17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6154 í B-deild Alþingistíðinda. (5527)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég held að þær athugasemdir, sem hv. 4. þm. Vesturl. gerði áðan, séu fyllilega réttmætar. Ég hef áður gagnrýnt það hér að skipulag vinnunnar í þessari stofnun væri ekki svo gott sem skyldi. Ég held það sé engin óhjákvæmileg nauðsyn að þinghaldið endi með þeim hætti sem það hefur alltaf gert, þ. e. með þessari vinnulotu þegar mál eru afgreidd nánast á færibandi og oft því miður ekki með nægilegri athugun. Reynslan hefur nú einu sinni sýnt það.

Á fundi þingflokksformanna og forseta, sem haldinn var kl. hálf tvö í dag, vakti ég máls á nákvæmlega þessu sama sem hv. þm. Skúli Alexandersson minntist hér á, þ. e. því álagi sem starfsfólk þingsins yrði nú að sæta vegna þessara miklu fundarhalda. Það kom fram á þeim fundi að þegar við ljúkum hér störfum kannske kl. 1 um nótt þá eru hér starfsmenn sem kannske eiga ólokið 2–4 klst. starfi en þurfa síðan að mæta til vinnu aftur að morgni. Þetta er auðvitað ekki gott.

En það verður að segjast eins og er að þessar athugasemdir mínar fengu engan sérstakan hljómgrunn í dag og ég játa að ég gerði ekki athugasemdir við það að ráðgerðir væru kvöldfundir í kvöld. Ég lýsti þeirri skoðun þingflokks Alþfl. að við teldum ekki æskilegt að hafa kvöldfund í kvöld, en það hlaut ekki undirtektir og ég hreyfði ekki frekari andmælum og taldi ekki ástæðu til þess eftir að ég var búinn að koma þessari skoðun á framfæri.

Ég hygg að við verðum að reyna að taka höndum saman um að laga þetta ástand, skipuleggja þessa vinnu betur. Það er engin hemja, eins og gerðist í Sþ. í dag, að skýrsla utanrrh. sé tekin til umr., sá mikilvægi málaflokkur, með þeim hætti sem þar var gert. Það komust nokkrir þm. að til að tjá sínar skoðanir um það mál. E. t. v. verður það tekið aftur á dagskrá á morgun, en þetta eru ekki hin ákjósanlegu vinnubrögð. Það er langur vegur frá.

Ég tek það skýrt fram að hér er ekki hægt og ekki ástæða til að beina gagnrýni að neinum einum aðila, þingforseta, forsetum eða formönnum þingflokka. Ég hygg að hér eigi allir hlut að máli. Þetta er bara mál sem við verðum að lagfæra með því að skipuleggja þessa vinnu betur. Ég er alveg sannfærður um að það er hægt og ég held að við gætum leitað okkur ráða og reynslu hjá kollegum okkar með grannþjóðum okkar þar sem ég veit að þessi mál eru miklu betur skipulögð. Ég hef orðið þess var í samtölum við norræna þm. að þegar verið er að skipuleggja fundahöld fram í tímann, kannske tvo, þrjá mánuði, þá segja þeir: „Nei, því miður, þennan dag eftir þrjá mánuði verður umræða um utanríkismál, eða einhvern málaflokk í þinginu, og þar verð ég að vera viðstaddur.“ Það er því ljóst að hægt er að skipuleggja þessa vinnu langtum betur. Að því held ég að við eigum að einbeita okkur. En hvort við getum núna í þessari lokatörn breytt einhverju miklu, það sýnist mér að muni verða næsta erfitt úr því sem komið er.