17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6132 í B-deild Alþingistíðinda. (5513)

380. mál, utanríkismál

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér í upphafi máls míns að víkja örlítið að þeirri athöfn sem hér fer fram núna og ég tel mjög nauðsynlegt að verði skipulögð með einhverjum öðrum hætti. Ég vil, bara til þess að það væri fært til bókar, stinga upp á því að menn hugsuðu þá leið að þegar hæstv. utanrrh. hefur skilað sinni skýrslu gefi þingflokkar innan einhvers tiltekins tíma umsagnir um þessa skýrslu og síðan verði ákveðinn stuttur fundur eða stuttur dagskrárliður þar sem fulltrúar þingflokka gera grein fyrir skurðpunktum mismunandi stefnumótunar hvers um sig í helstu málaflokkum í sem allra stystu máli. Þessi langloka sem hér líður yfir sviðið er þeim málum sem hér er verið að ræða, sem eru með mikilvægari málum okkar þjóðar, ekki til framdráttar eins og þetta fer fram, þ. e. í þrengingum starfsins á seinustu stundum þingsins.

Ég vil byrja á því aðeins að lýsa áliti mínu á þessari skýrslu í örfáum orðum. Ég sakna í þessari skýrslu ákveðinna nýjunga eða nýjungagirni. Mér finnst þessi skýrsla mjög þurr. Mér finnst hana skorta hugmyndir og till. til framsækinnar áttar og það á við um allflesta málaflokka sem hér er fjallað um.

Ég vil byrja á að fjalla um inngang skýrslunnar þar sem um er að ræða umfjöllun um framkvæmd þeirrar stefnuyfirlýsingar sem núv. ríkisstj. gaf út 26. maí 1983. Ég legg enn og aftur áherslu á þau orð, sem ég hef reyndar látið hér falla fyrr að mér finnst menn verði að gera sér grein fyrir því að sú hætta, sem að okkur steðjar í vopnakapphlaupi stórveldanna, miðast ekki lengur bara við möguleikann á stríði milli Rússa og Bandaríkjamanna. Hún er fólgin einfaldlega í því fordæmi sem vígbúnaðarkapphlaupið gefur. Þetta fordæmi leiðir af sér að nú á dögum er líklega varla orðin spurning lengur hvort heldur hvenær. Einhver af hinum brjáluðu einræðisherrum utan Vesturlanda, við getum nefnt nöfn eins og Ghaddafi eða Khomeini, kemst yfir kjarnorkuvopn og þá er ekkert að spyrja að leikslokum því að þessir menn beita þessum vopnum þegar þeir telja sér það til hagsbóta í þeim tilgangi að útrýma óvinum sínum. Þess vegna tel ég það skyldu ísl. stjórnvalda — og er þá höfðað beint til kaflans um utanríkismál í stefnuyfirlýsingunni — að þau hafi það að aðalmarkmiði í utanríkismálum að tala fyrir friði og útrýmingu kjarnorkuvopna hvar og hvenær sem er.

Ég segi þetta vegna þess að eins og málin eru talin upp í þessum kafla, þá eru önnur atriði sett á oddinn en þetta. Ég hef reyndar minnst á það áður úr þessum stól að við, sem erum aðilar að vestrænu varnarsamstarfi, höfum mjög góða aðstöðu til þess að koma skoðunum okkar á framfæri, það er það sem máli skiptir. Þessi orð eru töluð einfaldlega vegna þess að ég tel að allt annað starf okkar og sú umsýsla sem hér fer fram sé harla fánýt ef gereyðingarvopnunum og hættunni af þeim er ekki útrýmt.

Við vitum að í stórum hluta heimsins — og þá á ég einkanlega við austantjaldslöndin — eru mannréttindi enn þá fótum troðin. Við í BJ skorumst ekkert undan því að taka afstöðu með eða móti mannréttindum og viljum eiga samstöðu með opnum og frjálsum þjóðfélögum. Norður-Atlantshafsbandalagið er samstarfsvettvangur þjóða sem eru okkur skyldar, bæði að menningu og stjórnarfari. Þetta eru þjóðir sem við viljum eiga samleið með og þess vegna tökum við þátt í starfsemi Norður-Atlantshafsbandalagsins. En ég held að við verðum að játa á okkur þá synd sem ábyrgir samstarfsaðilar að okkur hefur mistekist að tryggja frið. Við höfum haldið friðinn en við höfum ekki tryggt hann. Þá er ég ekki bara að tala um þann tíma sem liðinn er heldur spurninguna um það að tryggja friðvænlega framtíð veraldarinnar allrar. Ég held að nú á tímum, einkum með tilvísun til orða minna hérna í upphafi um hættuna af því að aðrir aðilar en stórveldin komist yfir kjarnorkuvopn, reyni mjög á Vesturlönd, vilja þeirra og stöðu sem málsvara frelsis og lýðræðis.

Ég ætla mér síðan að fara aðeins í gegnum einstaka kafla þessarar skýrslu og skal reyna af fremsta megni að vera stuttorður. Ég sagði í upphafi að í þessari skýrslu væri dálítill Ísafoldarhljómur og að það vantaði nægilega afdráttarlausa afstöðu til friðar- og afvopnunarmála. Ég tel líka að hér vanti nokkuð afdráttarlausa afstöðu til þeirra mála sem rædd eru í síðasta kafla þessarar skýrslu sem eru utanríkisverslun sem þáttur í alþjóðasamstarfi. Ég mun koma að því aðeins síðar.

Á 18. blaðsíðu þessarar skýrslu er minnst á atvinnumál í Norðurlandasamvinnu. Mér finnst vanta inn í þann kafla spurningar eða till. að sameiginlegu átaki Norðurlanda og um þátttöku Íslendinga í nýsköpun atvinnumála framtíðarinnar. Nágrannar okkar eiga við þó nokkuð mikið atvinnuleysi að stríða sem við höfum blessunarlega enn ekki orðið að þola. Við sjáum samt sem áður fram á það að í framtíðinni mætir hér mjög stór hópur fólks til vinnu sem við eigum ekki enn þá atvinnu fyrir. Allt átak, sem fram fer á Norðurlandagrundvelli í þessum málefnum, ætti því að koma okkur til góða og mjög nauðsynlegt að við séum þátttakendur í því.

Herra forseti. Ég bið fyrirgefningar á því að ég fer dálítið sitt á hvað í gegnum þetta. Ég geri það einungis vegna þess að ég er að reyna að stytta mál mitt eins mikið og ég get. Hér gleymdi ég í yfirferðinni kafla um alþjóðamál og umfjöllun um þátttöku Íslands í atþjóðlegu samstarfi. Ég held að við Íslendingar ættum að leggja mikla áherslu á ákveðinn málflutning í alþjóðlegu samstarfi, þ. e. að kalla á ákveðið átak frjálsra þjóða til þess að reyna að sameina hagkerfi sín sem mest. Sú tilhneiging hjá þjóðum að einangra hagkerfi sín er enn þá mjög sterk og þó verða áhrif hagkerfa innbyrðis augljósari með hverju ári. Hvernig ætti heldur annað að vera hægt með þeim viðskiptum sem á milli þjóða eru? Aukin viðskipti milli þjóða þýða aukin tengsl þjóðlegra hagkerfa, þ. e. við færumst alltaf nær veruleika atþjóðlegs hagkerfis. Alþjóðlegt hagkerfi þeirra þjóða sem búa við blandað hagkerfi er í áberandi andstöðu við það hagkerfi sem stýrir járntjaldslöndunum. Ég tel að aðalvandinn liggi ekki endilega í mismun hagkerfanna heldur í gagnkvæmri einangrun þeirra. Við höfum margyfirlýst að við höfum engan áhuga á því að útrýma þessum þjóðum heldur viljum við búa í sátt og samlyndi með þeim á plánetunni Jörð. Ég tel að við verðum því að hegða okkur í samræmi við það. Og þegar ég segi við þá á ég ekki bara við okkur Íslendinga heldur þann hluta heimsins sem er ótengdur austurblokkinni. Síaukin viðskipti og verslun við austantjaldslöndin þýða hægfara rof einangrunar þeirra og minnkandi árekstrarhættu.

Við erum ekki bara hluti af Norðurlöndum eða Evrópu eða Vesturlöndum. Hver einasta þjóð, sem byggir þessa jörð, er alþjóðlegt afl og á að líta á sig sem alþjóðlegt afl. Það að líta þannig á sig þýðir ekki að maður ætli sér einhvern rétt til ósæmilegra afskipta af málefnum sjálfstæðra þjóða heldur er það viðurkenning á gagnkvæmum hagsmunum. Það að líta á sig sjálfan sem alþjóðlegt afl þýðir ekki uppgjöf þjóðlegra verðmæta heldur mun þvert á móti það sjálfstraust, sem sýnt er með því að hafna einangrun, tvímætalaust auka eigin tiltrú og annarra á þjóðleg verðmæti.

Lyklarnir að auknum alþjóðatengslum eru tveir. Það er annars vegar frjáls verslun og hins vegar frjáls óhindruð menningarsamskipti. Skýrsla utanrrh. hafnar þessum staðreyndum að vísu hvergi en það vantar allar framsæknar till. um athafnir í þessum málaflokkum. Ég kallaði það áðan þurran framsetningarmáta, Ísafoldarhljóm, enda kom það í ljós í ræðu hæstv. forsrh. að þessi utanríkisstefna er utanríkisstefna manns sem einu sinni var utanrrh. en er það ekki lengur.

Ég vék aðeins áðan að Norðurlandasamvinnu og vil minnast þar á tvö atriði sem mikilvæg eru. Það er annars vegar heimamarkaður sem mikið hefur verið til umr. í norrænu samstarfi undanfarið þar sem Íslendingar hafa óneitanlega borið skarðan hlut frá borði. Komið hefur í ljós í könnunum að öfugt við það að Íslendingar vita mest um og hafa mestan áhuga á norrænu samstarfi eru viðskipti þeirra við Norðurlönd með þveröfugum hætti, þ. e. grannar okkar kaupa afskaplega lítið af okkur á meðan við verslum æði mikið við þá. Ég minntist líka á nýsköpun atvinnulífs á Norðurlöndum þar sem vandamál okkar og granna okkar fara kannske ekki alveg saman, en lausnir vandamálsins hljóta endanlega að verða þær sömu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að við tökum þátt í þessu samstarfi vegna þess að að lokinni markmiðasetningu í nýsköpun atvinnulífs hlýtur að fylgja stórátak í menntunarmálum og í því átaki hljótum við að kjósa að njóta þeirrar samvinnu sem Norðurlandasamstarfið hefur upp á að bjóða.

Í kafla, sem fjallar hér um varnar- og öryggismál, eru þrjú atriði sem ég ætla að minnast á. Það er annars vegar setning í upphafi kaflans þar sem sagt er: „Bandalag okkar“ — og þar er átt við NATO — ógnar engum. Við munum aldrei beita vopni nema á okkur verði ráðist. Við sækjumst ekki eftir yfirburðum en munum heldur ekki sætta okkur við að aðrir nái yfirburðum yfir okkur.“ Þetta er hluti af Brüssel-yfirlýsingunni sem gefin var út á fundi ráðh. í des. s. l. Mér finnst að í þessari setningu lýsi sér mikil þröngsýni því að það virðist einhvern veginn eins og þessir menn sem þarna voru, og þá þar með talinn hæstv. utanrrh., geri einhvern veginn ekki ráð fyrir neinum heimi utan blokkanna tveggja. Ég er ansi hræddur um að ef einhver aðili utan þessara blokka eignast atómsprengju ráðgist hann ekkert við þessa háu herra um það hvernig hann notar hana og hvort hann notar hana hugsanlega gagnvart þeim. Það verður ekkert spurt að því hvort menn hafi sætt sig við að einhver hafi náð yfirburðum. Það þarf enga yfirburði til þess að hleypa stríðinu af stað. Það þarf bara eina eða fleiri sprengjur.

Um áhuga BJ á flugstöðinni vita allir og þar eru í sjálfu sér ekki mjög flókin mál á ferðinni. Við höfum margsinnis og margítrekað reynt að benda á hversu dýr og óhagkvæm þessi framkvæmd er og margoft hafa þeir aðilar, sem ábyrgð bera á fjármálum ríkisins, hafnað því að fara að nokkru leyti að till. okkar til sparnaðar í þessari byggingu. Það verður þá að skilja það þannig að mjög stór og mikil orð um hagkvæmni í rekstri og sparnað hins opinbera, sem látin hafa verið falla undanfarið og féllu í kosningunum s. l. vor, og hávær gagnrýni á stjórnvöld fyrri ára fyrir óráðsíu og oflátungsskap séu harla lítið marktæk við hliðina á þeirri neitun að spara ekki bara tugi heldur hundruð millj. í þessari byggingu. Ég get heldur ekki látið hjá liða að minna á ákveðið einangrað baráttumál BJ varðandi Sölu varnarliðseigna sem skilar nokkrum tekjum í ríkissjóð í dag. Það er okkar áhugamál að menn afsali sér þessari tekjulind vegna þess að verslun og verslunarviðskipti við herinn eru ákveðinn þröskuldur í veginum fyrir því að menn geti raunverulega tekið óhlutlæga afstöðu til þess hvort herinn skuli vera eða fara ef þeirri spurningu er einhvern tíma varpað upp og líka hitt að í þessum viðskiptum þrífst eins og alltaf þar sem her er nálægt — og það gildir einu hvort sá her er í útlöndum eða heima hjá sér — ákveðin spilling sem við getum alveg sparað okkur að vera þátttakendur í.

Í hafsbotnsmálefnum vil ég bara minna á síendurteknar áminningar hv. 4. þm. Norðurl. v. um það að við getum unnið okkur ákveðinn rétt til ákveðinna svæða í hafinu. Það nægir okkur ekki að tryggja okkur þennan rétt lagalega, enda ekki alveg víst hvort við getum það, en enn þann dag í dag eigum við möguleika á að ávinna okkur þennan rétt með þeim hætti að nýta þessi svæði eins og fremst er kostur.

Í málefnum þróunarsamvinnu hafa aðrir aðilar vikið hér að því atriði hversu langt við erum enn þá frá því markmiði sem við settum okkur um hlutfall af þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar. Nú upp á síðkastið hefur vaknað mjög mikill áhugi á útflutningi þjónustu og þekkingar frá Íslandi til útlanda. Ég tel að þróunaraðstoð sé í raun og veru mjög góður vettvangur til þess að auglýsa getu á því sviði ef hún er þá einhver. Ég legg því til að stofnað verði til samstarfs við þá aðila sem áhuga hafa á útflutningi þjónustu og þekkingar og reynt að koma þeim á framfæri á vettvangi alþjóðlegrar þróunaraðstoðar.

Í kaflanum um utanríkisviðskipti tek ég hjartanlega undir þau orð í skýrslunni að ekki verði lengur undan því vikist að efla utanríkisþjónustuna, m. a. með stofnun nýrra sendiráða og með öflugri útrás til að styrkja stöðu Íslands meðal þjóða til að efla útflutningsatvinnnvegi okkar, ferðaþjónustu og menningarlíf. Þetta eru mjög góð markmið. Spurningin er hvernig. Hér er verið að tala um það að einbeita sér að því að auka útflutning og afla markaða fyrir alls kyns söluvarning sem jafnvel enn er lítt eða ekkert nýttur.

Þessir hlutir kosta auðvitað fé, en hér er einhver mikilvægasti þáttur vöruþróunar sem um er verið að ræða. Sumir aðilar segja að þessi þáttur vöruþróunar vegi nánast 90% af árangrinum við vöruþróunina. Við þurfum ekki bara fé til þessara hluta heldur þurfum við líka fólk og þekkingu. Þekkinguna verðum við líklega að mjög stórum hluta að flytja inn eða afla okkur hennar erlendis því að hér á Íslandi er þessi þekking frekar einangruð og reyndar á vissum sviðum algjörlega einokuð. Þá á ég við sölusamböndin eða sölusamtökin sem starfa í fiskútflutningi.

Mig langar til þess — bara sem hugmynd af því að ég held að allar hugmyndir ætti að skoða — að varpa fram þeirri spurningu hvort ekki mætti kanna það meðal Íslendinga erlendis, námsmanna eða þeirra sem lokið hafa námi og einhverra hluta vegna treysta sér ekki hingað heim, oft og tíðum vegna þess að ekki er eftirspurn eftir þeirri sérþekkingu sem þeir höfðu aflað sér, hvort ekki er hugsanlegt að byggja fyrir þessa menn ákveðna brú með því að bjóða þeim upp á menntun á sviði sölu- eða markaðsöflunar þar sem þeir þá geta hagnýtt sér þá sérþekkingu sem þeir hafa af þeim löndum sem þeir hafa dvalið í.

Annað atriði lýtur líka að spurningunni um fólk og þekkingu. Við eigum ansi mikinn skyldleika að rekja til Kanada. Í Kanada býr fjöldi manna af íslensku bergi brotinn og Kanada er land sem fyrir margra hluta sakir á við lík skilyrði að búa og Íslendingar. Það er mjög margt t. d. í sambandi við byggingar sem er svipað hjá þeim, allavega á svipuðum breiddargráðum. Þeir þurfa af brýnni nauðsyn líkt og við að leggja mikla stund á ákveðnar fræðigreinar eins og veðurfræði. Þeir eru sérfræðingar með vissum hætti eins og við á sviði sjávarvísinda, t. d. hafískannana. Atvinnumál þeirra eiga mörg hver við mjög svipuð vandamál að stríða og við þar sem dreifbýli er mjög mikið í Kanada og sömu einkenni gilda þar líka um verslun. Nú vitum við að menn af íslensku bergi brotnir í Kanada gegna mjög víða lykilhlutverkum í pólitík og verslun. Það á eiginlega við um allt Kanada, alveg vestur á vesturströnd. Ég hefði álitið að það væri einfaldara verkefni en mörg önnur að stofna til sambands og samstarfs við þessa aðila með það í huga að nota sér þá aðstöðu sem þeir hafa okkur til framdráttar. Ég er líka viss um það vegna kynna minna af þessu fólki að það væri margur hver miklu meira en viljugur til þess að gera nánast allt sem í hans valdi stendur til þess að vegur landsins hans — því að margir þessara manna tala enn þá um Ísland sem landið sitt — verði sem mestur.

Herra forseti. Þetta er e. t. v. hálfflaustursleg yfirferð. Ég hefði gjarnan viljað gera þessu máli betri skil, en bæði er það að ég hafði sjálfur ekki allt of mikinn tíma til að undirbúa mig og hins vegar finnst mér þessi athöfn öll orðin svo langteygð að ég held að ég geri hér með stuttan endi á máli mínu.