17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6104 í B-deild Alþingistíðinda. (5508)

380. mál, utanríkismál

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að rétt er að ræða utanríkismálin á öðrum tíma þings en á síðustu dögum þegar tími er lítill. Ég tel að þessu eigi að breyta í náinni framtíð og ég veit að hæstv. utanrrh. hefur hug á því.

Hér er um mörg og mikilvæg mál að ræða sem um mætti fara mörgum orðum en ég mun þó stytta mál mitt og leggja áherslu á örfá atriði sem skýra grundvallarsjónarmið okkar framsóknarmanna.

Ég legg á það áherslu að við eigum að vinna ötullega innan Sameinuðu þjóðanna og á norrænum vettvangi. Við eigum að beita okkur þar fyrir þeim málum sem við viljum að fái framgang. Við leggjum áherslu á mál eins og að bæta eða brúa bilið á milli ríkra og fátækra og ég fagna þeirri ráðstefnu sem nýlega var haldin um það mál.

Það kann að vera að við Íslendingar þykjum litlir og lítið geta lagt til slíkra mála. Engu að síður eigum við örugglega og ákveðið að leggja okkar lóð á þá vogarskál og ég hygg reyndar að ef betur er að gáð þá getum við látið meira til okkar taka þar en gert hefur verið, t. d. með útflutningi á þeirri þekkingu sem við Íslendingar höfum aflað okkur á ýmsum sviðum, t. d. á sviði sjávarútvegs.

Við fylgjum eindregið stöðvun í framleiðslu kjarnorkuvopna og afvopnun og viljum beita okkur fyrir því á alþjóðlegum vettvangi. Hins vegar er vitanlega stöðvun kjarnorkuvopnaframleiðslu til lítils ef kjarnorkuvopn eru áfram framleidd neðanjarðar eða í lokuðum byggingum. Því er óhjákvæmilegt að samfara slíkri stöðvun verði komið á öruggu eftirliti sem menn geta treyst. Ég harma að viðræður um slíkt eftirlit hafa nú fallið niður. Við eigum því að beita okkur fyrir því, þar sem okkar rödd heyrist, að slíkar viðræður verði teknar upp að nýju. Ég hygg að það sé algjör forsenda fyrir því að þessu megi ná, sem ég veit að allir Íslendingar leggja áherslu á, að stöðvuð verði framleiðsla kjarnorkuvopna.

Ég lít á veru varnarliðsins hér á landi sem illa nauðsyn. Ég legg áherslu á það að við erum í hinum vestræna heimi. Við eigum að okkar mati að vera þátttakendur í varnarsamtökum vestrænna þjóða. Það má færa rök að því að sá friður, sem haldist hefur í okkar hluta heimsins, sé a. m. k. að verulegum hluta að þakka því jafnvægi sem hér hefur náðst, því miður með varnarsamtökum, og ég tek undir það sem margir hafa sagt að jafnvægi eða friður í skjóli óttans er ekki góður friður. En við erum ekki fylgjandi því að raska þessu eins og er og stofna þannig öryggi okkar og hins vestræna heims í óvissu því að við vitum ekki þá hvað við tekur. Við eigum að vinna ötullega að því þar sem við komum fram að slík samtök verði óþörf og þá náist það ástand sem við viljum hafa hér en ekki með einhliða aðgerðum af okkar hálfu.

Ég vil leggja á það ríka áherslu að sú utanríkisstefna sem nú er fylgt er sú sem fyrrv. hæstv. utanrrh. Ólafur Jóhannesson framkvæmdi. Það eru engar óskir frá varnarliðinu á borði ríkisstj. um aukið umfang. Það sem þar er framkvæmt er að verulegu leyti það sem samþykkt var af fyrrv. hæstv. utanrrh. eins og bygging olíugeyma, bygging flugstöðvar — ef við viljum kalla það hernaðarmannvirki sem ég vil nú reyndar ekki og endurnýjun á flugskýlum. Rætt hefur verið um byggingu hreyfanlegra radarstöðva fyrir norðan og vestan, en formleg ósk um það hefur ekki komið til ríkisstj. Í því sambandi lít ég á það sem mjög mikilvægt að þessar radarstöðvar mun mega reka af íslenskum aðilum, þ. e. Póstur og sími getur, ef bygging þeirra verður leyfð, tekið að sér þennan rekstur og rekið þær ekki síður með öryggi íslensks flugs í huga. Það þarf vitanlega að skoðast mjög vandlega þegar og ef slík ósk kemur fram. Ég vísa því á bug að um aukin umsvif varnarliðsins sé að ræða.

Ég fagna þeim áfanga sem virðist vera í sjónmáli að aðskilja megi umsvif varnarliðsins og Íslendinga á Keflavíkurflugvelli. Það má vitanlega deila um byggingu flugstöðvarinnar, hún er kannske of stór, það getur vel verið, en engu að síður er þetta þó mikilvægur áfangi sem með byggingu hennar næst.

Ég vil svo að lokum, af því að ég ætla að stytta mál mitt hér eftir megni, taka undir það, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að auka og efla samstarf með okkar næstu nágrönnum, Færeyingum og Grænlendingum. En það er misskilningur hjá hv. þm. að þetta hafi ekki verið gert. Á það hefur verið lögð mikil áhersla, bæði síðustu mánuði og reyndar síðustu ár. Ég hef sjálfur haft bæði fróðleik og ánægju af því að heimsækja Grænlendinga og Færeyinga og það hafa aðrir ráðh. hér einnig gert. Ég hef m. a. átt ítarlegar viðræður oftar en einu sinni við formenn landsstjórna þessara tveggja landa og eins og áður hefur verið upplýst var gert ráð fyrir því að Jonathan Motzfeldt kæmi hingað til lands í júní til ítarlegra viðræðna um samstarf þessara tveggja þjóða. Einnig var ákveðið að embættismenn beggja landanna ættu fundi tvo, annan hér á landi og hinn á Grænlandi, til undirbúnings þessum viðræðum, en hv. þm. þekkja væntanlega allir að á Grænlandi hafa skipast veður í lofti. Þar eru kosningar í júní og við höfum fengið bréf frá grænlensku heimastjórninni þar sem farið er fram á að þessum viðræðum verði frestað af eðlilegum ástæðum og reyndar tilkynnt að þeir geti ekki gert ráð fyrir þeim viðræðum í júní eins og ætlað var. Þessu höfum við að sjálfsögðu svarað jákvætt en jafnframt lagt á það áherslu að þráðurinn verði tekinn upp strax og kosningum þar er lokið og ný stjórn hefur verið mynduð.

Ég hef einnig rætt þessi mál ítarlega við formann landsstjórnar í Færeyjum og samkomulag hefur orðið um það á milli þessara þriggja landa, Færeyinga, Íslendinga og Grænlendinga, að helst árlega eigi sér stað viðræður um sameiginleg hagsmunamál, ekki bara á ráðherrastigi heldur einnig með embættismönnum og ekki síst um sjávarútveginn sem vitanlega er mikið mál fyrir þessar þjóðir allar og tengir þær saman.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta en endurtek að við leggjum áherslu á það að við beitum okkar áhrifum til þess að kalda stríðinu linni hvar sem við getum komið okkar orði að. Ég harma að kalda stríðið virðist kaldara í dag en það hefur lengi verið og gegn því ber að vinna. Það er óþolandi ástand og þótt við Íslendingar séum litlir þá ber okkur skylda til að leggja okkar lóð á vogarskál betri friðar.