17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6158 í B-deild Alþingistíðinda. (5532)

Um þingsköp

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Mér kemur ekki til hugar að fara að deila við hv. 4. þm. Vesturl. um það hvenær ástandið hefur verið verst í þessum efnum sem við ræðum núna. Það skiptir ekki höfuðmáli. En hv. þm. segir að það hafi ekki verið verra í aðra tíð en nú. Ég leyfi mér að efast um þetta en ræði ekki frekar um það.

Það sem ég þekki best — og við þekkjum öll jafnvel, það er í Sþ. — þar hefur enginn kvöldfundur verið á þessu þingi nema eitt kvöld við afgreiðslu fjárlaga og ég hygg að menn hafi ekkert við það að athuga — fyrir utan kvöldið í kvöld fram undir kl. 10. Það er eini kvöldfundurinn sem verið hefur í Sþ. Það hefur einmitt verið leitast við að haga vinnubrögðum þannig. Og þó að ég nefni sérstaklega Sþ. þá veit ég að forsetar beggja deilda hafa gert allt, sem í þeirra valdi stendur, til að fylgja sömu stefnu.