17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6150 í B-deild Alþingistíðinda. (5522)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu á þessu máli. Ég þarf í raun og veru ekki að fara neitt inn á það sem hv. form. n. og framsögumaður komu hér inn á, en út af nokkrum orðum sem hér hafa fallið langar mig að minna á örfá atriði. Í fyrsta lagi markaði Alþingi stefnu um langtímaáætlun í vegagerð. Sú stefna var afmörkuð við vegagerð, var afmörkuð við ákveðinn hluta þjóðarframleiðslu alveg burtséð frá framlögum til annarra málaflokka, þar með talinna dagvistunarheimila. Þessi stefna var mörkuð af Alþingi sameiginlega eftir að mikið hafði verið unnið að undirbúningi málsins og við þessa stefnu hefur verið haldið í meginatriðum.

Þessi stefna fólst í því að leggja tiltekið hlutfall af þjóðarframleiðslu til vegamála og markmiðið var að það hækkaði á þessu ári úr 2.3 í 2.4. Það er eina fráhvarfið frá þeirri stefnu að það hækkaði ekki með þessari vegáætlun sem ég hafði hér framsögu fyrir. Hún var lögð hér fram í desember en framsaga fór fram 31. janúar. Hver þm. hefur því haft mjög góðan tíma til þess að fara yfir vegáætlun og það getur enginn skýlt sér á bak við þær annir sem núna eru síðustu daga í þeim efnum.

Þessi breyting gerir það að verkum að framlög til vegamála lækka ef ég man rétt um 63–64 milljónir. Höfuðlækkunin er vegna minnkandi þjóðarframleiðslu — því bið ég þm. að muna eftir og að taka eftir — það er tvisvar sinnum hærri upphæð. Heildarstækkunin nam því ef ég man rétt 191 millj. kr. 2/3 af þessari lækkun er vegna minnkandi þjóðarframleiðslu, vegna þess að þjóðarkakan hefur minnkað og í þessari stefnumörkun Alþingis var gert ráð fyrir þessu hlutfalli af þjóðarframleiðslunni.

Nú langar mig að koma aðeins inn á það sem hefur hér verið rætt og einn nm. í fjvn. skýrði frá áðan að hann hefði ekki skilið, hvort Vegagerðin hefði svona rúmar hendur og hvernig það væri hægt að þegar skornar væru niður 20 millj. væri raunveruleg aukning vegagerðar. Form. fjvn. skýrði þetta mjög rækilega. Það er hagstæðari vísitala vegagerðar og það hefur líka verið gert mikið átak í sambandi við útboð sem nokkrir þm. hér hafa tekið undir, sumir með nokkrum efasemdum og töldu að það þyrfti að fara varlega svona eins og gerist og gengur. En hér er um það að ræða að Vegagerðin fær miklu lengri tíma til undirbúnings. Það sem gert hefur verið nýtt núna er að vegagerðin hefur fengið heimild til þess að bjóða út að haustinu til þess að verktakar fái lengri vinnu fyrir sín tæki árið um kring. Það gerir þeim fært að nýta betur sín tæki og þar af leiðandi geta þeir unnið verkið fyrir minna fjármagn. Þetta gerir það að verkum að raunverulegar vegaframkvæmdir aukast um 7–11% af þessum tveimur ástæðum.

Til þess að gera langt mál stutt held ég að ég fari með nokkurn veginn réttar tölur að í þeim útboðum sem þegar er búið að gera í framkvæmdum á þessu ári í vegagerð vítt og breitt um landið munu þegar vera í útboðum milli 30 og 40 millj. kr. undir kostnaðaráætlun vegagerðarinnar. Þetta er höfuðástæðan fyrir því að framkvæmdamátturinn hefur aukist, það eru útboðin. Þetta ár sem ég hef verið samgrh. hafa flest útboð sætt athugasemdum og alltaf hefur fyrsta athugasemdin verið að það yrði að fara varlega gagnvart heimamönnum, þeir mættu ekki missa þetta út úr höndunum, ekki mættu koma menn úr öðrum landshlutum sem tækju verkin frá heimamönnum. En ef við ætlum að halda gamla laginu að láta vinna í heimavinnu þá minnkar verulega framkvæmdamagn til vegagerðar. Þess vegna hef ég staðið afar vel með Vegagerðinni í þeirra till. í þessum efnum þrátt fyrir óánægju víðast hvar og ég ætla mér að halda því áfram. En þau varnaðarorð, sem hafa komið fram hjá einstaka mönnum eru alveg réttmæt, það verður auðvitað í sumum tilfellum að líta á þetta nokkuð staðbundið. En nýframkvæmdirnar verða að vera með þessum hætti í auknum mæli. Alþingi er hvað eftir annað búið að samþykkja ályktanir um aukin útboð í opinberum framkvæmdum sem eru viðhöfð í flestum eða öllum öðrum málaflokkum og því ber að halda áfram.

Ég get vel skilið það sem 1. landsk. þm. sagði að fólk hér í næsta nágrenni við Reykjavík setur kannske ekki vegaframkvæmdir efst á sinn lista af því það er búið að framkvæma hér svo mikið á þessu svæði að hér er ekki um teljandi vandamál að ræða. Hitt er annað mál að þegar komið er lengra frá höfuðborginni fara hlutirnir að versna, þá eru vegamálin nánast sagt í vandræðaástandi mjög víða. Þess vegna eru framlög til vegamála alls ekki of há, þau eru raunverulega allt of lág.

Ef við miðum við önnur lönd og aðrar þjóðir og sérstaklega nágrannaþjóðir okkar þá erum við land sem er vanþróað í vegagerð, við erum ekki búin að ná sæmilegu meðaltali. Þó að meira en helmingurinn af umferðinni í landinu eða jafnvel um 2/3 sé nú kominn á bundið slitlag þá erum við með það stórt og mikið þjóðvegakerfi að við eigum þar langt í land, að ég tali nú ekki um jarðgöngin sem bæði Austfirðingar og við Vestfirðingar höfum sérstaklega mikinn áhuga á því að þau leysa í raun og veru svo fjölmörg önnur vandamál þegar þar að kemur.

Hv. 1. þm. Vesturl. nefndi lítið framtag sem er hér sér í lagi á 2. bls. um rannsóknir í Gilsfirði. Ég skal alveg játa það að ég lagði það persónulega til að það yrði tekið inn og Vegagerðin féllst á og taldi að þessar upphæðir ættu að nægja til þessara frumrannsókna. Ég tek alveg undir mikilvægi þess verks en það eru líka önnur verk sem eru komin nær og lengra áleiðis í undirbúningi sem við þurfum að halda áfram.

Ég taldi upp allmörg verkefni þegar ég fylgdi vegáætlun úr hlaði í janúarmánuði sem ég ætla ekki að endurtaka hér. En ég vil leggja áherslu á það sem form. fjvn. gat um og ég ræddi í raun og veru ítarlega hér í janúarlok að við þurfum að gerbreyta innheimtu þungaskattsins og fyrirkomulagi. Þar er óhemju mikill kostnaður sem ég sé eftir og talinn er vera um 5 millj. kr. Ég hefði heldur viljað fá þá fjármuni í framkvæmdir við vegagerð.

Ég ætla ekki að fara að tala um niðurskurðinn. Ég er búinn að standa í þessu niðurskurðartali undanfarna mánuði og maður hefur séð í fréttum og blöðum að talið hefur verið alveg sjálfsagt að skerða þessa vegaframkvæmd niður um nokkur hundruð millj. En ég léði ekki máls á meiri niðurskurði en 25 millj. til samgöngumála, þar af 20 millj. í vegamál og af því verður tekið af viðhaldi 6.9 millj. í stjórn og undirbúning, til brúargerðar og til vega í kaupstöðum og kauptúnum. En af nýju framkvæmdafé er hér um 8.6 millj. kr. að ræða, eða 1.6%, eins og frsm. fjvn. gat um.

Ég held að fyrst við nefnum niðurskurð á annað borð hafi varta verið hægt að komast neðar en þetta því að manni var eiginlega ekki stætt á því að neita algerlega allri samvinnu í þessum efnum. En ég vil taka það fram, eins og ég sagði hér í janúarmánuði, að þrátt fyrir að aðgát skuti höfð í sambandi við erlendar lántökur er það mín skoðun að fyllilega komi til greina, þó það sé ekki á þessu ári, að huga alvarlega að því að taka verulega stórt erlent lán til þess að hraða slitlagi á sem flesta aðalvegi landsins og hefja jarðgangagerð því að þar hafa orðið verulegar tækninýjungar á liðnum árum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég endurtek þakkir mínar til frsm. fjvn. og fjvn. allrar sem og allra annarra þm. fyrir það að hér hefur skapast ákaflega góð samstaða og samkomulagsvilji að halda áfram að vinna að því markmiði sem Alþingi setti með langtímaáætlun í vegagerð. Ég tek undir þakkir sumra þm. hér til Vegagerðarinnar, vegamálastjóra og hans nánustu samstarfsmanna og mér er sérstök ánægja af því að mega lýsa því hér yfir að ég get vart hugsað mér betra samstarf við nokkra menn en þá sem Vegagerð ríkisins stjórna. Þeir eru milli tannanna á mönnum og það eru alltaf fjöldamargir sem eru óánægðir með eitthvað, en ég tei að þeirri stofnun sé vel stjórnað og hún hefur haft gott samstarf við Alþingi allan þann tíma sem ég hef setið á þingi og var ég þó í 12 ár, held ég, í fjvn. og átti mikið samstarf við þá á þeim tíma.