17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6153 í B-deild Alþingistíðinda. (5526)

Um þingsköp

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Vegna fsp. hv. 4. þm. Vesturl. og athugasemda um fundarhöld hér í kvöld get ég tekið undir það að það er mikið vinnuálag hér á þinginu og ekki síður á starfsfólki þingsins þessa dagana. Ég held hins vegar að þetta sé ekki meira vinnuálag nú þessa síðustu daga fyrir þinglausnir en endranær. Þetta virðist bera við á hverju einasta vori, a. m. k. frá því að ég kom hér til starfa á Alþingi sýnist mér þetta vera með sama hætti. Þess væri svo sannarlega óskandi að hægt væri að haga störfum þingsins þannig að til slíks þyrfti ekki að koma.

Ég vil einnig taka undir það að það er ekki síður álagið hér á starfsfólkinu. Það sáum við best í gærkvöldi þegar fundir voru hér í báðum þingdeildum og það þurfti að hafa hverja dagskrána af annarri tilbúna og lítill tími vannst fyrir starfsfólkið til að undirbúa það. Það ber sérstaklega að þakka fyrir það hvernig þó tókst vel til.

Hv. 4. þm. Vesturl. beindi fsp. til formanna þingflokka og sérstaklega síns þingflokks svo að ég geri ekki ráð fyrir að mér sé ætlað að svara fyrir þeirra hönd. Hins vegar vil ég gjarnan bæta því við að boðað var til fundar eftir hádegið í dag með forsetum og formönnum þingflokka. Þar voru þessi mál rædd og þessi fundur hér í kvöld er haldinn í framhaldi af þeim fundi. Síðan ætla ég að gefa formönnum þingflokka, sem hér hafa beðið um orðið, tækifæri til að svara.