17.05.1984
Sameinað þing: 91. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6152 í B-deild Alþingistíðinda. (5523)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég ætla að segja örfá orð út af niðurlagsorðum hæstv. ráðh. Ég tek mjög undir það, og gerði það raunar fyrr í umr. í janúarmánuði þó að minn flokkur hafi varað við auknum erlendum lántökum, að fyllilega kemur til greina að mínu áliti að taka verulegt lán til að hraða vegaframkvæmdum í landinu því eins og margoft hefur komið hér fram eru það þjóðhagslega arðvænlegustu framkvæmdir sem hægt er að fara í, a. m. k. eins og málum er háttað og hefur verið og væntanlega verður á næstunni. Hvað sem öllum flokkssamþykktum í mínum flokki liður tek ég því mjög undir það að í þessum þætti framkvæmda kemur það fyllilega til greina, að mínu viti, að taka verulega á og jafnvel taka stór lán til framkvæmda í vegagerð því vissulega getur það skipt sköpum hvernig staðið verður að vegaframkvæmdum í dreifbýlinu á næstu árum. Það eru svo ótalmargir þættir sem þar eru samtvinnaðir og yrðu þess valdandi, ef af yrði að slíkt yrði gert, að mundi gersamlega bylta öllum staðháttum og aðstæðum fólks á þessum svæðum til batnandi lífskjara og aukinnar velsældar miðað við það sem verið hefur og er nú. Þetta vildi ég taka undir með hæstv. ráðh., og þó ég sé ekkert sérstaklega að óska eftir því að hann verði sem lengst í ríkisstjórn við þær kringumstæður sem nú eru vænti ég þess að a. m. k. meðan hann er, hversu lengi sem það verður, hafi hann dug í sér til þess, hér eftir sem hingað til, að standa vel vörð að því er þennan þátt varðar og láta á engan hátt aðra aðila, sem eru úrdráttarmenn í þessum efnum og eru honum við hlið, hafa áhrif á í þeim efnum.