviðskiptum okkar eru gerð skil í yfirliti sem viðskrn. hefur lagt til og birt er sem 7. kafli skýrslunnar. Í lokakafla skýrslunnar er svo fjallað stuttlega um utanríkisþjónustuna. Hún hefur á liðnum árum fengið ótrúlega miklu áorkað og kostnaður við hana verið í lágmarki. En ég er þeirrar skoðunar að öllu lengur verði ekki undan því vikist að efla hana, m. a. með stofnun nýrra sendiráða og með öflugri útrás til að styrkja stöðu Íslands meðal þjóða, til að efla útflutningsatvinnuvegi okkar, ferðaþjónustu og menningarlíf. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að nefna hér sérstaklega þá miklu og góðu landkynningu sem hlotist hefur af opinberum heimsóknum forseta Íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur, erlendis. Ég tel að forsetinn hafi með ferðum sínum unnið landi og þjóð ómetanlegt gagn.

Að lokum vil ég geta þess að samstarf við fulltrúa þingflokkanna í utanríkismálanefnd hefur verið með ágætum og hef ég fyrir mitt leyti reynt að stuðla að því að n. mætti sem best fylgjast með gangi mála og gegna sínu mikilvæga hlutverki. Vil ég þakka n. hina góðu samvinnu.