17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6123 í B-deild Alþingistíðinda. (5512)

380. mál, utanríkismál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri ræðumenn hér á undan þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hér er nú komin til umr. þó að seint sé. Það er betra seint en aldrei að Alþingi taki sér tíma í það að ræða utanríkismálin og sakar þá ekki að hafa fróma skýrslu frá ráðh. þeirra mála hér til að styðjast við.

Ég hefði nú viljað þakka hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur fyrir ágæta og athyglisverða ræðu. Mér fannst hún stinga ánægjulega í stúf við viðhorf sumra annarra hv. þm. og hæstv. ráðh. í þessum efnum og kveða þar við nýjan og ánægjulegri tón en maður heyrir oft í umr. um þessi mál. Að mínu mati þarf slík afstaða að heyrast oftar og fá meiru að ráða en þær stefnur sem helst hafa verið uppi meðal ráðamanna þessarar þjóðar og annarra hér á vesturtöndum í þessum efnum.

En áður en ég vík nánar að sjálfri skýrslunni vil ég spyrja hæstv. utanrrh. að gefnu tilefni nokkurra spurninga.

Sú fyrsta varðar till. til þál. sem ég og fleiri þm. fluttum á þessu þingi um kjarnorkuvopnataus Norðurlönd og komin mun vera til hv. utanrmn. Ef ég man rétt tjáði hæstv. utanrrh. sig ekki um efnisinnihald þeirrar till. þegar hún var hér til umr. og ef ég fer rétt með er ekki heldur vikið einu einasta orði að henni hér í þessari skýrslu hæstv. utanrrh. þó svo að þar sé alllangur kafli um norræna samvinnu. Verð ég að segja að það kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir með tilliti til þess að það er yfirlýst ríkisstjórnarstefna á tveimur hinna Norðurlandanna að stefna að slíku kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum. Ríkisstjórnir Finnlands og Svíþjóðar hafa það á sinni stefnuskrá og hafa haft um hríð. Það liggur auk þess fyrir að stærstu stjórnmálaflokkar Noregs og Danmerkur hafa það einnig á stefnuskrá. Ég vil því inna hæstv. utanrrh. eftir afstöðu hans til þess máls og harma það í raun að hann skuli ekki fjalla um það hér, annaðhvort í tengslum við afvopnunar- og friðarmál almennt eða þá í tengslum við norræna samvinnu þar sem það á kannske betur heima.

Í öðru lagi þætti mér fróðlegt að fá nánari skýringar á ákveðnum atriðum í III. kafla þessarar skýrslu sem varða alþjóðastofnanir. Þá á ég fyrst og fremst við Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Á bls. 15, trúi ég, er kafli um þá merku stofnun og þar kemur það fram að Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að segja Bandaríkin úr samtökunum frá og með næstu áramótum. Það má öllum ljóst vera að þar er á ferðinni mjög alvarlegur atburður ef það gengur eftir. Það er alvarlegur atburður í fjárhagslegu tilliti því að Bandaríkin hafa sem ríkasta þjóð heimsins auðvitað staðið að talsverðum hluta undir rekstri þeirrar stofnunar, en það er einnig og kannske einkum og sér í lagi alvarlegur atburður í stjórnmálalegu tilliti séð og með tilliti til alþjóðlegs samstarfs og slökunar. Þær ásakanir, sem þessi stofnun verður fyrir af hálfu Bandaríkjamanna, eru mjög alvarlegs eðlis. Það er nokkuð fróðlegt að sjá samviskusamlega talin upp í þessari skýrslu öll þau rök og allt það sem Bandaríkjastjórn hefur sakað þessa stofnun um. Hins vegar finn ég ekki í þessum kafla, sem er þó rúmlega hálf bis. á lengd, neinar varnir fyrir þessa stofnun eða þær þjóðir sem tekið hafa upp hanskann fyrir hana, sem eru þó vissulega margar. Deilan hefur snúist um það af hálfu Bandaríkjamanna að þessi stofnun hafi verið óeðlilega andsnúin þeim í sínum málflutningi undanfarið og blandi pólitískum markmiðum inn í starf sitt o. s. frv. Auk þess eru ásakanir rekstrarlegs eðlis og skipta kannske minna máli í sjálfu sér. Þessi stofnun hefur af mörgum þriðja heims ríkjum verið talin hvað framfarasinnuðust af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og einna líklegust til að hafa áhrif í þessum efnum vegna einarðs málflutnings og gagnrýni sem hún hefur á köflum haldið uppi á framferði Vesturtanda t. d. í þriðja heiminum og slælega þátttöku þeirra á ýmsum sviðum til þess að bæta samskipti norðurs og suðurs. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. um afstöðu hans til þessarar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar og hvort hann eða þá hæstv. ríkisstj. treysti sér til að taka undir með þeim þjóðum sem hafa skorað á Bandaríkin að breyta þessari ákvörðun sinni án tillits til annarra efnisatriða málsins. Ég vil spyrja hann um það.

Þá væri einnig fróðlegt að spyrja hæstv. utanrrh. um afstöðu hans til þeirrar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar að viðurkenna ekki lögsögu Alþjóðadómstólsins í Haag í málefnum Mið-Ameríku næstu tvö árin. Þar tel ég sömuleiðis að sé um mjög alvarlegt mál að ræða. Ég vildi spyrja hæstv. utanrrh. hvort vænta megi mótmæla af Íslands hálfu við þeirri ákvörðun.

Ég mun þá, herra forseti, víkja nokkru nánar að einstökum atriðum í þessari skýrslu og vil byrja á að lýsa þeirri skoðun minni að það sé nokkuð sérkennileg heimsmynd sem komi fram í þessari skýrslu í afstöðu hæstv. utanrrh. Þar er nokkuð sérkennilegur kafli til að mynda um ástand mála í Mið-Ameríku. Það er athyglisvert að lesa skoðanir hæstv. utanrrh. eða umfjöllun um þau mál. Einnig viðhafði hæstv. utanrrh. hér í framsöguræðu sinni nokkuð athyglisverð ummæli um friðarhreyfingar svonefndar. Það hefur hæstv. utanrrh. reyndar áður gert á öðrum vettvangi. Ég vil, með leyfi herra forseta, vitna í ræðu sem hæstv. utanrrh. flutti á vettvangi samtakanna Lífs og lands 22. okt. s. l. Þar sagði hæstv. utanrrh., með leyfi forseta:

„Friðarhreyfingar, eins og þær sem nú um skeið hafa látið að sér kveða, geta verið gagnlegar ef þær ná að hafa áhrif á yfirgangsöflin, hina herskáu. En í löndum þeirra eru því miður hömlur lagðar á starfsemi hreyfinganna. Þær geta að sama skapi verið hættulegar ef þær næðu að hafa áhrif á að friðsamir menn glötuðu árvekni sinni og gerðust ófúsir að leggja af mörkum það sem nauðsynlegt er til viðhalds friði. Öllum má vera ljóst hvað mundi gerast ef einungis hinir friðsömu afvopnuðust, en hinir herskáu réðu einir yfir vopnum. Þær viðræður, sem nú eiga sér stað í því skyni að reyna að draga úr hernaði, njóta eindregið stuðnings ríkisstjórnar Íslands. Öll kjósum við að þær beri árangur“, sagði hæstv. utanrrh. í þessari ræðu á vettvangi Lífs og lands 22. okt. s. l.

Þessi ummæli, sem ég hef hér vitnað til, eru mjög í sama dúr og hæstv. utanrrh. viðhafði áðan um það hversu alvarlegar afleiðingar gætu nú orðið af brölti þessara friðahreyfinga ef hinir friðsömu, eins og hann orðar það, létu þær hafa um of áhrif á sig. Mér finnst þessi afstaða koma víðar fram, þó með óbeinum hætti sé, í skýrslu hæstv. utanrrh. Þessi sérkennilega heimsmynd, þar sem einungis annar aðilinn í deilunni er sekur, einungis annar er vondur, einungis vopn annars aðilans eru vond og hættuleg, er meira en ég fæ skilið að sé hægt að halda fram og bera á borð fyrir hv. þm. eða almenning úti í þjóðfélaginu. Þetta stríðir gegn því sem ég vil kalla heilbrigða skynsemi, að bera það á borð fyrir menn að hér sé einungis við annan aðilann í þessu vitfirrta kapphlaupi að sakast og einungis annar þeirra beri sök.

Umfjöllun hæstv. utanrrh. um slökunina svonefndu og þá erfiðleika sem verið hefur við að glíma í samskiptum stórveldanna síðustu ár er sömuleiðis af þessum toga. Þar er tíundað allt hið illa í framferði Sovétríkjanna, sem komið hafi slökuninni í koll, en hinu er aldeilis alveg sleppt, hvaða áhrif ýmislegt í ákvörðunum og framferði Vesturtanda og þá einkum og sér í lagi Bandaríkjanna hefur haft á þessa hina sömu svokölluðu slökun. T. d. er ekkert lagt út af þeirri ákvörðun Bandaríkjastjórnar á sínum tíma að staðfesta ekki Salt II samkomutagið. Það var minnst á það hér, en það er sett fram eins og það hafi engu máli skipt. Afstöðu Reagan-stjórnarinnar og þeirrar hörðu stefnu gagnvart Sovétríkjunum sem þar var upp tekin, sem tvímælalaust hefur haft veruleg áhrif á versnandi sambúð stórveldanna, er ekki heldur getið hér. Ein af grundvallarákvörðunum þar var, eins og ég hef áður sagt, sú ákvörðun Reagan-stjórnarinnar að samþykkja ekki Satt II samkomulagið um takmörkun við framleiðslu langdrægra kjarnorkueldflauga og ýmislegt í vígbúnaðarþróun Bandaríkjanna síðan eru beinar og óbeinar afleiðingar af þeirri ákvörðun og af þeirri stefnubreytingu sem varð í Bandaríkjunum þegar ríkisstjórn Ronalds Reagans tók þar við völdum. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeim alvarlegu atburðum og því vítaverða framferði sem Sovétríkin hafa framið á undanförnum árum, og á ég þar við innrásina í Afganistan og ýmiss konar pólitíska íhlutun víða í heiminum. Vissulega hefur það líka lagt sitt lóð á vogarskálamar. En ég er þeirrar skoðunar að þarna beri báðir aðilar nokkra sök og það sé furðuleg blinda af hæstv. utanrrh. þjóðarinnar að setja hlutina svona einfeldningslega fram eins og hér sé einungis við annan að sakast.

Í þessari skýrslu kemur það m. a. fram að það er nú talið að um 800 milljörðum dollara hafi verið varið á s. l. ári til vígbúnaðar og síðan segir, með leyfi forseta:

„Því miður eiga fátækustu þjóðirnar þar einnig sinn hlut að og sumar sívaxandi.“

Og mikið rétt. Undir það skal tekið að margar af fátækustu þjóðum heimsins eyða allt of miklu af sínum takmörkuðu auðlindum til vígbúnaðar. En síðan slá menn sér hér á brjóst og tala um annað stóra hernaðarbandatagið NATO sem friðarhreyfingu og stæra sig af þeim árangri Vesturtanda að hafa haldið ófriði frá evrópskri og amerískri grund núna í hartnær 40 ár. Og má það til sanns vegar færa. En er ekki sök þessara sömu þjóða ærin? Það segir nefnilega í þessari sömu skýrslu hér að það hefur síður en svo verið friðvænlegt í heiminum þrátt fyrir þetta stóra hernaðarbandalag, og einhvers staðar hafa nú vopnin komið frá sem notuð hafa verið í 105 meiri háttar vopnuðum átökum. Það hefur verið háð stríð í 66 löndum og í þeim átökum hafa ekki færri en 16 millj. manna látið lífið. Ég verð að segja að sá málflutningur, sem gjarnan er gripið til af stuðningsmönnum vígvæðingarinnar hér á vesturlöndum, að vegna hennar hafi okkur tekist að koma í veg fyrir stríð á Vesturlöndum í þetta langan tíma, finnst mér ærið holur málflutningur með tilliti til þess að barist hefur verið með evrópskum og amerískum vopnum í 66 þjóðlöndum í 105 vopnuðum átökum og í þeim átökum hafa 16 millj. manna látið lífið. Það er tilgangslaust að neita þeirri miklu ábyrgð sem vopnaútflytjendur og stórveldin bera í þeim átökum sem hér eru gerð að umtalsefni.

Ummæli hæstv. utanrrh. um svonefnda frystingu og sú umfjöllun, sem hún fær í þessari skýrslu, vekja einnig vonbrigði. Þar segir á bls. 10, með leyfi forseta:

„Frysting kjarnorkuvopna er í raun óframkvæmanleg nema með samkomulagi kjarnorkuveldanna sjálfra, þar á meðal um raunhæft eftirlit.“

Það er látið duga þrátt fyrir þá staðreynd að flestöll voldugustu hlutlausu ríki heimsins binda einna mestar vonir við þessa aðferð af öllum sem nú eru ræddar manna á meðal í sambandi við vígbúnaðarmálin. Og ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann telji að heilum þjóðum, eins og Svíum og Mexíkönum og öðrum slíkum, sem flutt hafa um þetta tillögur á undanförnum árum, skjátlist, að þetta sé árangurslaus leið, að það sé ekkert hægt að gera í þessum efnum nema frumkvæðið komi frá stórveldunum sjálfum. Ég held nefnilega að við séum hér komnir að þeim kjarna allrar umræðu um afvopnun og slökun að það þurfi að koma til nýtt frumkvæði í þeim efnum. Sú heimsmynd sem við höfum haft fyrir augunum s. l. ár og áratugi sannar okkur að árangurs er naumast að vænta ef stórveldin sjálf, ef vígveldin sjálf eiga að ráða þar ferðinni. Þessarar skoðunar eru einmitt þær þjóðir sem flytja tillögur um frystingu og aðrar slíkar og hafa gert á undanförnum árum. Þessarar skoðunar eru einnig þeir þm. t. d. í Bandaríkjunum sem sett hafa fram kenningu um frystingu þar. Ég minni hér á, eins og reyndar hefur verið gert þegar í þessum umr., umfjöllun öldungadeildarþm. Marks Hatfields og Edwards Kennedys um það mál og þær tillögur sem þeir hafa haft uppi. Ég vil þá halda áfram að ræða það sem er mín bjargföst sannfæring, að frumkvæði annars staðar frá en þess hefur verið leitað undanfarið sé nauðsynlegt og raunar einasta vonin til að breyting verði á, sem mark er á takandi, í þessum efnum. Það hefur verið rætt hér um þá ráðstefnu sem Evrópuríki héldu í Lissabon í Portúgal fyrir skemmstu og merkilegt nokk, reyndar fyrir frumkvæði Ólafs Ragnars Grímssonar, eins og hér hefur þegar komið fram, og tel ég að það ætti nú að verða okkur Íslendingum dæmi um að við getum ýmislegt. Það er hægt að hafa áhrif þó að við séum fáir og smáir, eins og oft er nú sagt í þessu sambandi. Ég lít svo á að einmitt þessi ráðstefna, sú staðreynd að hún var haldin, sú niðurstaða sem þar varð, sé ákall um sjálfstætt frumkvæði annarra en leitt hafa ferðina hingað til. Það var einmitt ein af niðurstöðum þessarar ráðstefnu að það væri þörf fyrir það að fleiri tækju virkan þátt í þessari umræðu og tækju þar frumkvæði en hingað til hefur verið. Það er kallað á það af milljónum manna víða í heiminum að eitthvað verði gert til að stöðva það vitfirrta vígvæðingarkapphlaup sem nú er háð, og þess frumkvæðis sem til þess þarf er naumast að vænta frá þeim stórveldum sem sjálf eru á kafi í kapphlaupinu. Þetta ætti mönnum að vera auðskilið.

Ég held að við höfum allt of lengi látið leiða okkur. Þá á ég við okkur Íslendinga og reyndar ýmsar nálægar skyldar þjóðir. Við höfum allt of lengi látið leiða okkur í þessum efnum, mata okkur og hugsa fyrir okkur án þess að hafa kjark né þor til að taka sjálfstæða afstöðu í þessum efnum.

Ég ætla þá að víkja, herra forseti, að þeim kafla í þessari skýrslu sem fjallar um varnar- og öryggismál. Þar eru í upphafi ákaflega sérkennilegar málsgreinar sem fjalla um legu Íslands. Það er eiginlega kafli þar um landafræði og hún er nokkuð svo athyglisverð. Ég held að ég komist ekki hjá því að vitna beint í orðalag upp úr þessum kafla. Þar segir t. d., með leyfi forseta:

„Ekki verður horft fram hjá þeirri staðreynd að lega Íslands í Norður-Atlantshafi er afar mikilvæg frá herfræðilegu sjónarmiði.“ Og svo kemur: „Í þeim efnum skiptir ekki máli hvort hér er varnarlið eða ekki.“ Hér er sem sagt fullyrt að það skipti alls engu máli hvort hér er varnartið eða ekki. Og áfram er sagt, og þá kemur sá stóri sannleikur, að tilvist varnarliðsins breyti ekki legu landsins, — og þetta er mjög mergjuð setning: „Tilvist varnarliðsins breytir ekki legu landsins eða eðli hugsanlegra styrjaldarátaka sem fram fara í grennd þess.“

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að hér sé á ferðinni óraunhæf og beinlínis röng fullyrðing. Og enn er reyndar sagt: „Við Íslendingar breytum ekki legu landsins.“ Og það er sagt: „Bandalag okkar ógnar engum“ o. s. frv.

Síðan kemur undirkafli sem nefnist varnar- og eftirlitsstöð. Þar er sagt á einum stað, með leyfi forseta: „Hér á landi er enginn sá vopnabúnaður til árásar, sem neinni þjóð gæti stafað hætta af. Varnir Íslands geta því ekki talist ögrun við neina þjóð, enda hefur eðli stöðvarinnar sem varnarstöðvar ekki breyst í tímanna rás.“ — Ég endurtek, herra forseti: „enda hefur eðli stöðvarinnar sem varnarstöðvar ekki breyst í tímanna rás.“

Því er m. ö. o. haldið hér fram að eðli herstöðvarinnar í Keflavík hafi ekkert breyst síðan 1951 þegar herinn kom hér og setti upp þessa stöð.

Hér er sömuleiðis að mínu mati á ferðinni alröng og beinlínis hættuleg fullyrðing því enn er verið að reyna að slá því ryki í augu almennings að hér sé ekkert á ferðinni nema eitthvert saklaust box. Ég hef tekið mér þau orð í munn í þessum háa ræðustól að stundum fjalli hæstv. utanrrh. um þessi svokölluðu varnarmannvirki eins og væru þau helgimyndir í kirkju, svo hátíðlegt er orðalagið þegar um þau er talað. En ég neyðist til að fara hér ofurlítið yfir það vegna þessarar fullyrðingar, hvernig þróunin hefur verið í uppbyggingu herstöðvarinnar í Keflavík.

Þá er auðvitað fyrst til að taka, þegar stöðin er byggð upp á árunum 1949–1960, að út af fyrir sig gæti ég tekið undir að á þeim tíma var herstöðin fyrst og fremst eftirlitsstöð. Um 1960 verður þarna á mikil breyting. Þá tekur flotinn við rekstri stöðvarinnar og hún breytir þá verulega um eðli og koma inn í það ýmsar áætlanir Bandaríkjamanna í vígbúnaði, svo sem eins og Polarisáætlunin, kjarnorkukafbátaáætlunin, þá koma miðunarstöðvarnar, Loran-C stöðvarnar, sem á þeim tíma og lengst af voru eingöngu hernaðarleg mannvirki, eingöngu hernaðarlegs eðlis og tengdust kjarnorkukafbátum og Polaris-áætlun. Það er að vísu svo nú orðið, að afnot þessara stöðva eru fyrst og fremst af hálfu borgaralegra aðila, þ. e. ekki hernaðarlegs eðlis, vegna þess að önnur og háþróaðri tækni hefur tekið þar yfir, en á sínum tíma var eingöngu um hernaðarleg mannvirki að ræða.

Á þessu tímabili koma einnig nýjar tegundir flugvéla til herstöðvarinnar, svonefndar Delta-flugvélar, sem gátu borið litlar flaugar og einhvern tíma á þessu tímabili, þessu öðru tímabili herstöðvarinnar, kemur SOSUS-hlustunarkerfið hér á landi. Allt þetta breytti verulega eðli þeirrar uppbyggingar sem verið hafði hér á Íslandi og breytti þessari herstöð og þeim herstöðvum, sem hér á Íslandi voru á þessum tíma, fleiri en einni, úr því sem hefði mátt fram undir 1960 kalla eftirlitsstöðvar yfir í allt annan hlut og hernaðarlega séð miklu alvarlegra eðlis.

Síðan má segja að þriðja skeiðið hafi hafist nú og sé að ganga í garð nú með ýmsu móti og þá verður að mínu mati langalvarlegasta breytingin á hernaðarlegri stöðu mannvirkjanna hér á Íslandi. Upphaf þess má að nokkru leyti rekja aftur til ársins 1976 hvað varðar ákvarðanir Bandaríkjamanna, en ég vil segja að það birtist okkur hér á Íslandi fyrst og fremst með komu AWAC-ratsjárflugvélanna hingað fyrir nokkrum árum.

Í dag eru að hefjast ýmsar hernaðarframkvæmdir sem greinilega boða gerbreytt hlutverk og gerbreytta þýðingu vígvæðingar Bandaríkjamanna hér á Íslandi á ýmsa vegu. Það má nefna í því sambandi þær miklu framkvæmdir sem nú eru að fara af stað í Helguvík, þær miklu eldsneytisbirgðir sem þar á að geyma langt umfram þarfir þess búnaðar og þess varnarliðs sem nú er í Keflavík, langt umfram þær þarfir svo nemur margföldum birgðum, þannig að það er ljóst að þær eldsneytisbirgðir sem þar á að hafa á hverjum tíma eiga að þjóna einhverju öðru en þeim tækjabúnaði sem nú er í Keflavík. Það er alveg ljóst. Í því sambandi bendir flest til þess, og upplýsingar hafa reyndar komið fram um það, að þar sé hið svonefnda stoðhlutverk stöðvarinnar á ferðinni sem einhvers konar stoð eða til styrktar flugflota og herflota Bandaríkjamanna hér á öllu Norður-Atlantshafinu. Og það er merkilegt ef það er tilviljun ein að einmitt á sama tíma og framkvæmdirnar í Helguvík fara í gang er að hefjast æfingaflug og áætlun bandarísku sprengjuþotnanna B-52, sem síðar verða leystar af hólmi með BIB-sprengjuflugvélunum, sem taka eiga yfir hlutverk þeirra í framtíðinni, en þessar miklu þotur geta hver og ein borið meðaldrægar eldflaugar með kjarnorkusprengjum í. Það er ljóst að vera þeirra hér í lofti yfir Norðaustur-Atlantshafinu kostar mikið, ef gera á þær út frá meginlandi Norður-Ameríku, og tilvist eldsneytisbirgða hér er af mörgum, sem til hernaðarfræðinnar þekkja, sett í beint samhengi við þessa áætlun.

Þá vil ég nefna komu nýrra orrustuþota hingað til Keflavíkur, sem boðuð hefur verið. Hingað eiga að koma F-15 sprengjuþotur og leysa af hólmi aðra og eldri gerð flugvéla. Þessar þotur geta sömuleiðis borið meðaldrægar — eða kannske fremur skammdrægar eldflaugar.

Þá má nefna móttökustöð fyrir gervihnetti. Það má nefna þær áætlanir um neðanjarðarstjórnstöð sem staðist getur fullkomið stríð, eins og það er orðað svo skemmtilega, fullkomið stríð í sjö daga.

Ég gæti talið ýmislegt fleira, herra forseti, sem allt styður það, allt rennir stoðum undir að hér sé á ferðinni mjög alvarleg eðlisbreyting í annað sinn, mjög alvarleg eðlisbreyting á herstöðvum Bandaríkjamanna hér á Íslandi og þá í annað sinn. Og ég held að það sé blindur maður, herra forseti, sem getur lokað augunum, neitað því að koma allra þessara tækja og þessa mikla nýtísku tæknibúnaðar breyti engu um eðli stöðvarinnar hér.

Ég minni á að það þóttu stór tíðindi á sínum tíma í tækniritum og blöðum erlendis þegar AWACs-ratsjárvélar voru í fyrsta sinn staðsettar annars staðar en í Bandaríkjunum sjálfum. Það þóttu stór tíðindi. Og hvar var þessi staðsetning? Jú, hún var hér á Íslandi og það var þeim sem til þekkja mjög afgerandi vísbending um hversu mikilvæga Bandaríkjamenn teldu þessa stöð vera og hversu þýðingarmiklu hlutverki hún ætti að þjóna. Og nú þegar milljónir manna beggja vegna Atlantshafs hafa sameinast í kröfunni um að þessi þróun eða þessi afturför, sem sífellt vaxandi vígvæðing stórveldanna er, verði stöðvuð, einmitt nú, þá velur hæstv. utanrrh. sér tímann til að boða, gott ef ekki beinlínis biðja um, ný hernaðarmannvirki á Íslandi, beinlínis lýsa því yfir að við þurfum á nýjum hernaðarmannvirkjum á Íslandi að halda eins og það sé okkur einhver lífsnauðsyn. Ég á hér við þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið bæði hér á Alþingi og í ræðum á fundum Sjálfstfl. um að það sé nauðsynlegt að byggja upp radarstöðvar í tveimur fjórðungum landsins. Einnig er í þessari skýrslu boðað að til greina komi að reisa til viðbótar þessum nýju sprengjuheldu flugskýlum, sem komið hefur fram að Bandaríkjamenn ætla að reisa á Keflavíkurflugvelli, fjögur til viðbótar, þannig að þau verði þá alls 13.

Ég verð að segja eins og er að það er ákaflega sérkennileg staða ef það á að verða framlag okkar Íslendinga til slökunar, til batnandi sambúðar stórveldanna, til afvopnunar, að gangast fyrir því að byggja upp ný hernaðarmannvirki á Íslandi. Ég fæ ekki komið því saman að það geti með nokkru móti verið jákvætt framlag okkar til þessara mála að gangast fyrir því hér uppi á Íslandi á sama tíma að ný hernaðarmannvirki rísi hér upp. Því kem ég ekki heim og saman.

Í Morgunblaðinu birtist fyrr í vetur viðtal við MacDonald nokkurn, sem mun vera aðmíráll að tign og er sennilega ekki sá sami MacDonald og hamborgarana framleiðir. Þó getur það vel verið. Þessi aðmíráll rekur það, að að sínu mati sé það sem hann nefnir „efling loftvarna á Íslandi“ algjört forgangsverkefni á næstu árum og svo er það sömuleiðis haft eftir þessum merka aðmírál að verið sé að þróa herstöðina í Keflavík yfir í að verða sérstök stuðningsdeild fyrir herdeildir úr bandaríska flotanum og þar er komið að þessu stuðningshlutverki herstöðvarinnar hér sem ég vék áður að í sambandi við uppbygginguna í Helguvík. Ef það er ekki eðlisbreyting á hlutverki stöðvarinnar hér, sem allt fram að þessu hefur, a. m. k. í máli þeirra manna sem setið hafa á utanríkisráðherrastól á Íslandi, verið eingöngu til eftirlits fyrir Ísland um loftvarnir Íslands, ef það er ekki eðlisbreyting að verða að sérstakri stuðningsstöð fyrir flota Bandaríkjamanna á Norður-Atlantshafi, hvað er þá eðlisbreyting? Ég hefði gjarnan viljað fá álit hæstv. utanrrh. á þessum ummælum aðmírálsins um hið sérstaka stuðningshlutverk herstöðvarinnar í Keflavík við bandaríska flotann.

Hv. þm. taka sér oft í munn í umræðum um utanríkismál hið svonefnda jafnvægi sem nauðsynlegt sé að ríki milli stórveldanna til þess að ófriður bresti nú ekki á. Til er fyrirbrigði í Bandaríkjunum sem nefnt er JCS og mun standa fyrir Joint Chiefs og Staff og er einhver stuðningsstofnun sem gefur skýrslur til bandaríska þingsins um varnarmátt og um nauðsyn á fjárframlögum o. s. frv. Upplýsingar frá JCS eru mikið notaðar þegar fulltrúar bandaríska hersins eru að rökstyðja fjárþörf sína fyrir bandaríska þinginu. Þeir gáfu þinginu eina slíka skýrslu núna nýverið og frá því er skýrt í blaðinu US News and Wortd Report frá því í febrúar 1984 og þar er haft eftir JCS að á 15 sviðum vígbúnaðar eða hvað varðar 15 vopnakerfi, weapon systems, hafi Bandaríkin ótvíræða forustu í 15 af 28 kerfum, í 9 kerfum sé jafntefli, en í 4 hafi Sovétmenn yfirburði. Þar er á ferðinni hernaður gegn gervihnöttum, sem nefnist á enskri tungu antisatellite weaponry. Í þeim hópi er einnig efnahernaður. Þar hafa Sovétmenn sem sagt, í fjórum tilfellum og þar á meðal í þessum tveimur, yfirburði, í 15 af 28 hafa Bandaríkjamenn yfirburði og í 9 er staðan jöfn.

Nú er það svo, að ég gef ekki mikið fyrir þessar fræðilegu vangaveltur um jafnvægi eða ekki jafnvægi. Staðreyndin er sú auðvitað, sem við öllum blasir, að árásargeta hvors stórveldis fyrir sig er margfalt það sem þarf til að granda hinu eða valda því svo verulegu tjóni að hvorugur aðilinn hafi neitt nema tjón upp úr átökum. Hins vegar eru uppi í Bandaríkjunum hugmyndir um að breyta þessu ástandi. Það hefur komið fram m. a. í umræðum og yfirlýsingum sem ákveðnir aðilar í Bandaríkjunum hafa misst út úr sér um hugmyndir um takmörkuð kjarnorkustríð og einnig í umræðum um svonefnt first strike eða fyrsta högg, sem er ákveðið hugtak í þessum herfræðum og miðar að því að gera þetta fyrsta högg svo öflugt og svo snöggt að óvinurinn lamist og nái ekki að svara fyrir sig. Þessar hugmyndir eru uppi a. m. k. í Bandaríkjunum og þá er ólíklegt að Sovétmenn séu ekki einnig að reyna að koma sér upp þessum möguleika. Langalvarlegasta ógnunin við heimsfriðinn í dag er vegna þessara hugmynda og mjög mörg Evrópuríki eru nú ákaflega uggandi um stöðu sína því það er ljóst að átakasvæðið í slíkum átökum, hvort sem það yrði nú takmarkað kjarnorkustríð á einhverjum takmörkuðum hluta norðurhvels jarðar eða fyrsta höggs árás, yrði einmitt af miklum þunga hér í Evrópu og á Norður-Atlantshafi.

Liður í þessum hugmyndum er að margra mati sú endurnýjun herstöðvanna á Íslandi, í Grænlandi og í Færeyjum sem við nú stöndum frammi fyrir og boðuð er í hverri ræðunni á fætur annarri. Það er þetta sem ég held að menn verði að gera sér grein fyrir að er hér á ferðinni. Hér er ekki um að ræða einhverja endurnýjun á úreltum tæknibúnaði. Hér er um að ræða gerbreytt eðli og gerbreytt hlutverk herstöðvanna hér á Íslandi.

Herra forseti. Í þessari skýrslu er einnig fjallað nokkuð um þróunaraðstoð og ég ætla að bæta nokkrum orðum þar við þá umræðu sem þegar hefur farið þar fram. Ég hef þegar minnst í ræðu minni á þá ráðstefnu sem haldin var í Lissabon í Portúgal nú í apríl sem leið og var fyrir forgöngu Ólafs Ragnars Grímssonar fyrrv. alþm. og núv. varaþm. Ég sagði áðan að ég held að við Íslendingar ættum að taka þann árangur, það frumkvæði og það jákvæða framtak sem þar var sýnt af hálfu eins samlanda okkar okkur að fordæmi og láta okkur það að kenningu verða því að það er ekki nauðsyn fyrir okkur þó fáir séum og smáir, eins og alltaf er sagt, að sitja aðgerðalausir. Við höfum okkar stöðu sem frjáls og fullvalda þjóð og aðili að alþjóðasamtökum og framlag okkar til þessara mála, til þróunaraðstoðar, til afvopnunar og annarra slíkra hluta getur verið meira en bara peningaframlög, eins og það hefur verið undanfarið og það meira að segja skammarlega lág, því það er líka hægt að leggja þessum málum lið með því að hafa áhrif á þá stefnu sem uppi er í þessum efnum með því að taka afstöðu og með því að gangast til að mynda fyrir slíkri ráðstefnu, sem þarna var á ferðinni, og fylgja síðan eftir þeim niðurstöðum sem af slíku verða.

Það hefur áður verið minnst á dapurleg örlög þeirrar tillögu sem við þm. Alþb. fluttum hér í umr. um fjárlög um framlag okkar Íslendinga til þróunaraðstoðar. 1 raun er það svo að beinar peningagreiðslur okkar á þessu ári til þróunaraðstoðar eru ákaflega lágar eða innan við 20 millj. Þó í fskj. 3 með skýrslu utanrrh. séu færðar 37 millj. 873 þús. á nafn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, þá er stór hluti af þeirri aðstoð bundinn í skipinu Feng, sem nú er við Grænhöfðaeyjar og er í raun enn eign okkar Íslendinga, eign Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Það er bókhaldsatriði sem slíkt hvort færa á það okkúr til tekna í þróunaraðstoðinni þar sem skipið er enn í okkar eigu.

Nú er ég ekki með þessu að gagnrýna það fyrirkomulag, en ég bendi á að bein fjárframlög okkar til þróunaraðstoðar á þessu ári verða enn minni ef þetta er haft í huga. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. í þessu sambandi hvort í þeirri niðurstöðu upp á 0.1%, sem hér er gefin upp sem framlag okkar af vergri þjóðarframleiðslu á þessu ári til þróunaraðstoðar, er tekin inn í sú nýja spá um þjóðartekjur á Íslandi sem Þjóðhagsstofnun hefur nú nýverið sent frá sér eða hvort hér sé miðað við eldri spár. Já, spurningin er sú .hvort hér sé miðað við nýjustu spá Þjóðhagsstofnunar um þjóðartekjur okkar Íslendinga á þessu ári, þegar gefið er upp að framlag okkar sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu verði 0.1%, eða hvort miðað sé við eldri spá, sem var eins og alþjóð veit nokkuð lægri, og væri illt að sjá þetta hlutfall lækka enn frekar en það hefur þegar gert.

Ég held að þessar tölur, sem við stöndum hér frammi fyrir varðandi framlag Íslands til þróunarsamvinnu eða þróunaraðstoðar á undanförnum árum og í ár, hljóti að koma okkur öllum hv. þm. til að roðna, svo skammarlega lágt er þetta hlutfall og svo skammarlega hægt hefur miðað við að hækka það, hvað þá þegar horfa þarf fram á að það fari nú lækkandi.

Það hefur áður komið fram í þessum umræðum að við erum nú talin sjötta ríkasta þjóð heimsins hvað þjóðartekjur á mann varðar en í þróunaraðstoð stöndumst við ekki samanburð við ýmsar aðrar þjóðir sem eru miklu neðar á þeim lista. Ég vil taka Hollendinga sem dæmi, sem hafa iðulega á undanförnum árum greitt meira en þessi alþjóðasamþykkt, sem við höfum vitnað hér til upp á 1%, kveður á um og talið er eðlilegt að skiptist þannig að ríkið greiði 0.7% og að önnur samtök greiði 0.3. Þjóð eins og Hollendingar, sem hafa lengst af verið langt fyrir neðan okkur hvað varðar þjóðartekjur á mann, búa við mikið atvinnuleysi og ýmsa erfiðleika, sem við erum laus við, gera þarna jafnvel meira en þeim ber samkv. alþjóðasamþykktum.

Ég tek því undir það með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, 3. þm. Reykn., að við Íslendingar ættum að setja okkur ákveðin markmið í þessum efnum, hvernig við gætum á ákveðnum tíma, helst sem stystum, náð þessu framlagi upp í það eina hlutfall sem okkur er sæmandi, sem er að standa fyllilega við okkar skuldbindingar í þessum efnum. Helst þarf sá tími að vera sem stystur og ég hefði haldið að það væri ekki ofverkið okkar að hækka þetta í einum þremur áföngum upp í þau 0.7% sem ætlast er til að hið opinbera inni af hendi í þessum efnum.

Ég held að ég hafi þessi orð mín um þessa skýrslu utanrrh. ekki öllu fleiri, herra forseti. Ég get tekið undir það, sem aðrir ræðumenn hafa hér sagt, að óheppilegt er að fá þessa skýrslu fram svona seint á þingtímanum, þegar annir eru jafnmiklar og raun ber vitni og þm. sumir jafnvel hálfvansvefta, og æskilegt hefði verið að hún hefði komið fram miklu fyrr og legið fyrir um hríð áður en umr. um hana hæfust.