17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6161 í B-deild Alþingistíðinda. (5553)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. meiri hl. (Lárus Jónsson):

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um þetta mál og svo undarlega vildi til að hún varð ekki sammála, klofnaði í afstöðu sinni til þessa máls. Við sem ritum undir meirihlutaálit mælum með því að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Nd. Þó hefur hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson fyrirvara um samþykki við 26. gr. frv., um bindiskyldu í Seðlabanka, og í ljósi tilkynningar sem barst frá Seðlabanka í dag kann að vera að fleiri hafi aths. við þá grein að gera áður en lýkur, en það verður að koma í ljós síðar.

Ég vil, virðulegi forseti, fara örfáum orðum um þetta viðamikla mál.

Ég vil þá byrja á að segja frá því að fyrir liggja upplýsingar um afkomu ríkissjóðs eftir fjóra fyrstu mánuðina. Þar munu útgjöld hafa farið um 230 millj. fram úr tekjuáætlun fjárlaga, sem einhvern tíma hefði þótt tíðindum sæta í ríkisfjármálum á Íslandi. Það eru aðeins 3–4% af heildarútgjöldum á þessu tímabili.

Þá vil ég drepa á eitt, sem mér finnst fráleitast í málflutningi hv. stjórnarandstæðinga í þessu máli, en það er að tala um að nú sé ætlunin að taka erlend lán til að greiða meðlög með óskilgetnum börnum í landinu. Jafnfráleita fullyrðingu hef ég ekki orðið var við á mínum þingferli sem er nú orðinn 13 ár. Hér er um það að ræða að sveitarfélögin, sem eiga að greiða þessa greiðslu, skulda ríkissjóði nærri 200 millj. kr. vegna þessa. Tryggingastofnunin hefur þegar fengið þetta greitt úr ríkissjóði og ríkissjóður að sjálfsögðu dregið yfir, til að geta greitt Tryggingastofnuninni þetta, í Seðlabankanum. Auðvitað vex engin skuld við það að þessi skuld sé færð yfir á þann skuldara sem raunverulega skuldar, þ. e. sveitarfélögin. Þetta ættu menn, svo einfatt með það er, að geta skilið.

Á hinn bóginn þarf að taka erlend lán til þarfa ríkissjóðs í ár, það hefur enginn dregið fjöður yfir það. Undanfarin ár hefur verið mikið um erlendar lántökur. Bókhaldslega séð hafa þær komið öðruvísi niður en í ár. Í nál. meiri hluta fjh.- og viðskn. eru upplýsingar frá Seðlabankanum settar fram í myndrænu formi um þróunina á þessu sviði undanfarin ár. Þar sést að erlendar lántökur til ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja hafa stórlega vaxið frá einu ári til annars. Það er mikið áhyggjuefni að e. t. v. tekst ekki á þessu ári að draga eins mikið úr þessu og stefnt var að upphaflega, en þó munu vonir standa til að markmið ríkisstj. um að þessar lántökur nemi ekki meiru en 60% af þjóðarframleiðslu í árslok standist.

Þá vil ég, virðulegi forseti, fara örfáum orðum um það sem mér finnst menn hafa rætt allt of lítið um í sambandi við ríkisfjármálin og þann vanda sem við er að etja í ríkisfjármálum og menn hafa kallað ýmsum nöfnum.

Ríkisútgjöld hafa óneitanlega aukist mjög undanfarið að raungildi. Kaupmáttur var á því tímabili mikill og í raun langt umfram getu þjóðarbúsins. Þessi kaupgeta hafði í för með sér mikinn viðskiptahalla og erlenda eyðsluskuldasöfnun, eins og kunnugt er, en ríkissjóður hafði jafnframt miklar tekjur af innflutningi og veltu sem af þessu stafaði. Skatttekjur ríkissjóðs fóru auk þess vaxandi í hlutfalli af þjóðartekjum.

Skatttekjur voru 1982 um 30.2% af þjóðarframleiðslunni, en skv. nýrri tekjuáætlun verða þær nú ekki nema 27.1%. Það er sem sagt stefnt að því að tekjur ríkissjóðs dragist mun meira saman en þjóðarframleiðslan þannig að ríkisbúskapurinn axli í raun miklu meira en sinn hluta af þeirri kjaraskerðingu sem óhjákvæmilega hefur orðið vegna minnkandi sjávarafla og rýrnunar þjóðartekna.

Væru þjóðartekjur þær sömu — og hér kem ég að kjarna málsins — og 1982 að raungildi og sama hlutfall af þjóðartekjum tekið í skatta til ríkissjóðs, þá næmu skattar á yfirstandandi ári milli 3.5 og 4 milljörðum kr. hærri fjárhæð en ný tekjuáætlun ríkissjóðs gerir ráð fyrir. Þetta er meginorsök vandans í ríkisfjármálunum. Ljóst var að sú stefnubreyting, sem ákveðin var með ráðstöfun ríkisstj. fyrir tæpu ári að hætta eyðslu umfram efni — og nú skal hæstv. fyrrv. fjmrh. hlusta grannt — hefur komið þungt niður á ríkissjóði. Þetta var frá upphafi ljóst öllum þeim sem að þessum ráðstöfunum stóðu.

Ef úr væri að spila 3.5–4 milljörðum kr. í tekjuauka hjá ríkissjóði fram yfir áætlanir væri ekki 2 milljarða kr. gat á ríkisfjármálunum, eins og hér hefur oft verið nefnt, heldur væri um 2 milljarða kr. greiðsluafgang að ræða. Það sést á þessum tölum að tekist hefur að þrýsta ríkisútgjöldunum verulega niður að raungildi undanfarið í fjárlögum þeim sem við búum við.

Ég skal ekki orðlengja frekar, virðulegi forseti, um þetta viðamikla mál, en ég vildi drepa á þessi örfáu atriði í tengslum við nál. meiri hl. fjh.- og viðskn.