17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6142 í B-deild Alþingistíðinda. (5517)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég skal ekki flytja hér langt mál þó að vissulega sé hér um eitt af þýðingarmestu málum þingsins að ræða. Ég geri hér í fyrsta lagi stutta grein fyrir því hvers vegna ég skrifa hér undir með fyrirvara. Ég tók um stund sæti Geirs Gunnarssonar í fjvn. og hef því ekki haft tök á því að yfirfara sem skyldi talnalegar og tæknilegar upplýsingar sem nefndin hefur fengið, án efa.

Í fyrsta lagi er fyrirvari minn bundinn þeim sérstaka niðurskurði sem tengist fjárlagagatinu fræga og fylgir með í fskj. og hefur þar verið skipt á verkefni og kjördæmi að ósk stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Sá vandi ríkisstj. tengist almennum ákvörðunum hennar og er alfarið í heild á ábyrgð hennar að sjálfsögðu. Fyrirvarinn tengist að öðru leyti því hvert samræmi er í langtímaáætlun og markmið hennar um prósentu af þjóðarframleiðslu og efndum nú, þ. e. hversu þar er við staðið, en þar kemur fram í nál., með leyfi forseta:

„Fjármagn í langtímaáætlun er ákveðinn hundraðshluti af þjóðarframleiðslu svo sem Alþingi hafði ákveðið árið 1981. Þetta hlutfall skyldi vera 2.2% 1983, 2.3% 1984, en 2.4% úr því,“ og síðan segir í þessu nál.:

„Minnkandi þjóðarframleiðsla og lægra hlutfall til vegamála árin 1983 og 1984 veldur því að nokkuð vantar upp á að markmið langtímaáætlunar náist. Á það bæði við um nýjar framkvæmdir og sumarviðhald.“

Þetta nægir varðandi þennan fyrirvara þó að margt mætti fleira um þetta mál segja, m. a. orð sem komu fram í framsögu hv. formanns fjvn., Lárusar Jónssonar, um tekjuöflunina í heild sinni og þá tekjustofna sem undir standa að meginhluta til, en ég skal ekki fara út í það hér.

Ég vildi aðeins koma inn á örfá afmörkuð málefni, benda kannske fyrst á það að hér er um að ræða mál sem veldur miklu fyrir marga hvernig að er staðið. Það snertir undirstöðuna í byggðamálum, öll félags- og menningarleg samskipti, öryggi heilsugæslunnar, skólamálin og mannleg samskipti almennt, hvernig þessar samgöngur eru, hvernig vegakerfið er. Það er beðið hvert ár á landsbyggðinni, hvað gert verði þar, hverju unnt er að þoka fram. Það ræðst af nýbyggingarfé fyrst og síðast, en hið almenna viðhaldsfé er þýðingarmikill þáttur einnig. Skynsamleg nýting þess ræður miklu um ástand veganna. Oft verður þar gerbreyting á með réttum aðgerðum. Langtímaáætlunin, sem samþykkt hefur verið, skapaði tímamót. Það er áríðandi að við hana verði staðið. Þó stunið sé undan skattheimtu ævinlega skyldu menn gæta að því að sá skatturinn kann að vera þyngstur og óbilgjarnastur sem vondir vegir skapa fjármagnslega séð sem öryggislega svo oft varðar líf manna. Kostir langtímaáætlunar eru ótvíræðir. Að vísu glögg vonbrigðaefnin þeim sem sjá verkefni aftarlega eða alls ekki á skrá sem þeir gjarnan vildu sjá framar eða jafnvel fremst. Hitt vegur þyngst, að vegagerð ríkisins getur nú skipulagt verk sín betur og staðið þar enn betur að og er þó margt gott hægt að segja um þá ríkisstofnun almennt.

Unnt er fyrir fólk almennt að sjá hvenær von er til þess að hvert verk verði unnið. Menn eiga því ekki að velkjast í vafa svo sem skammtímaáætlanir hafa boðið upp á, en grunnurinn er að sjálfsögðu að við fjármagnið verði staðið því án þess fer allt úr böndum. Þegar við höfum núna um tíma fengist við að leysa úr fjárhagsvanda ríkissjóðs, að vísu ekki við í stjórnarandstöðunni, heldur þeir aðrir sem þar hafa komið nálægt, — að vísu taka auðvitað allir þátt í því á vissan hátt, — þá er von að menn spyrji sig að því hvort nokkur von sé til þess að Eyjólfur hressist mjög rækilega núna á þessum tímum.

Á s. l. ári voru Ó-vegaverkefnin réttilega tekin inn á vegáætlun og má þó ævinlega deila um hver Ó-vegaverkefnin séu. Ekki efa ég að þarna hafi þrjú þau alverstu verið tekin, en Ó-vegirnir eru fleiri og fyrir þeim hefði þurft að sjá með sérstöku átaki. Við Austfirðingar eigum t. d. slíka vegi og hefðum gjarnan viljað sjá þá tekna þannig út úr þó heldur síðar yrði. Án þess að fara náið út í kjördæmasjónarmið, sem hvergi eru þó meira ríkjandi en einmitt í vegamálunum, bendi ég aðeins á Kambanesskriðurnar milli Stöðvarfjarðar og Breiðdals; enn aðeins ruðningsvegur, stórhættulegur sumar sem vetur. Og ég hlýt í tengslum við mitt kjördæmi sérstaklega benda á varanlega tengingu Vopnafjarðar við Hérað sem brýnt framtíðarverkefni og rannsóknir og rækilega athugun á jarðgangagerð svo sem till. hefur verið flutt um hér á þingi, og er mér ekki síður í huga athugun á hugmyndum þeirra Fáskrúðsfirðinga þar að lútandi. En nóg um það. Það væri að æra óstöðugan að fara nánar út í öll óskaverkefnin eystra.

Varðandi Ó-vegina skal þó enn einu sinni tekið fram að vegna þýðingar þeirra hefði þurft og var raunar lofað að sérstakt fjármagn kæmi til, þannig að þær framkvæmdir skertu ekki heildarmyndina í sjálfri vegáætluninni og þar með hlut einstakra kjördæma, svo sem Austurland var glöggt dæmi um á síðasta ári og eimir þar enn eftir verulega. Slík verkefni hljóta að kalla á sérátak, og hversu brýn sem menn viðurkenna þau vera þykir mörgum hart við að búa stórfellda skerðingu af þeirra völdum. En Ó-verkefnin eru jafnsjálfsögð — forgangsmál, það skal skýrt fram tekið.

Langtímaáætlunin leggur annars höfuðáherslu á bundið slitlag og uppbyggingu vega tengda því. Það er réttmæt áhersla um margt. En fyrir landsbyggðina skiptir ekki síður máli uppbygging vega upp úr snjó og lagfæring vegakafla, oft ekki langra, sem hindra vetrarumferð. Í þessu efni má ekki gleyma hlut þjóðbrautanna, sem eru að mestu sveitavegir, sem óneitanlega verður rýrari af þessum sökum. Þýðing þeirra er þó augljós fyrir búsetuna, fyrir byggðina, fyrir alla þá þætti sem ég nefndi í upphafi. Sérátak þyrfti því til að koma, og sé nokkurt verkefni fyrir Byggðasjóð eru það bein framlög til vegagerðar. Flýting jaðarbyggðavega þaðan er vissulega góðra gjalda verð, en bein framlög til sérátaka hefðu átt að vera frá upphafi forgangsverkefni Byggðasjóðs. Ég man að fyrir sjö árum flutti ég till. um átak, að vísu tengt mínu kjördæmi, og mér er enn ljósara í dag, eftir að hafa farið þessa vegi vetur sem sumar, að betur hefði sú till., útvíkkuð til annarra kjördæma, verið samþykkt og framkvæmd og til þeirra framkvæmda aflað fjár.

Aðeins í lokin vil ég svo víkja að útboðsmálum og ýmsu því tengdu. Vissulega mátti hér verða breyting á. Vissulega hefur reynslan af þessum útboðum um margt verið ágæt og kostnaður verulega lækkað í ýmsum tilfellum. Hins vegar hlýt ég að benda á ýmsar hættur þessu samfara fyrir byggðarlögin og aðila þar sem hafa af þessum verkum verulega hagsmuni. Ég hef hér af býsna mikinn beyg því um leið eru þessir aðilar, vörubifreiðastjórar og eigendur stórvirkra vinnuvéla, búnir að missa svo stóran hlut af tekjumöguleikum eða afkomumöguleikum sínum að hætt er við að þeir gefist upp, og þá eru mörg byggðarlög illa sett varðandi ýmis önnur þjónustuverkefni sín. Verkefni yrðu þá svo takmörkuð að á ýmsum stöðum yrðu engin tæki til brýnustu aðgerða, t. d. á vegum sveitarfélaga eða einstaklinga. Ég óttast þetta og reikna með því að margir beri ugg í brjósti út af þessu Aðferðin er hins vegar ekki sú að hætta við útboð, en það þarf að koma til móts við þessa heimaaðila og auðvelda þeim þátttöku og jafnréttisaðstöðu í útboðunum, annars detta þeir út einn af öðrum og stóru verktakarnir einir verða eftir á markaðinum, og því færri og stærri sem þeir verða því meiri hætta er á því að útboðin verði gagnsminni en þau eru þó nú, menn telji sér þá óhætt að bjóða hærra í verk í trausti þess að t. d. heimaaðilar geti alls ekki verið inni í myndinni. Þetta er að vísu ekki sértækt fyrir Vegagerð ríkisins og því á þessi umræða e. t. v. ekki beinlínis heima við umr. um vegáætlun nú, en tengslin vona ég að öllum séu augljós.

Í þessum þingönnum, þar sem hvert málið á fætur öðru er rekið hér í gegn með ótrúlegum hraða, er lítil von til þess að menn geti náð áttum, hvort sem um stór mál eða smá er að ræða hér, nema með ærinni fyrirhöfn og síst er ástæða til þess að tefja tíma manna hér með því að setja á langar ræður um þetta annars stóra mál sem full ástæða væri þó til. Ég skal því ekki tefja þingið með lengri tölu um þetta, en gjarnan mætti hún vera margfölduð ef maður gæti fengið eins og eina milljón fyrir hverja mínútu sem maður stæði hér í ræðustól til viðbótar í þau mörgu brýnu verkefni sem landsbyggðin bíður eftir.